Sólarfólk Nokkrir Íslendingar fyrir utan veitingahús í Los Cristianos. Maður er manns gaman og lífið er gott.
Sólarfólk Nokkrir Íslendingar fyrir utan veitingahús í Los Cristianos. Maður er manns gaman og lífið er gott. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heiðskír himinn, hægur andvari og hitinn nálgast 25 gráður. Lífið er ljúft á Tenerife, spænsku eyjunni í Atlantshafi sem nýtur mikilla vinsælda ferðafólks. Ágætar verslanir, fínir veitingastaðir og fallegt umhverfi þar sem fyrir öllu er hugsað

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Heiðskír himinn, hægur andvari og hitinn nálgast 25 gráður. Lífið er ljúft á Tenerife, spænsku eyjunni í Atlantshafi sem nýtur mikilla vinsælda ferðafólks. Ágætar verslanir, fínir veitingastaðir og fallegt umhverfi þar sem fyrir öllu er hugsað. Vegalengdir sjaldan meiri en svo að flest er best að fara fótgangandi; eða svo er veruleikinn á suðurhluta eyjunnar sem gróflega skiptist upp í þrjú svæði eða hverfi; Los Cristianos, Amerísku ströndina og Adeje-svæðið.

Spil, prjón og gönguferðir

Kunnugir telja að á hverjum tíma gætu verið allt að 4.000 manns frá Íslandi á þessum slóðum, flestir þá í fáeina daga eða vikur, en Íslendingum sem þarna eru um lengri tíma – jafnvel lungann úr árinu – fari fjölgandi. Í þeim hópi eru nokkur hundruð og þetta er fólkið sem gjarnan mætir á Íslendingasamkomur sem haldnar eru á veitingastaðnum Lewinski í Los Cristianos. Hittingur á mánudögum er fastur liður – og um 40 Íslendingar voru á staðnum þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti hópinn þarna ytra síðastliðinn mánudag.

„Í hita og sól held ég heilsunni og að því leyti er mér mikilvægt að vera hér,“ segir Kjartan Kjartansson sem hefur með höndum skipulag og umsjón þessara samverustunda landa sinna á Lewinski. „Við byrjuðum með þessar stundir fyrir þremur árum og allt er þetta mjög óformlegt. Minnst hafa þrjú mætt en þegar best lét voru um 80 manns á svæðinu. Hér er spilað og spjallað á mánudögum og svo hittast konurnar á miðvikudögum og taka í prjóna. Gönguferðir sem við karlarnir fórum í saman á sunnudagsmorgnum komast væntanlega á dagskrá innan tíðar.“

Ný tilvera í öðru landi

Vinnuslys og veikindi sviptu Kjartan þreki en í sól, hita og skaplegum loftþrýstingi á Tenerife varð líðan strax betri. Þau Kjartan og Karólína Walderhaug kona hans fóru í sínu fyrstu ferð til sólareyjunnar góðu árið 2007 og líkaði vel. Ferðirnar urðu fleiri og lengri og fyrir um þremur árum keyptu þau hjón litla og snotra íbúð í Los Cristianos. Þar eru þau drjúgan hluta úr ári, en fara þó reglulega heim. Netið og myndsímtöl hafa annars breytt miklu – og gert fjölskyldunni auðveldara en ella að halda tengslum.

„Bretar eru mikið hér á Tenerife, en með Brexit hafa fjárfestingum þeirra hér eins og annars staðar í Evrópu verið settar skorður. Því hefur losnað um eignir hér og í fjölbýlishúsinu okkar hér í Los Cristianos, þar sem eru 280 íbúðir, eru að minnsta kosti fjórar í eigu Íslendinga. Svo eru margir að heiman í leiguíbúðum hér,“ segir Kjartan sem lengi starfaði sem húsasmiður. Karólína starfrækti lengi hárgreiðslustofu í Reykjavík. Þau eru nú bæði hætt störfum og hafa skapað sér nýja tilveru í öðru landi.

Marmari á speglandi Laugavegi

„Hér er þægilegt að lifa. Ég myndi ætla að matvara hér kosti um ¾ af því sem gerist heima og um slíkt munar svo sannarlega. Launin duga því betur en ella og þetta er alveg skaplegt núna þegar evran er 140 krónur íslenskar. Stór bjórkanna kostar tvær evrur – og því miður er slíkt freisting fyrir marga,“ segir Kjartan, þar sem við sitjum á Lewinski; á sólpallinum þangað sem Íslendingarnir, flestir komnir nokkuð yfir miðjan aldur, mæta til að lifa og njóta.

Frá Los Cristianos er næsta fljótfarið á Amerísku ströndina, þar sem er fjöldi hótela og áhugaverðra staða þar sem ágætt er að staldra við. Flest hefur þarna verið byggt upp á fáeinum áratugum og þannig í raun sköpuð ferðamannaborg. Og margt er þetta mjög glæsilegt svo sem breiðstrætið Avenida de Las Américas, Laugavegurinn sem svo er kallaður. Sá er með marmaralögðum gangstéttum sem eru skúraðar að morgni hvers dags. Hægt er að spegla sig í glansandi strætinu þar sem allt er að gerast og Íslendingar á hverju götuhorni. Þeir eru þó aðeins dropi í mannhafinu á eyjunni góðu sem um átta milljónir ferðamanna heimsækja á ári hverju og fer fjölgandi.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson