Rag
Rag — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veigamiklar breytingar verða á næstunni gerðar á stjórnskipulagi Landbúnaðarháskóla Íslands með sameiningu þriggja fagdeilda í eina. Líf og land er heitið á nýrri sameinaðri deild og undir þeim hatti verður öll kennsla í skólanum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Veigamiklar breytingar verða á næstunni gerðar á stjórnskipulagi Landbúnaðarháskóla Íslands með sameiningu þriggja fagdeilda í eina. Líf og land er heitið á nýrri sameinaðri deild og undir þeim hatti verður öll kennsla í skólanum. Síðustu árin hafa deildir skólans verið Ræktun og fæða; Náttúra og skógur; og Skipulag og hönnun. Hefur þessi uppsetning miðast við að tryggja hverju sviði sína sérstöðu og sýnileika.

Bæta yfirsýn og einfalda skipulag

„Nú er hins vegar kominn tími á breytingar. Það ber að taka fram að þetta er ekki lengur bændaskóli; LbhÍ er háskóli á sviði landbúnaðar og umhverfisfræða þar sem fjallað er á breiðum grundvelli um nýtingu á landsins gæðum,“ segir Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor LbhÍ í samtali við Morgunblaðið.

„Að starfrækja þrjú svið þjónaði vissulega sínum tilgangi en því fylgdi flækjustig. Því stokkum við spilin nú. Megintilgangur þessa er að einfalda skipulag og rekstur, auka hagræði, bæta yfirsýn og gera einingar sterkari. Samhliða verður tryggt að sýnileiki námsins haldist í gegnum námsbrautir. Jafnframt verður kappkostað að koma á framfæri niðurstöðum rannsókna á sviði landbúnaðar og umhverfismála, sem unnar eru innan skólans, enda skipta þær miklu máli fyrir samfélagið allt.“

Störfum er breytt

Með breytingum nú verða núverandi störf deildarforseta og varadeildarforseta þriggja deilda lögð niður jafnhliða því sem auglýst er eftir nýjum deildarforseta Lífs og lands. Umsóknarfrestur er til 31. janúar. Sá deildarforseti mun jafnframt stýra vísindaráði skólans. Þá er stofnað til nýs starfs kennsluforseta sem mun hafa yfirumsjón með námi skólans á öllum námsstigum, það er grunn- og framhaldsnámi sem og stafsmenntun.

„Hlutverk deildarforseta verður einkum faglegi þátturinn en kennsluforseti mun sinna skipulagi, uppsetningu og gæðum kennslu. Mikilvægt er að tryggja að nemendur fái kennslu og aðstöðu af háum gæðum, svo og virka endurgjöf og stuðning. Kennsla þarf að vera í sífelldri þróun og taka mið af tækni og gervigreind.“

Stórir styrkir hafa fengist

Í dag eru alls um 400 nemendur við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem er með höfuðstöðvar á Hvanneyri og starfsstöð á Keldnaholti í Reykjavík. Í búfræði eru tæplega 60 nemendur en svo koma til námsleiðir á háskólastigi, til dæmis í búvísindum, hestafræði, landslagsarkitektúr, skipulagsfræði, skógfræði og umhverfisvísindum. Þá er samvinna um landgræðslufræði við Gró – þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem utanríkisráðuneytið starfrækir á Íslandi.

Loks má nefna að verið er að setja á laggirnar nýtt starf fjármálastjóra rannsókna LbhÍ. Þar kemur til að sókn í samkeppnissjóði hefur aukist og stórir rannsóknastyrkir hafa skilað sér til skólans á síðustu árum. „Því er brýnt að efla rannsókna- og alþjóðasvið. Með því má tryggja góðan árangur þeirra verkefna sem fá stuðning til áframhaldandi sóknar,“ segir Ragnheiður.