Guðjón Haraldsson fæddist 29. mars 1938. Hann lést 29. desember 2024.
Útför Guðjóns fór fram 17. janúar 2025.
Elskulegur frændi minn er horfinn á braut, eftir heilsuleysi allra síðustu árin. Hann Guðjón frændi minn var mikill öðlingur, eindæma skapgóður og hlýr maður sem gaman var að vera samvistum við. Hann var vinnusamur með afbrigðum og ungur stofnaði hann jarðvinnufyrirtæki sem blómstraði með árunum enda dugnaður og heiðarleiki hans kjörorð. Ég átti því láni að fagna að ferðast margsinnis með þeim góðu hjónum, Guðjóni og Nínu, og eru þær ferðir með þeim skemmtilegustu sem ég hef upplifað. Þótt hann Guðjón frændi minn, í gegnum sín veikindi, væri „geymdur“ á hinum ýmsu sjúkrastofnunum í bið sinni eftir að komast inn á hjúkrunarheimili í sinni sveit var hann alltaf þakklátur fyrir hvert lítilræði sem að honum var rétt – það var alltaf „allt í himnanna lagi“ að hans mati – þótt fólkinu hans sviði oft aðbúnaðurinn sem hann fékk og þrautagangan að varanlegu hjúkrunarrými í heimasveit. Hann komst þó að lokum inn á hjúkrunarheimilið, þótt búsetan þar hafi verið allt of stutt.
Elsku Nína mín, börn, tengdabörn og allt ykkar fólk, sorgin og söknuðurinn hefur knúið dyra en við getum huggað okkur við að vel hafi verið tekið á móti frænda og allt þar örugglega „í himnanna lagi“.
Margrét Þóra.
Nú hefur enn ein goðsögnin kvatt okkur, Gaui Haralds eða Gaui á gröfunni eins og hann var gjarna kallaður, þ.e.a.s. Guðjón Haraldsson jarðverktaki. Guðjón var goðsögn í lifanda lífi, alltaf hress og aðsópsmikill og drengur góður. Ég kynnist Guðjóni þegar ég ungur gekk í Stefni haustið 1985, þá var Lárus Sveinsson trompetleikari stjórnandi kórsins. Lárus stýrði kórnum af miklum myndarbrag og sennilega var kórinn á sínum bestu blómaárum á þessum árum og einn besti karlakór landsins.
Ég var settur í 1. bassa en þar voru einnig höfðingjarnir Jón M. Guðmundsson á Reykjum og Guðjón Haraldsson ásamt fleirum. Eftir fyrstu æfingarnar lásu eldri og reyndari menn unga manninum pistilinn í kaffihléinu enda hefur honum sjálfsagt eitthvað orðið á og sennilega bara sungið lagið. En Jóni á Reykjum og Guðjóni líkaði þetta ekki og komu til mín. Jón sagði við mig: Óli minn, komdu bara og stattu á milli okkar Gauja og lærðu af okkur og þá þora karlarnir ekki að reka í þig hornin. Það varð úr og mikið þótti mér vænt um að þessar goðsagnir tækju að sér rétt rúmlega tvítugan og óreyndan söngmann og töluðu í hann kjarkinn og veittu honum skjól.
Það fór vel á með okkur félögunum í kórnum og við fórum meðal annars saman í glæsilega söngför til Noregs þar sem Diddú okkar og Stjáni póstur lögðu heiminn að fótum sér með kórnum þegar Stjáni póstur dansaði við Diddú á meðan hún söng þýskan vals.
Mér hefur ávallt þótt mjög vænt um þennan drengskap sem þessir miklu öðlingar sýndu mér og bar fagurt vitni um hvaða mann þeir höfðu að geyma. Að leiðarlokum þakka ég drengskapinn og óska mínum fyrrverandi söngfélaga góðrar heimkomu. Aðstandendum hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur og eins segir í Hávamálum:
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
Ólafur M. Magnússon frá Eyjum II, Kjós.
Góður samferðamaður í leik og starfi, söngbróðir úr Stefni og velgjörðarmaður alla tíð er fallinn frá. Foreldrar Guðjóns fluttu á jörðina Markholt ásamt stórum barnahópi. Haraldur var frumherji á mörgum sviðum og gerðist verktaki ásamt búskap og var langt á undan sinni samtíð. Vegna kunnáttu sinnar og áræðis var honum falið að aftengja tundurdufl úr heimsstyrjöldinni og gerði hann það áfallalaust alla tíð. Allt sem faðirinn gerði lærðu synirnir af honum. Marta, húsmóðirin, sá svo um uppeldi barnanna.
Við Guðjón sungum saman í karlakórnum Stefni og fórum við margar söngferðir innanlands og utan, alltaf vorum við saman í herbergi og þegar eiginkonurnar voru með var ekki langt á milli okkar. Traustari ferðafélaga en Guðjón var ekki hægt að fá, reglusaman og aðgætinn. Eitt sinn þegar við vorum að keyra möl og hittumst og töluðumst við á milli bíla spurði Emma Íren, dótturdóttir mín sem var með mér í bílnum þá fimm ára, af hverju maðurinn talaði svona hátt, við skulum bara spyrja hann að því í næstu ferð. „Já,“ sagði Gaui, „þegar ég var lítill þá voru tíu manns á matmálstímum og ef maður talaði ekki hátt fékk maður ekkert að borða!“ Gott svar sem Emma Íren fékk og man hún þetta samtal æ síðan.
