— Morgunblaðið/Eggert
„Þetta græna vöruhús kemur í beinu framhaldi af háum moldarhaug sem reistur var framan við stofugluggann hjá fólki. Á fundinum voru íbúar einhuga um að það væri ekkert hægt að gera í stöðunni annað en að fjarlægja húsið sem passar ekki inn í…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Þetta græna vöruhús kemur í beinu framhaldi af háum moldarhaug sem reistur var framan við stofugluggann hjá fólki. Á fundinum voru íbúar einhuga um að það væri ekkert hægt að gera í stöðunni annað en að fjarlægja húsið sem passar ekki inn í hverfið og samræmist ekki gildandi aðalskipulagi,“ sagði Leifur Skúlason Kaldal, formaður Félags sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi, eftir fjölmennan íbúafund hjá félaginu sem mótmælti byggingu hússins við Álfabakka 2.

Leifur segir íbúa í hverfinu hafa ítrekað viðrað áhyggjur sínar vegna skipulagsmála í Mjóddinni en að borgin hafi ekki enn boðað til fundar sem búið sé að lofa. Þess vegna hafi þau í Félagi sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi boðað til fundarins.

„Fundurinn var haldinn til að gefa fólki tækifæri til að koma saman og kynna sér hvað sé í gangi, hvers sé að vænta og hvers vegna í ósköpunum þetta gat gerst.“

Leifur segir að svör borgarinnar gefi fulla ástæðu til tortryggni og íbúar óttist líka fyrirhugaða þéttingu byggðar annars staðar í hverfinu.

„Íbúar hafa líka áhyggjur af deiliskipulagi á lóð N1 við Skógarsel þar sem til stendur að byggja blokk þar sem aðeins er gert ráð fyrir þremur gestabílastæðum á yfirborði fyrir alla blokkina,“ segir Leifur.

Fólkið flúið úr íbúðunum

Hilmar Þór Björnsson arkitekt sagði þetta koma sér á óvart en eftir á að hyggja hefði verið hægt að eiga von á þessu.

„Ástæðan er sú að það er svo mikið að í skipulagi borgarinnar. Það var ekki rétt staðið að þessari framkvæmd því í aðalskipulagi Reykjavíkur er þessi reitur skilgreindur sem verslunar- og þjónustusvæði eins og miðsvæðið í Norður-Mjódd. Þessi bygging og starfsemin sem þar verður á heima á iðnaðarsvæði þar sem enginn á erindi nema til að koma og sækja vörur og þeir sem vinna þar. Miðsvæði á aftur á móti að þjóna þeim borgarhluta sem að því liggur.“

Hann tók undir að byggingin samræmdist ekki aðalskipulagi Reykjavíkur.

„Ég velti því fyrir mér hvort borgin sé orðin svo blönk að hún hafi þess vegna slegið af sjálfsögðum kröfum í skipulagi og gæðum bygginga á miðsvæði. Ég skil ekki að skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hafi skrifað undir þetta og ég skil ekki heldur hvers vegna Skipulagsstofnun stoppaði þetta ekki á auglýsingatímanum. Ég skil heldur ekki stjórnmálamennina sem láta þetta renna í gegn gagnrýnislaust og við horfum upp á fólk flýja úr íbúðum sínum og vera orðið flóttafólk vegna stórkostlegs skipulagsklúðurs,“ sagði Hilmar Þór.

Hann sagði jafnframt að gögnin sem lögð voru fram til samþykktar stæðust hvorki lög né reglugerð og byggingarfulltrúi hefði aldrei átt að stimpla teikningarnar. Hann sagði að áður fyrr hefði bæði verið byggingarnefnd og skipulagsnefnd þar sem hlutverk skipulagsnefndarinnar var að vinna skipulag og ákveða umfang bygginga.

„Byggingarnefndin hafði það hlutverk að leggja mat á útlit húsanna. Þetta fyrirkomulag virkaði þannig að kerfið hafði eftirlit með sjálfu sér. Núna hverfur þetta til embættismannanna þar sem enginn hefur eftirlit með neinum,“ sagði Hilmar.

Margir tóku til máls

Á fundinum tóku margir til máls, umræður voru lifandi, mikill hiti í fólkinu og einhugur um að húsið þyrfti að fjarlægja. Fram kom hörð gagnrýni á vinnubrögð borgarinnar við deiliskipulagið og leyfisveitingar. Einnig töldu margir að vöruhús af þessari stærðargráðu ætti að vera á athafnasvæði eða hafnarsvæði og gæti ekki átt heima við íbúðarhús þar sem umferð frá vöruhúsinu færi um þrönga húsagötu.

Enginn af borgarfulltrúum meirihlutans mætti á fundinn og eigandi Álfabakka 2 ekki heldur.

Frummælendur voru Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi, Kristján Hálfdánarson, formaður Húsfélagsins í Árskógum 7, og Hilmar Þór Björnsson arkitekt. Fundarstjóri var Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi.

Ummæli frá fundinum

Allir sammála um að húsið verði að víkja.

Fólk flýr úr íbúðum sínum og gert að flóttafólki.

Borgin blönk og þarf pening.

Hvers vegna í ósköpunum gat þetta gerst?

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur og Skipulagsstofnun gerðu mistök.

Mega ekki sjá grænan blett án þess að byggja á honum.

Íbúar hafa lagt fram fyrirspurnir í meira en tvö ár

Húsið passar ekki inn í hverfið

Sigurdís Jónsdóttir, íbúi í Árskógum 7, tók til máls á fundinum og sagði frá samskiptum sínum við borgina allt frá árinu 2022 en þá gerði hún athugasemd og spurðist fyrir um það þegar haugarnir tóku að myndast við húsið hjá henni. Svarið frá byggingarfulltrúa var á þá leið að nánast væri hægt að fullyrða að fimm hæða bygging myndi ekki rísa á lóðinni fyrir framan hjá henni heldur aðeins ein og hálf hæð.

Í máli Sigurdísar kom fram að húsið yrði að víkja því það passaði engan veginn inn í hverfið.

Hún sagði að í svörum borgarinnar til hennar hefði komið fram að á milli húsanna yrði akstursleið, bílastæði og tré sem ættu að skilja þau og göngustíg að og það ylli henni áhyggjum að það gæti skapað ennþá meira ónæði fyrir íbúana því ekki væri vitað hvort þar yrðu vöruflutningar eða umferð starfsmanna.

Hún sagðist undrast stefnu Reykjavíkurborgar og það væri eins og borgin mætti ekki sjá grænan blett án þess að byggja á honum.

Höf.: Óskar Bergsson