Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
„Samþykkt um að reisa mannvirki á lóð sem Þróttur hefur samningsbundin afnot af er markleysa. Þróttur telur stjórnsýslu borgarinnar í málinu ámælisverða og óskar eftir að borgarráð taki málið til umfjöllunar.“
Þetta segir í bréfi sem Knattspyrnufélagið Þróttur hefur sent borgarráði og undirritað er af Bjarnólfi Lárussyni formanni. Í bréfinu ítrekar Bjarnólfur þá afstöðu félagsins að landsvæðið sem um ræðir verði ekki tekið af því einhliða.
Í desember sl. samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkur að halda áfram vinnu sem snýr að þróun og byggingu safnskóla á unglingastigi. Kom þar einnig fram að byggður verður nýr safnskóli fyrir unglinga í Laugardal og er áætlað að hann muni rísa á svokölluðum Þríhyrningi (Miðheimum) milli Skautahallarinnar og félagsheimilis Þróttar og Ármanns.
Á þríhyrningnum eru grasvellir sem notaðir eru til æfinga og keppni, m.a. á alþjóðlega unglingamótinu Rey Cup sem haldið er á hverju sumri.
Málið fari í faglegra ferli
„Með erindi þessu til borgarráðs vill Þróttur lýsa yfir undrun sinni á vinnubrögðum borgarinnar og lýsa yfir óánægju með samráðsleysi við umrædda ákvarðanatöku. Þá er einnig farið fram á að borgin komi málinu í faglegra ferli gagnvart félaginu,“ segir Bjarnólfur í bréfinu.
Segir í bréfinu að mikilvægasti þáttur athugasemda félagsins varði þá staðreynd að Þróttur hafi ótímabundin endurgjaldlaus afnot af því svæði sem nefnt er Þríhyrningurinn á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg frá 1996. Það ár flutti félagið starfsemi sína úr Sæviðarsundi í Laugardalinn samkvæmt samkomulagi við Reykjavíkurborg.
Þessi afnotaréttur Þróttar sé án kvaða og skuli haldast svo lengi sem Þróttur hefur starfsemi í Laugardal. Eingöngu sé hægt að takmarka þann rétt með gagnkvæmu samkomulagi beggja aðila og þá eingöngu á þeim forsendum að það komi í það minnsta jafn góð aðstaða í staðinn.
„Samningurinn er ótímabundinn og Þróttur hefur ekki samþykkt neinar breytingar á honum og honum verður ekki breytt einhliða,“ segir Bjarnólfur.
Með bréfi Þróttar fylgdu athugasemdir Þróttar frá í júní 2024, en þá hafði félagið nýlega frétt að mögulega myndi Þríhyrningurinn tekinn undir skólabyggingu.
Í athugasemdunum kemur fram að ef af byggingu safnskóla fyrir unglingastig verður þá telur Þróttur rétt að horft sé heildstætt á aðstöðumál skóla og íþrótta í Laugardal. Nauðsynlegt sé við undirbúning uppbyggingar að haft sé samráð við hagaðila og horft til þess að samhliða séu leyst aðstöðumál ört vaxandi íþróttafélags sem hafa verið í biðstöðu í mörg ár. Tryggja þurfi börnum og ungmennum viðunandi aðstöðu.
„Þróttur er reiðubúinn til að leita lausna með Reykjavíkurborg þannig að það fjármagn sem fer í verkefnið nýtist sem best. Þróttur mun ekki gefa eftir hluta af félagssvæði sínu,“ sagði í athugasemdinni. Þá þegar, þ.e. árið 2024, var aðstaða Þróttar ljós.
Athugasemdir við vinnubrögð
Við umfjöllun málsins í borgarráði síðstliðinn fimmtudag bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að þeir gerðu alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð meirihlutans að ákveða uppbyggingu unglingaskóla á íþróttasvæði Þróttar án viðunandi samráðs við félagið. Telja fulltrúarnir vel mega finna nýjum unglingaskóla æskilegri lóð á svæðinu, til að mynda á horni Suðurlandsbrautar og Reykjavegar niðri við Engjaveg. Þar séu góðar tengingar bæði við almenningssamgöngur og stígakerfi á svæðinu.