Svona myndi Hvammsvirkjun líta út samkvæmt tölvuteikningu frá Landsvirkjun.
Svona myndi Hvammsvirkjun líta út samkvæmt tölvuteikningu frá Landsvirkjun. — Tölvumynd/Landsvirkjun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta mál er ekkert búið þótt lögum verði breytt.

Landeigendur við Þjórsá og umhverfisverndarsinnar fagna mjög niðurstöðu héraðsdóms um að fella úr gildi heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 og ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og virkja raforkuverið Hvammsvirkjun.

Þetta segir Snæbjörn Guðmundsson, formaður náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða. Hann er gestur Spursmála að þessu sinni, ásamt Finni Beck framkvæmdastjóra Samorku.

Á sama tíma segist Snæbjörn gera ráð fyrir að lögum verði breytt til þess að hægt verði að þoka virkjanaáformunum áfram, sem verið hafa á teikniborði Landsvirkjunar í tæpan aldarfjórðung. Það breyti því ekki að vænt inngrip löggjafans muni leiða til þess að virkjunin verði að veruleika.

„Landsvirkjun mun ekki hætta við Hvammsvirkjun heldur fara enn aftur af stað,“ segir Snæbjörn. Er hann þá spurður í hverju sigurinn nú hafi falist ef áformin verða knúin áfram.

„Þá getum við loksins farið að tala um náttúruna, náttúruvernd, vernd Þjórsár.“

En það er búið að tala stanslaust um það í 25 ár.

Já, já, en þá getum við farið með það fyrir dómstóla og spurt dómstólana hvort þeir séu sammála því hvort Landsvirkjun hugsi nógu vel um laxinn, hafi skoðað náttúruna við Þjórsá.“

Þannig að þið boðið frekari málaferli jafnvel þótt löggjafinn

„Ég tala ekki fyrir landeigendur við Þjórsá, þeir höfðuðu auðvitað þetta mál en ég styð málið í hjarta mínu og náttúruverndin gerir það að sjálfsögðu.“

Er hann er spurður hvort af lögsóknum verði, jafnvel þótt löggjafinn tryggi að Umhverfisstofnun geti veitt fyrrnefnda undanþágu frá vatnatilskipun ESB, stendur ekki á svari:

„Já, mér finnst það mjög líklegt. Þetta mál er ekkert búið þótt lögum verði breytt. Þetta er dálítið spaugilegt, því þetta er annað skiptið sem virkjanaleyfið er fellt.“

Segir Snæbjörn með ólíkindum að lögfræðingar Landsvirkjunar hafi ekki séð þetta fyrir. Þeir hafi fyrir löngu fengið ábendingu um að svo væri í pottinn búið sem dómstóllinn hafi nú staðfest.

Í máli sínu vísar Snæbjörn til yfirvofandi hættu sem laxastofn Þjórsár standi frammi fyrir. Segist hann mjög efins um að þær mótvægisaðgerðir sem Landsvirkjun segist ætla að grípa til muni í raun duga til.

Mikil vinna í rannsóknir

Grípur þá Finnur orðið og segir að hann virði þá skoðun Snæbjörns að stofninn sé í hættu. Hins vegar sé mjög merkilegt að rýna í fyrrnefndan dóm. Þar sé miklu púðri eytt í aðrar kröfur landeigenda, sem meðal annars miðuðu að því að fá ógiltar heimildir sem Fiskistofa hefur veitt varðandi virkjunaráformin. Í reifun dómara komi skýrt fram hversu mikil vinna og rannsóknir hafi verið lagðar í að tryggja að þessi mál yrðu í góðu horfi, meðal annars með tilliti til uppbyggingar laxastiga og svokallaðrar seiðafleytu.

Þá segir Finnur að orkugeirinn standi á tímamótum nú. Þetta mál sé í raun kornið sem fylli mælinn enda ljóst að sú lagaumgjörð sem greininni er búin sé ekki fullnægjandi. Stór og öflug fyrirtæki á borð við Landsvirkjun hafi ekki einu sinni tök á að vinna að áformum sem þessum án þess að yfir þeim vofi gríðarleg óvissa sem ekki sé hægt að greiða úr nema fyrir dómstólum og löngu eftir að ferlið sé komið langt á leið.

Færist umræðan þá að ábyrgð Landsvirkjunar og hvort ganga þurfi á vatnasvið Þjórsár eins og fyrirætlanir Landsvirkjunar kveða á um. Snæbjörn segist efins um það.

„Til þess að breyta Þjórsá á svona dramatískan hátt þarf að fá undanþágu. Ég spyr, nú vinna svo og svo margir verkfræðingar hér í landinu og ég get vel ímyndað mér að þeir gætu vel útbúið vatnsaflsvirkjun sem þyrfti ekki undanþágu, en þeir hafa bara engan áhuga á því? Því þeir vilja gjörnýta fallið og sem mest rennsli. Þannig að ég er ósammála þessari túlkun að þetta komi í veg fyrir virkjanir.“

Finnur bendir hins vegar á að landsmenn þurfi að spyrja sig hvert við stefnum varðandi orkuöflun til frambúðar. Stefnt sé að kolefnishlutleysi árið 2040 og ljóst sé að virkjun Hvammsvirkjunar sé mikilvægt púsl í þeim fyrirætlunum. Segir hann útilokað að almenningur, og reyndar löggjafinn sjálfur, hafi talið að með samþykkt löggjafar árið 2011 hafi í raun verið girt fyrir allar frekari vatnsaflsvirkjanir í landinu. Það standist enga skoðun.

Þess er beðið nú hvort Landsvirkjun muni áfrýja dómi héraðsdóms í málinu sem hér um ræðir. Heimildir Spursmála herma að allt eins sé talið líklegt að Landsréttur muni staðfesta túlkun héraðsdóms. Þá þurfi atbeina löggjafans og frumkvæði Jóhanns Páls Jóhannssonar orkumálaráðherra til að breyta regluverkinu. Þar ætti hann að eiga hauk í horni í Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Hún hefur einbeitt talað fyrir því að auka orkuöflun um 5 TWh á komandi áratug. Það verður ósennilega gert án þess að Hvammvirkjun komist á koppinn.

Upptaktur að næstu kosningum

Framsókn að færa margt til betri vegar

Magnea Gná Jóhannsdóttir segir að Framsóknarflokkurinn sé að vinna að mikilvægum endurbótum á starfsemi Reykjavíkurborgar undir stjórn Einars Þorsteinssonar. Tíma taki að snúa stóru skipi og fjárhagur borgarinnar hafi reynst mun verri en talið var þegar meirihluti var myndaður með Samfylkingu og Viðreisn árið 2022.

Magnea er gestur Spursmála að þessu sinni ásamt Elliða Vignissyni sem er margreyndur sveitarstjórnarmaður. Hann segir að flokkarnir þurfi að búa sig undir kosningarnar 2026 og að þar verði allir að vera komnir í startholurnar á komandi hausti. Hann segir ekki útilokað að hann blandi sér í forystusveit Sjálfstæðisflokksins þótt hann útiloki formannsframboð. Hann segir að formaður þurfi að sitja á Alþingi Íslendinga til þess að geta sinnt hlutverki sínu.