Karl Friðriksson
Karl Friðriksson
Þjóðgarðurinn gæti stuðlað að jafnvægi milli náttúruverndar og efnahagslegrar þróunar.

Karl Friðriksson, Hrísum í Fitjárdal

Húnavatnssýslurnar geyma ótal ónýtt tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar, sérstaklega á sviði ferðaþjónustu og afþreyingar. Í þessari grein er lagt til að stofnaður verði þjóðgarður sem nær yfir Vatnsnes og Þing, með það að markmiði að efla svæðið og nýta þau fjölbreyttu tækifæri sem þar leynast.

Svæðið státar af einstökum náttúruperlum, ríkulegu dýralífi, sögulegri arfleifð og fjölbreyttu landslagi. Árið 2001 var Snæfellsjökulsþjóðgarður stofnaður og hefur hann stóreflt svæðið með samþættingu náttúruverndar, hefðbundinnar atvinnustarfsemi og búsetu. Þjóðgarður Vatnsness og Þings gæti byggst á reynslunni frá Snæfellsjökulsþjóðgarði, en yrði einstakur með sínum sérkennum.

Sérkenni svæðisins

Eitt af meginsérkennum þjóðgarðsins yrði hin sterka sagnaarfleifð, sérstaklega í tengslum við Þingeyrar og Breiðabólstað. Þar sem handrit eins og Flateyjarbók, eða réttara sagt Víðidalstungubók, voru skrifuð. Fyrstu lög landsins voru skráð á Breiðabólstað og þar var einnig fyrsta prentsmiðja Íslands reist.

Svæðið er jafnframt þekkt fyrir einstakt dýralíf, þar sem selir safnast saman við strendur og ósa, auk fjölskrúðugs fuglalífs. Landslagið er fjölbreytt með sjávarhömrum, sandrifjum og ströndum. Vatnsnesið í heild er náttúruperla, um 40 km að lengd, þar sem hæsti punktur er Þrælsfell (nær 900 m yfir sjávarmáli).

Helstu staðir og áningar

Á Vatnsnesi má finna margt sem dregur að ferðamenn:

· Selaskoðunarstaðir og Selasetrið á Hvammstanga eru vinsæl.

· Þekktir staðir eru til dæmis Ánastaðastapar, Illugastaðir, Svalbarð, Hvítserkur, Borgarvirki og Þrístapar.

· Aðrir sögustaðir sem mætti efla sem áhugaverða staði eru til dæmis Hamarsrétt, Ánastaðir, Vatnsendi, Klambrar, Vaðhvammur og Ingimundarhóll.

Þjóðgarðurinn gæti náð yfir Vatnsnes og hluta af Þinginu. Á suðausturhluta svæðisins væri mögulegt að draga línu þjóðgarðsins í gegnum Línakradal og Vatnsdalshóla, með Vesturhópsvatn, Sigríðarstaðavatn og Hópið innan garðs, auk landnáms- og klausturjarðarinnar Þingeyra.

Markmið þjóðgarðsins

Meginmarkmið þjóðgarðs Vatnsness og Þings yrði:

1. Verndun náttúru- og menningarminja. Varðveita sögulega og náttúrulega arfleifð svæðisins.

2. Aðgengi að náttúruperlum: Gera svæðið aðgengilegra ferðamönnum án þess að skerða verndargildi.

3. Samvinna við heimamenn: Þróa þjóðgarðinn í sátt við heimamenn og hagaðila, með áherslu á sjálfbærni.

Þjóðgarðurinn gæti orðið stórtæk lyftistöng fyrir svæðið og stuðlað að jafnvægi milli náttúruverndar og efnahagslegrar þróunar.

Gera má ráð fyrir að stofnun þjóðgarðsins fyrir svæðið fengi misjafnar undirtektir. Til að þessar náttúruperlur og þessi söguarfleifð fái verðskulda athygli þarf að hanna svæðið, það er að segja innviði þess, þannig að þeir skili sér í vernd og aukinni verðmætasköpun. Huga má að fyrstu skrefum, afmarka svæðið og gefa því vinnuheiti og síðan byggja ofan á grunn hugmyndarinnar um þjóðgarð. Það er því áskorun til sveitarfélaga svæðisins og þeirra sem hafa það hlutverk að byggja upp ferðaþjónustu og efla nýsköpun að gefa hugmyndinni gaum.

Stundum er sagt að kynslóðaskipti þurfi til að koma góðum breytingum áfram, vonandi á það ekki við í þessu tilviki.

Höfundur er framtíðarfræðingur.