Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 25. júlí 1977. Hún lést á HSN Blönduósi 6. janúar 2025.
Foreldrar hennar eru Kristín Kristmundsdóttir, f. 18. mars 1955, og Þorsteinn Jakobsson, f. 13. september 1951. Fósturfaðir Hrefnu og eiginmaður Kristínar er Vilhelm Björn Harðarson, f. 13. ágúst 1962. Eiginkona Þorsteins er Rosario Dungog, f. 28. apríl 1962.
Systkini hennar sammæðra eru Kristín Jóna, f. 1973, Hörður Aðils, f. 1986, og Ástrós Villa, f. 1990. Systkini hennar samfeðra eru Jóhanna, f. 1971, Þröstur Ránar, f. 1987, Dalrós, f. 1991, og Jakob, f. 2001.
Hrefna Dögg bjó fyrstu ár ævi sinnar á Höfn en fluttist fjögurra ára til Skagastrandar og þar átti hún heimili, með hléum, til dánardags.
Eiginmaður Hrefnu Daggar er Guðmundur Henry Stefánsson, f. 22. mars 1975. Hann er sonur hjónanna Sigríðar Gestsdóttur, f. 26. mars 1954, og Stefáns Jósefssonar, f. 9. september 1950.
Hrefna Dögg og Guðmundur eignuðust tvö börn; Sigríði Kristínu, f. 8. nóvember 2008, og Sæþór Daða, f. 29. september 2010.
Útför Hrefnu Daggar fer fram frá Hólaneskirkju á Skagaströnd í dag, 18. janúar 2025, klukkan 14.
Elsku fallega systir mín.
Hvar á ég að byrja? Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um þig er þakklæti, ást, virðing og umfram allt væntumþykja. Það er enginn í heiminum með fallegra hjarta en þú elsku Hrefna mín. Endalaus jákvæðni og þrautseigja leyfði okkur að hafa þig hjá okkur í öll þessi ár. Sama hversu mikið veik þú varst, þá misstirðu aldrei dampinn heldur barðist eins og sönn baráttukona alla leið með þinni einstöku jákvæðni. Þú hefur svo sannarlega sýnt okkur hvað það skiptir miklu máli að vera sterkur, halda fast í vonina og berjast fyrir því sem maður elskar og halda áfram þrátt fyrir endalausar hindranir.
Það sem þú elskaðir mest var að hafa fólkið þitt hjá þér, stóra sem smáa. Það var ekkert betra en kaffibolli og spjall með þér. Ég mun sakna þessara gæðastunda með þér elsku systir mín, en ég hef þær í hjartanu og er ævinlega þakklát fyrir þær.
Þegar ég var lítil fékk ég alltaf að skottast með þér sama hvað, alltaf tókstu mig með þér. Öll þessi 80's-90's-lög sem ég elska í dag eru þér að þakka og ég get yljað mér við þau lög sem minna mig á þig og okkur saman. Ég gæti haldið endalaust áfram og sagt frá alls konar klaufalegum, fyndnum og fallegum minningum en ég ætla að eiga þær bara fyrir mig.
Sambandið ykkar Guðbjargar minnar var alveg einstakt og svo ótrúlega fallegt og undir það síðasta voru ykkar uppáhaldsgæðastundir að liggja uppi í sófa og horfa saman á Astrid Lindgren-myndirnar. Þegar við fengum svo þær fréttir að þú jólabarnið sjálft værir að koma aftur heim þremur dögum fyrir jól gladdi það okkur öll svo mikið, þú ákvaðst svo að sofna svefninum langa á síðasta degi jóla (þrettándanum). Sorgin er yfirþyrmandi en á sama tíma er maður þakklátur fyrir að þú þurfir ekki að þjást lengur elsku hjartað mitt. Ég tek undir það sem Guðbjörg okkar sagði, að þú værir „fallegasti engill í heiminum geiminum uppi í skýjunum“.
Ég mun heiðra minningu þína með því að lifa lífinu af sama hugrekki og ástríðu og þú gerðir alveg til síðasta dags.
Megi minning þín lifa áfram í hjörtum okkar.
Takk fyrir allt elsku fallegi engillinn minn.
Ég elska þig.
Þín litla systir,
Ástrós Villa.
