Tímamót Hver stórviðburðurinn rekur annan hjá hjartaskurðteymi King Faisal, fyrst hjartaskipti með aðstoð þjarka og nú ígræðsla hjartadælu.
Tímamót Hver stórviðburðurinn rekur annan hjá hjartaskurðteymi King Faisal, fyrst hjartaskipti með aðstoð þjarka og nú ígræðsla hjartadælu. — Ljósmynd/King Faisal-háskólasjúkrahúsið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Teymið okkar hér á hjartaskurðdeildinni er búið að vera í sérstöðu með að nota aðgerðaþjarka, eða vélmenni, til að hjálpa sér við að gera flóknar aðgerðir á hjarta,“ segir Björn Zoëga, aðstoðarforstjóri King Faisal-háskólasjúkrahússins…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Teymið okkar hér á hjartaskurðdeildinni er búið að vera í sérstöðu með að nota aðgerðaþjarka, eða vélmenni, til að hjálpa sér við að gera flóknar aðgerðir á hjarta,“ segir Björn Zoëga, aðstoðarforstjóri King Faisal-háskólasjúkrahússins í Sádi-Arabíu, í samtali við Morgunblaðið, spurður út í hjartaaðgerð þar á sjúkrahúsinu í síðustu viku sem var sú fyrsta sinnar tegundar í heimi sem þjarkar komu að.

Gekk aðgerðin út á að koma vélrænni dælu fyrir við hjartað sem er bráðabirgðaráðstöfun fyrir sjúklinga með alvarlega hjartabilun sem bíða eftir nýju hjarta og er hætt við að lifi biðina ekki af. Dælur þessar tæma blóð úr slegli og dæla því áfram gegnum græðling sem saumaður er á ósæðina. Afköst þeirra eru umtalsverð, margir lítrar á mínútu, og geta dælurnar tekið alveg yfir blóðflæðið, jafnvel við umtalsverða áreynslu, en hjarta meðalmanns dælir fimm lítrum á mínútu.

Tíu dagar í stað sextíu

Olli þjarkanotkun hjartaskurðteymisins vatnaskilum á King Faisal-sjúkrahúsinu eins og Björn útskýrir.

„Þetta varð til þess – eftir að við endurskipulögðum okkar aðgerðir í ágúst í fyrra og hvernig við ætluðum að framkvæma þær – að við gátum framkvæmt fyrstu aðgerð í heimi þar sem við skiptum um hjarta með aðgerðaþjarka, það hafði aldrei verið gert áður í heiminum,“ segir Björn frá.

Þessi fyrsta aðgerð gekk mjög vel og segir Björn að hjartaskiptaaðgerðum með fulltingi þjarka hafi því verið haldið áfram. Snemma á þessu ári var svo komið að fyrstu aðgerðinni sem sneri að því að koma framangreindri dælu fyrir og fer aðstoðarforstjórinn ekki í grafgötur með að notkun þjarkans hefði haft verulegar breytingar í för með sér á heildarferlinu – ekki síst hvað velferð sjúklingsins snerti.

„Sjúklingurinn, sem venjulega hefði legið jafnvel sextíu daga á gjörgæsludeild eftir svona aðgerð, var kominn heim til sín eftir tíu daga því það er svo mikið minna gat sem er gert á brjóstkassann,“ segir Björn og útskýrir með því að þjarkar þurfi mun minna rými til að athafna sig við skurðaðgerðir en mannshöndin.

Ekkert margar svoleiðis í boði

„Þetta var 35 ára gamall maður sem er að bíða eftir hjarta og með þessari pumpu getur hann lifað svona nokkuð eðlilegu lífi á meðan hann bíður,“ segir Björn. „Hann útskrifaðist bara heim á næstu dögum því þetta er svo mikið mikið minna inngrip þegar vélmenni er notað, það er bara allt annað,“ segir hann enn fremur.

Allsnúið hafi verið að framkvæma hjartadæluígræðslurnar áður, en með tækni, sem skurðlæknar King Faisal-sjúkrahússins hafa nú að sögn Björns fengið einkaleyfi á, hafi aðgerðin nú við upphaf nýs árs tekist. „Þetta hefur aldrei tekist áður í heiminum og það er það sem er merkilegt við þetta, það er ekkert oft sem maður nær að gera aðgerðir sem skipta svona miklu máli í fyrsta skipti. Það eru ekkert margar svoleiðis í boði,“ segir aðstoðarforstjórinn í Sádi-Arabíu og fær illa dulið gleði sína yfir framförunum.

Í fremstu röð í heiminum

Kveðst hann vonast til þess að hjartaskurðteymi sjúkrahúss hans nái að halda áfram á sömu braut. „Mér sýnist ýmislegt vera í burðarliðnum sem getur hjálpað okkur með þetta, spítalinn sem ég er með hérna er í fremstu röð í heiminum í alls konar notkun á aðgerðaþjörkum, við vorum til dæmis fyrst í heiminum til að nota aðgerðaþjarka til að græða lifur í mann, það var síðasta vor, þannig að við erum mjög sterk í þessu og þessi þróun er mjög ör alls staðar,“ segir Björn Zoëga, aðstoðarforstjóri King Faisal-háskólasjúkrahússins, að lokum af gangi læknavísindanna í hjarta Mið-Austurlanda.