— Ljósmynd/Guðmundur Karl Sigurdórsson
Hvers vegna ákvaðstu að henda í tónleika nú í upphafi árs? Það er einfaldlega vegna þess að ég hef svo gaman af þessu. Ég hef haldið tónleika árlega í Bæjarbíói og held því áfram meðan fólk nennir að mæta

Hvers vegna ákvaðstu að henda í tónleika nú í
upphafi árs?

Það er einfaldlega vegna þess að ég hef svo gaman af þessu. Ég hef haldið tónleika árlega í Bæjarbíói og held því áfram meðan fólk nennir að mæta.

Hvaða lög verða á dagskrá?

Ég er með samsuðu af lögum sem ég hef gert sjálfur og með Mannakornum. Ég er með toppmenn með mér í bandinu og fer vítt og breitt um sviðið. Ég næ yfirleitt góðu sambandi við tónleikagesti sem taka gjarnan undir. Það eru ákveðin lög sem ég þarf ekkert að hafa fyrir að syngja sjálfur. Mér þykir vænt um það.

Ertu alla daga að vinna í tónlist?

Já, ég er vakinn og sofinn yfir þessu en er bara að dunda við þetta eins og ég kæri mig um. Það hefur verið nóg að gera undanfarið. Ég var að syngja á tónleikum til heiðurs Gunnari Þórðarsyni sem var óskaplega gaman og fyrir jólin vorum við að heiðra Magga Eiríks. Svo var ég með jólatónleika með Brunaliðinu.

Þannig að þú ert ekkert sestur í helgan stein?

Nei, alveg af og frá. Alls ekki. Ég hef sjaldan haft meira gaman af því að vera tónlistarmaður.

Ertu eitthvað sjálfur að semja?

Nei, ég er ekki mikill lagasmiður en er nýbúinn að taka upp lag eftir son minn, lagið Ég skal breyta heiminum.

Hvað stendur upp úr þegar þú horfir yfir ferilinn?

Það er ekki neitt eitt sem stendur upp úr en það hefur margt skemmtilegt gerst. En það voru oft erfiðir tímar í gamla daga hjá tónlistarmönnum, hæðir og lægðir eins og hjá öllum. Það hefur verið gaman en oft strögl.

Hvert er uppáhaldslagið þitt?

Það er nýjasta lagið. Ég lifi bara í núinu. Það er langbest.

Pálmi Gunnarsson, ásamt nokkrum af bestu hljóðfæraleikurum landsins, heldur tónleika í Bæjarbíói 23. og 24. janúar. Þar mun hann flytja öll sín bestu og þekktustu lög. Hinn 31. janúar endurtekur hann leikinn á Sviðinu á Selfossi. Miðar fást á tix.is.