Flóð Landsbjörg deildi þessari mynd með Morgunblaðinu af aðgerðunum.
Flóð Landsbjörg deildi þessari mynd með Morgunblaðinu af aðgerðunum. — Ljósmynd/Landsbjörg
Erlend kona varð innlyksa í sumarbústað í Ölfusi eftir að Ölfusá flæddi yfir bakka sína. Björgunarsveitarmenn fóru í gærmorgun á báti og sigldu yfir tún til þess að koma konunni til bjargar. Þetta segir Leó Snær Róbertsson, hjá Björgunarfélagi Árborgar, í samtali við Morgunblaðið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Erlend kona varð innlyksa í sumarbústað í Ölfusi eftir að Ölfusá flæddi yfir bakka sína. Björgunarsveitarmenn fóru í gærmorgun á báti og sigldu yfir tún til þess að koma konunni til bjargar.

Þetta segir Leó Snær Róbertsson, hjá Björgunarfélagi Árborgar, í samtali við Morgunblaðið. Bústaðurinn heitir Egilsstaðir og vegurinn að bústaðnum heitir Arnarbælisvegur.

„Hann var orðinn algjörlega umlukinn vatni. Bústaðurinn í raun stendur á einhverjum smá hól og allt í kringum þennan hól var orðið fullt af vatni. Þegar við vorum að hoppa úr bátnum, ofan á það sem við héldum að ætti að vera vegur eða tún, vorum við með vatn upp á brjóstkassa og rúmlega það,“ segir Leó.

Fimm björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðinni og fóru þeir á gúmmítuðru yfir tún og vegi til þess að ná í konuna. Hún var sett í björgunarvesti og svo siglt með hana til baka.

„Við fórum á tveimur jeppum til þess að eiga þann möguleika inni að geta keyrt alla leið að henni ef svo hefði verið mögulegt, en þegar við komum á staðinn var það útilokað mál. Þannig að við sigldum á báti yfir einhver tún og vegi,“ segir Leó. Kristbjörg Eyvindsdóttir, bóndi á bænum Grænhóli í Ölfusi, varð vitni að björguninni.

„Hún kom frá Bandaríkjunum um nóttina, lagði sig og vaknaði við þetta,“ segir Kristbjörg.

Grænhóll er eins og nafnið gefur til kynna uppi á hól. Hefur vatnið því enn ekki flætt upp að bænum. Kristbjörg segir þó að vatnið hafi flætt yfir fleiri hundruð hektara lands.

„Áin flæðir yfir fleiri, fleiri kílómetra og það eru bæir á Arnarbælistorfu sem eru umflotnir,“ segir hún og bætir við að hún hafi ekki séð annað eins flóð síðan 1983.