Hrefna Dögg. Elsku fallega, hláturmilda og blíða bróðurdóttir mín hefur kvatt þennan heim allt of snemma. Hún gaf svo sannarlega af sér þann tíma sem hún átti hér, vinmörg og elskuð af öllum. Ég var á ellefta ári þegar hún fæddist og var orðin að sjálfhverfum unglingi þegar hún var að komast á legg. Þessi rauðhærða líflega skotta var fljót að vinna hug minn og hjarta og fékk hún iðulega að hanga, dansa og fíflast í hinu allra heilagasta, herbergi unglingsins, þegar hún var í heimsókn. Um tíma hittumst við ekki oft, en síðastliðin ár treystum við böndin á ný. Ég er þakklát fyrir okkar nærandi og skemmtilegu samverustundir, þakklát fyrir að hafa eytt gleðistundum með henni síðustu árin. Hún var sönn hetja sem barðist lengi við illvígan sjúkdóm með einstaka jákvæðni og lífsorku að vopni.
Ég minnist hennar með söknuði, en mest af öllu finn ég til með hennar nánustu sem hafa misst glaðværa engilinn sinn. Blessuð sé minning elsku Hrefnu Daggar.
Með kvöldinu birti stöðugt
Um miðnætti voru létt ský á himni
Geislandi glaðvær
Ský sem heita örugglega eitthvað
Við heitum líka örugglega eitthvað
Hvaðan kemur þessi birta
sem stöðugt vex með kvöldinu?
Hvaðan kemur þessi
geislandi glaðværð?
Öll þessi heilaga gleði!
Vatn í geislandi skál
Geislandi vatn í skál
(Sigurður Pálsson)
Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir.
Okkar elsku besta Hrefna Dögg hefur kvatt þennan heim eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm.
Á svona stundu eru spurningarnar fleiri en svörin, hvernig er þetta sanngjarnt?
Eftir situr fjölskylda í sárum, með stórt skarð, mikinn missi og gríðarlegan söknuð yfir manneskju sem að öðrum ólöstuðum var með stærsta og fallegasta hjartað, úr skíragulli, skuldbindingalaust með pláss fyrir allt og alla án fordóma og án dóma.
Fátækleg orð um fráfall manneskju sem framar öllum átti skilið það besta og laðaði fram það besta í samferðamönnum sínum í daglegu amstri og baráttu sem háð var með æðruleysi, hugrekki og umfram allt hörku.
„Halló halló Guðjón Óli,“ heyrist kallað þegar Hrefna okkar kemur svífandi inn til okkar með geislandi brosið og blíða rödd.
Góðmennskan skein af henni, og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Guðjón Óli, sem tjáir sig ekki með orðum, brosti og hló, hristi sig allan í stólnum yfir því að vinkona hans væri komin. „Er Hrefna komin, a“ „sagði“ hann og var skrækur í röddinni, hann var spenntur og glaður, Hrefna var svo sannarlega komin. Alltaf var honum heilsað fyrst af öllum, lýsandi dæmi fyrir hjartahlýja manneskju sem var alltaf tilbúin til að sýna þeim sem minna mega sín meiri gæsku og hlýju en aðrir. Hún leit eftir því líka að krakkarnir þeirra Gumma, Sigríður Kristín og Sæþór Daði, gerðu slíkt hið sama og sannarlega þurfti ekki að passa upp á það en börnin læra hvað fyrir þeim er haft.
Hrefnu var umhugað um fólkið sitt alla tíð, hún spurði alltaf eftir strákunum okkar, hún var þeirra helsta klappstýra þegar foreldrarnir voru með eitthvert múður, reyndar spurði Hrefna alltaf um þá sem ekki voru staddir í þeim tíma og rúmi sem hún var í á líðandi stundu, hún lét sig varða og hana varðaði.
Hrefnu stóð ekki á sama, og það mátti læra mikið af henni, eða eins og góður drengur sagði: „Ef það væru bara allir eins og hún Hrefna.“
Geislar bros, nú fellur tár,
minningar birtast og vakna.
Í huganum þykkt, og eld-litað hár,
þín eigum við eftir að sakna.
Kveður ljósið okkar bjarta,
þá leiðir okkar skilja.
Sorg og söknuður í hjarta,
minningarnar ylja.
Elsku Gummi, Sigríður Kristín og Sæþór Daði, missir ykkar er mestur og sárastur.
Megi guð vernda ykkur, blessa og styrkja.
