Óendanleg tilviljun er yfirskrift sýningar Bjarkar Viggósdóttur í Þulu gallery í Marshallhúsinu. Björk hefur á ferli sínum haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hér á landi og víða erlendis, þar á meðal í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Evrópu og Asíu. Einkasýningar hennar hér á landi hafa meðal annars verið í i8, Listasafni Reykjavíkur og Hafnarborg.
„Ég vinn yfirleitt í marga miðla og geri það einnig á þessari sýningu. Hún er sambland af hljóði, vídeó og upplifun. Eins konar upplifunarinnsetning,“ segir Björk. „Ég nota hrísgrjónapappír og set blek frá Asíu á pappírinn. Þetta eru 30 metra langar rúllur og ljósabúnaður gerir að verkum að það myndast eins konar lifandi málverk. Þarna er líka vídeóverk sem er litablandað og unnið eins og teikning í forritinu After Effects – tilfinningin sem það skapar er eins og heimurinn sé að tala við mann. Ég fékk saumakonur til að sauma fyrir mig hringi sem hreyfast í rýminu og þarna eru líka postulínsskúlptúrar með bandi sem eru eins og lítil sólkerfi.
Það má segja að sýningin tengist vísindum og stjarnfræði. Ég lagðist í alls konar rannsóknir, til dæmis á hamförum. Í hljóðverki, sem er á sýningunni, bý ég til hljóð úr viðtölum við vísindamenn sem rannsaka hamfarir og hljóðið frá viðtölunum verður að tónum í hljóðvinnslunni. Hljóðið er ekki hátt en það er þarna. Sýningin snýst um vísindi, hlýnun jarðar, hamfarir og einhvers konar tengsl milli hugar og handar. Þetta er frekar óræð innsetning og tilviljunarkennd en það er samt einhver regla í rýminu.“
Um titil sýningarinnar segir Björk: „Óendanleg tilviljun tengist inn í vísindi og stjarnfræði en líka daglegt líf okkar. Óendanlegar tilviljanir eru fallegar og á þessari sýningu leitast ég við að koma þeim yfir í efniskenndan heim en um leið í einhvers konar upplifunarinnsetningu. Þetta er líka þátttökuverk því það eru þarna eru litlir míkrófónar sem varpa upp hljóði gestanna.“
Í sýningartexta sem Vilborg Bjarkadóttir skrifar segir að Björk sé listakona sem geri rýmið að leiksviði skynjunarinnar.
„Innsetningar virka oft eins og litlir heimar sem maður upplifir og skynjar,“ segir Björk. „Það var frábært að vinna að þessari sýningu. Þula er eitt flottasta gallerí landsins og það er skemmtilegt að fá svona gott tækifæri til að sýna þar. Marshallhúsið er líka fallegt hús listar og menningar.“
Það er nóg fram undan hjá listakonunni eftir að sýningunni í Þulu lýkur. „Það eru nokkrar sýningar fram undan, bæði 2025 og 2026. Til dæmis sýning sem ég vinn með grískri listakonu og verður í galleríi í Grikklandi en okkur langar líka til að koma með þá sýningu til Íslands. Við erum þarna að vinna að flottri hugmynd en ég má ekki segja meira frá því.“
Sýningin í Þulu stendur til 16. febrúar. Opið er miðvikudaga til sunnudaga frá 14.00-17.00