Jón Jónsson fæddist 19. janúar 1871 á Ekkjufelli í Fellum, Norður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Jón „Hnefill“ Jónsson, f. 1848, d. 1903, síðar bóndi á Fossvöllum í Jökulsárhlíð, og Ingunn Einarsdóttir, f. 1846, d. 1888, vinnukona.
Jón ólst að nokkru leyti upp með föður sínum á Fossvöllum, fór árið 1897 til náms í Möðruvallaskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan vorið 1899. Á sama ári kvæntist hann dóttur bóndans á Hvanná á Jökuldal, átti þar heimili síðan og bjó þar stórbúi 1899-1933, lét þá af búskap, en dvaldist þar áfram hjá sonum sínum til æviloka.
Jón var stórbóndi og sveitarhöfðingi um langt skeið. Hann var oddviti og sýslunefndarmaður í 50 ár, frá 1904 til 1954, og gegndi fjöldamörgum öðrum trúnaðarstörfum í sveit sinni og héraði. Jón var oddviti Jökuldalshrepps.
Hann var alþingismaður Norður-Múlasýslu 1908-1911 og 1914-1919.
Jón á Hvanná var mikill vexti, góðlyndur og glaðlyndur og höfðingi heim að sækja.
Eiginkona Jóns var Gunnþórunn Kristjánsdóttir, f. 1873, d. 1942. Börn þeirra voru sex.
Jón lést 31. október 1960.