Með hjartans þökk fyrir allt og allt,
Jón Örn, Þórdís Erla, Björn Ívar, Stefán Freyr og Guðjón Óli.
Það er ótrúlega sárt að hugsa til þess að komið sé að kveðjustund. Hrefna var einstök manneskja. Alltaf hress og kát, svo lífsglöð og dásamleg og með frábæran húmor.
Þegar kemur að kveðjustund hugsar maður til baka og margar minningar koma upp í hugann sem ég verð ævinlega þakklát fyrir og þær ylja á þessum erfiðu tímum. Ég er svo heppin að hafa getað kallað Hrefnu vinkonu mína frá því ég man eftir mér. Ég man svo vel eftir fermingardeginum okkar. Um kvöldið fórum við út í fermingardressunum okkar og með alla skartgripina sem við fengum í fermingargjöf, svakalegar skvísur. Svo það var snemma ljóst að hún var mikið fyrir glingur og skart. Ég man svo vel eftir öllum sveitaböllunum sem við náðum að lauma okkur inn á þrátt fyrir að vera ekki komnar með aldur. Við þökkuðum oft fyrir að ekki voru til snjallsímar á þessum árum. Það lýsir Hrefnu vel að þegar ég var grasekkja með börnin mín þá var hún alltaf boðin og búin að vera til staðar. Ein af mörgum dásamlegum minningum sem koma upp í hugann er þegar við vorum í hárgreiðsluleik með Rakel og Karen og Hrefna hafði oft orð á því hversu mjúkhentar þær voru og við grínuðumst oft með það hvort hárgreiðsluleikirnir væru meira fyrir okkur en þær. Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar af Túnbrautinni og alla skemmtilegu hittingana okkar eftir að við fluttum í Hafnarfjörðinn. Oftar en ekki skipulögðum við matarboð þegar hún og fjölskyldan komu suður þar sem góður matur var mikið dálæti hjá okkur báðum.
Hrefna var hetja. Hún kenndi okkur svo margt um þrautseigju, jákvæðni, styrk, kærleika og baráttuvilja síðustu ár enda barðist hún eins og ljón allt til síðasta dags við erfitt krabbamein.
Fráfall Hrefnu skilur eftir sig stórt skarð hjá svo ótal mörgum og það segir meira en mörg orð.
Elsku Gummi, Sigríður Kristín, Sæþór Daði og nánustu aðstandendur, ykkur sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.
When I think of angels
I think of you
And your flaming red hair
and the things that you do.
I heard you had left
no it couldn't be true
When I think of angels
I think of you.
Gods speed to you angel
wherever you go
although you have left
I want you to know
My heart's full of sorrow
I won't let it show
I´ll see you again
when it's my time to go.
Hugsandi um engla ég hugsa til þín.
Með hárið þitt eldrautt og heilbrigða sýn.
Er lát þitt ég frétti brást lífstrúin mín.
Hugsandi um engla ég hugsa til þín.
Guð fylgi þér engill þá ferð sem þér ber.
Þótt farin þú sért, þá veistu sem er.
Að sorg okkar hjörtu nístir og sker.
Við sjáumst á ný þegar kemur að mér.
(Þýð. ÓGK)
Takk fyrir allt.
María Jóna (Maja Jóna).
Elsku hjartans Hrefna mín.