Við Guðjón höfum átt áratuga samstarf í leik og starfi, samherjar, keppinautar en númer eitt vinir. Minnisstæðir eru kaffitímarnir í Þverholtshúsinu þegar Gaui sagði okkur bílstjórunum sögur af Ströndunum, Djúpuvík og Kaldbaksvík, en þar átti fjölskylda hans land og hús og þangað bauð hann okkur í helgarferð til þess að við yrðum samræðuhæfir um stórfengleika Strandanna. Líka man ég eftir því þegar lítil stúlka, bróðurdóttir hans, kom ein labbandi neðan úr Lágholti og fór beint í fangið á þessum stóra og háværa en blíða manni og sat á hnjám hans, róleg og sæl, meðan hann sagði frá.
Þá voru Guðjón og Nína ákaflega traust hjón og studdu sín börn og barnabörn við stofnun heimila sinna. Eitt sinn gerði VGH tilboð í breikkun Vesturlandsvegar og Leifur, sonur Gauja, og Gaui sögðu við mig að ég ætti nú bara að vera með í þessari vinnu en ég yrði að vera á nýjum 12 hjóla bíl sem ég og samþykkti. En við opnun útboðsins varð VGH ekki lægstbjóðandi og aðrir hlutu verkið og taldi ég þá málið úr sögunni, en nei, Leifur hafði pantað bílinn og hann á leið til landsins. Föstudagskvöld nokkru seinna koma þeir feðgar keyrandi á nýjum MAN í hlað í Varmadal, Gaui með blómvönd handa Hönnu og Leifur afhendir mér lyklana að nýja bílnum. Gaui sagði mér að fara svo niður í banka einhvern tímann á næstunni og ganga frá þessu, sem ég og gerði. Bíllinn var merktur mér að framan og á númerum á mínu nafni og fullgreiddur. Höfðinglega gert af þessum heiðursmönnum. Fjölskyldur okkar Guðjóns hafa fylgst að í fimm ættliði hér í nágrenninu og nú fara barnabarnabörn okkar saman í ungbarnasund á Reykjalundi aðeins fimm mánaða gömul og er vel til vina.
Guðjón minn, þakka þér fyrir komuna í þennan heim.
Nínu, eiginkonu Guðjóns, og fjölskyldu vottum við samúð okkar.
Jón Sverrir Jónsson og fólkið í Varmadal.
Elsku Guðjón.
Nú er komið að leiðarlokum um stund. Margt kemur upp í hugann þegar horft er til baka. Þú og Nína voruð alltaf nátengd okkar fjölskyldu, mikill samgangur, þið pabbi góðir vinir og mamma og Nína bestu vinkonur. Fyrsta sagan sem kemur upp er þegar þið voruð að skjóta ykkur saman. Þær að vinna á Skálatúni en þið að brasa í bílum og ýtum úti á hlaði í Hlíðartúni. Eitthvað heyrðist nú hátt í ykkur bræðrum, um kvöldið vildu þær fá að vita um hvað rifist var. En nei, ekki könnuðust þið við það, þið höfðuð aðeins verið að spjalla saman. Hávær fjölskylda það. Þú varst alltaf góður sögumaður, alls konar óknytti gerðuð þið. Eitt sinn fenguð þið bræður „lánaða“ kindabyssu hjá Haraldi afa og skutuð á raflínur í Mosó, þá datt út rafmagnið í sveitinni í smá stund.
Það var yndislegt að vera með þér í Svansbúð og hlusta á þig segja sögur af ykkur fjölskyldunni eða tröllasögur. Einu sinni fóru mamma og Nína í húsmæðraorlof. Þá áttuð þið pabbi að hugsa um okkur krakkana. Pabbi var ekki góður kokkur, kunni varla að sjóða egg, en þú varst þessi stórgóði kokkur, gerðir Tarsangraut fyrir okkur. Það var hafragrautur með grænum matarlit. Hann var dásamlegur í minningunni.
Fyrsta veturinn okkar Smára á höfuðborgarsvæðinu var gott að hafa athvarf hjá ykkur Nínu í Markholtinu. Þú sást um að hnýta hálsbindið á Smára þar til þú sagðir þetta ekki ganga lengur að keyra upp í Mosó til að fá bindishnútinn réttan og kenndir okkur réttu handtökin. Það hefur dugað í 50 ár. Ef við fórum ekki vestur um helgar keyrðum við í Markholtið til að horfa á sjónvarpið, þá fórst þú út í sjoppu og keyptir ís og nammi.
Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér í sumarlandinu. Elsku Nína, börn, tengdabörn og fjölskyldur, ykkar missir er mikill, Guð gefi ykkur styrk.
Jóna, Smári og fjölskylda.