Þórunn Sigurlaug Sigurðardóttir, Lilla, fæddist 28. febrúar 1949. Hún lést 9. desember 2024.
Útför hennar fór fram 20. desember 2024.
Nú þegar ég geri mér grein fyrir því að svo góðhjörtuð og elskuleg kona eins og Lilla var sé fallin frá, sem er svo sorglegt, þá langar mig svo að skrifa nokkur orð.
Gunni og Lilla voru sem eitt, það hefur alltaf verið þannig. Núna er elsku Gunni frændi ekki lengur með Lillu sér við hlið. Hvernig er hægt að gera breytingu á einhverju sem er og á að vera? Það er svo sorglegt.
Gunni frændi er eldri en ég, ég man varla eftir Gunna frænda nema með Lillu. Á þessum hraða tíma sem er núna hefur ekki verið daglegt samband á milli okkar en við höfum verið í góðu sambandi sem nágrannar í vesturbænum.
Frá Lillu og Gunna streymdi góðmennska og hlýja, þau hafa verið mér alveg sérstaklega kær í gegnum tíðina.
Gunni er sonur systur mömmu minnar sem var ein af sex samrýmdum systkinum, það var alltaf sérstaklega mikið samband á milli systranna, maka þeirra og barna.
Nú í lok síðasta árs féll frá bróðir Gunnars, frændi minn hann Þorsteinn, sem er og verður mikil sorg, megi guð almáttugur geyma og varðveita minningu um góðan frænda sem elsku Steini var.
Mig langaði að lýsa með þessum orðum hve mikið ríkidæmi það er að hafa þekkt elsku Lillu og megi Guð almáttugur varðveita minningar um góða konu.
Sendi elsku Gunnari, sonum og fjölskyldum þeirra mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Helena Dóra.