Mikið ofboðslega er erfitt að setjast niður og skrifa kveðjuorð til þín elsku vinkona, ég vil ekki kveðja. En á sama tíma er ég þakklát fyrir okkar dýrmætu vináttu, vináttu frá því við vorum bara litlar stelpur á Skagaströnd. Ég er einnig þakklát fyrir allt það sem þú kenndir mér. Glasið var alltaf hálffullt hjá þér og lífið majónes og rjómi, glimmer og gleði. En lífið var svo sannarlega ekki alltaf svoleiðis hjá þér elsku ofurhetjan mín. Að horfa upp á þig takast á við stærsta og erfiðasta verkefni lífs þíns, alltaf svo æðrulaus og bjartsýn. Fréttirnar voru alltaf pínu góðar að þínu mati meðan við hin sátum hljóð og efuðumst smá. Þú varst alltaf aðeins betri í dag en í gær. Þú settir bara smá „dass“ af glimmeri og þá varð allt betra. Þú sást alltaf það jákvæða í öllu og öllum. Ég ætla að vanda mig að sjá lífið eins og þú gerðir elsku besta mín. Minningarnar eru óteljandi og ljúfsárt að rifja þær upp. En mikið ofboðslega á ég eftir að sakna þess að fá ekki knúsin þín, kossana og alla væntumþykjuna sem þú gafst alltaf frá þér. Það var svo dásamlega gaman að heyra þig segja góða sögu með öllu þínu látbragði og röddum sem þér einni var lagið. Það er sárt að eiga ekki eftir að hlæja með þér þangað til mig verkjar í magann. Þú varst ljúfust allra og mesta klappstýran. Alltaf svo áhugasöm um allt það dásamlega sem var að gerast hjá okkur hinum. Þú elskaðir að fá að fylgjast með og taka þátt í þeim ævintýrum sem við hin vorum að upplifa og njóta. Þú lifðir fyrir elsku Gumma þinn, Sigríði, Sæþór, fjölskyldu og vini. Þú snertir alla sem kynntust þér með bjarta brosinu þínu, bláu augunum og hjartahlýjunni.
Elsku Gummi, kletturinn og stóra ástin hennar Hrefnu, það er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með ykkur hjónum takast á við þessa innrás í ykkar líf. Þið voruð einstök saman.
Elsku Sigríður Kristín og Sæþór Daði, gullin hennar mömmu ykkar. Það er svo ótrúlega ósanngjarnt og sárt að þið hafið ekki fengið lengri tíma með henni. Hún var einstakur gullmoli og það er dýrmætt og ljúft að sjá glitta í hana í ykkur elskurnar mínar.
Elsku Gummi, Sigríður Kristín og Sæþór Daði, Stína, Villi, Jóna, Hörður og Ástrós, Steini og Rosario, Sigga og Stebbi og allt ykkar dýrmætasta fólk. Mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið ég góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Góða ferð elsku Hrefna mín, ég elska þig endalaust og meira.
Þín vinkona að eilífu,
Halla Kristín.
Elsku hjartans Hrefna – okkar allra besta kona.
Við erum óendanlega þakklátar fyrir að hafa fengið að vera í þínum vinkonuhring og ganga í gegnum lífið með þér í allri þeirri gleði, jákvæðni og þrautseigju sem þú bjóst yfir. Þú varst ein fallegasta og magnaðasta kona sem við þekkjum og varst gerð úr einhverju allt öðru en annað fólk. Baráttan við veikindin þín fram að síðasta andardrætti var ótrúleg.
Við komum inn í líf þitt á mismunandi tíma. Það var svo fyrir 15 árum sem við ákváðum sjö stelpur að hittast reglulega heima hjá hver annarri og hafa það huggulegt saman, njóta og borða. Það höfum við svo sannarlega gert, en það sem einkenndi stundirnar okkar mest var gleðin og hláturinn. Engin okkar sagði skemmtilegri sögur en þú, engin mundi atvik betur en þú og ekki vantaði leikhæfileikana hjá þér.
Við fórum í tvær dásamlegar ferðir saman. Önnur var helgarheimsókn okkar til Elvu sem þá var flutt til Ólafsvíkur. Hin var til London. Þar drukkum við menningu borgarinnar í okkur með mojito á kantinum, „extra sweet“ eins og þú sagðir alltaf. Við brölluðum ýmislegt, „kíktum“ að sjálfsögðu í Primark. Sú ferð endaði á því að Jóna systir þín leysti þig út þremur tímum síðar þar sem Visa-kortið þitt klikkaði við kassa. Seinna um kvöldið var farið að sýna hvað hefði verið keypt og komu þá m.a. tvær eins flíkur upp úr þínum poka. Vá hvað við hlógum.
Öll ástin þín – sem þú gafst fólki í kringum þig.
Öll knúsin þín – sem voru hlýjust og best.
Öll hlýjan þín – sem þú hefur kennt okkur að gefa áfram.
Öll skilaboðin þín – sem er ómetanlegt að eiga bæði í riti og tali.
Öll tárin, þrjóskan og ekki síst jákvæðnin þín – aðspurð varst þú alltaf „betri í dag en í gær“.
Allir kaffibollarnir þínir – bestu bollarnir, sem elsku Gummi þinn er sannarlega búinn að mastera.
Allar veitingarnar þínar – nógu mikið af rjóma og majó.
Allur hláturinn þinn – fallegasti, skemmtilegasti og besti.
Allur glæsileikinn þinn – glimmer og pallíettur voru þitt aðalsmerki.
Mikið sem við eigum eftir að sakna þín elsku besta á svo margan hátt. Sú staðreynd að þú sért dáin og að við munum ekki hitta þig í gleði og sorg er svo sár. Það sem huggar okkur í sorginni er að við trúum því að núna líði þér betur. Farin að segja sögur, syngja, blanda kokteila á milli kaffibollanna og fylgjast stolt með dásamlega klettinum þínum og fallegu börnunum ykkar sem þú átt sannarlega svo mikið í.
Ljúf og falleg minning um þig elsku besta okkar mun lifa áfram í okkar hjörtum.
Við ætlum að tileinka okkur alla þá gleði og jákvæðni sem þú kenndir okkur og reyna að sjá alltaf það fallegasta við lífið því það kemur okkur alltaf aðeins lengra.
Við lofum þér að við „Systurnar og Sigga“ munum passa eins vel og við getum upp á elsku Jónu systur þína.
Elsku Gummi, Sigríður Kristín, Sæþór Daði og aðrir ástvinir. Við vottum ykkur öllum okkar dýpstu samúð með hlýju í hjarta að hafa kynnst og fengið að taka þátt í lífi elsku Hrefnu.
Þínar að eilífu,
Aðalheiður, Ásta, Hafdís (Dísa), Elva og Sigríður (Sigga).
Ein af mínum uppáhaldsmanneskjum frá Skagastrandarárum okkar Guðjóns er Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir. Þessi bráðgáfaða, hlýja og skemmtilega stúlka hefur nú kvatt okkur eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Við kveðjum hana með sorg í hjarta en þó fyrst og fremst með þakklæti fyrir dásamlega viðkynningu.
Þegar við hjónin réðum okkur til starfa við Höfðaskóla á Skagaströnd haustið 2014 var Hrefna Dögg ein af starfsliði skólans, stuðningsfulltrúi af lífi og sál. Alltaf kom hún syngjandi kát til vinnu hvern dag þrátt fyrir ýmis krefjandi verkefni sem henni voru falin. Hún vann þau af mikilli virðingu, fagmennsku og væntumþykju.
Hrefna Dögg var góðum gáfum gædd enda stóð hugurinn til frekara náms og var það sálfræðin sem heillaði. Hrefna Dögg hefði orðið frábær sálfræðingur hefði henni elst aldur til. Hún var með einhverja sérstaka næmni fyrir fólki og kunni að hlusta.
Það þarf hugrekki og bjartsýni til að taka sig upp með börn og bú og flytja til Reykjavíkur þar sem Hrefna hóf nám í sálfræði. Hins vegar fór það svo að veikindin settu strik í reikninginn og loks varð hún að setja námið í bið.
Ég minnist Hrefnu Daggar sem einstaklega jákvæðrar manneskju. Hún gafst aldrei upp, staðráðin í að sigra þessa óværu. Börn hennar og eiginmaður voru henni ætíð efst í huga og vildi hún hvergi annars staðar vera en þeim við hlið.
Við Guðjón sendum fjölskyldunni allri og vinum hennar einlægar samúðarkveðjur. Minningin um góða og trausta konu mun ylja um ókomin ár.
Vera Ósk Valgarðsdóttir.
Nú hefur Hrefna Dögg samstarfskona okkar verið kölluð til annarra verkefna eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það er öllum ljóst sem þekktu Hrefnu Dögg að hún var baráttukona sem hafði jákvæðnina að leiðarljósi fram á síðasta augnablik.
Það er ekki erfitt að tala fallega um hana Hrefnu Dögg, hún bjó yfir miklum mannkostum og lýsti svo sannarlega upp hvert rými sem hún gekk inn í.
Með orðum Þórunnar Sigurðardóttur kveðjum við þig Hrefna Dögg með þökkum fyrir allt sem þú varst og verður áfram í hug okkar og hjarta.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
Okkur innilegustu samúðarkveðjur til Gumma, Sigríðar Kristínar og Sæþórs Daða sem og fjölskyldunnar allrar. Minning um stórkostlega konu mun lifa.
Fyrir hönd starfsfólks Höfðaskóla,
Sara Diljá Hjálmarsdóttir skólastjóri.