Dýrleif Hallgríms fæddist 16. maí 1923. Hún lést 26. desember 2024.
Útför Dýrleifar fór fram 15. janúar 2025.
Árið 1960 fóru foreldrar mínir til New York að heimsækja Tótu vinkonu mömmu minnar og hennar mann. Þá þurfti að koma mér fyrir, eldri systkin mín voru í sveit og litli bróðir ekki fæddur. Ég var send í Borgarnes þar sem Mússa og Gunnar bjuggu í Helgugötunni í 18 ár.
Dýrleif sem ætíð var kölluð Mússa var föðursystir mín. Það var mikill samgangur á milli foreldra minna og Mússu og einnig Einars bróður þeirra og Sigurbjargar konu hans þar sem hann og Mússa og Gunnar bjuggu með sínar fjölskyldur ekki svo langt frá höfuðborginni. Tómas og Elín systkin þeirra bjuggu á Sauðárkróki og þangað var mun lengra að fara og því var ekki skroppið þangað í dagsferð.
Eftir þessa fyrstu dvöl mína hjá þeim hjónum í Borgarnesi nefndi ég þau Mússu mömmu og Gunna pabba og gerði ætíð síðan. Yndislegar minningar sækja á hugann frá veru minni hjá þessum sæmdarhjónum, Mússa falleg að innan sem utan, ætíð blíð og góð við mig. Hún var fíngerð, fín til fara, brosmild og hafði góða lund. Gunnar aðeins hrjúfari og átti það til að gantast í mér. Hann var fyrsti stýrimaður og síðan skipstjóri á Akraborginni sem sigldi á milli Reykjavíkur og Borgarness – engin voru göngin þá.
Það er ekki hægt að minnast á heimilið í Helgugötu nema láta hugann reika aftur um 65 ár. Búrið hennar Mússu var dásemdin ein – og lyktin þar inni sömuleiðis. Eldhúsið átti einnig hug minn allan. Allt var fágað og fallegt í stofunni, sófasettið einstaklega fallegt og er ég kom í heimsókn í Hæðargarð þar sem hún og Gunnar bjuggu eða á Hrafnistu til Mússu þá fannst mér mikið notalegt að setjast í sófann hennar.
Mússa var ótrúlega ern þrátt fyrir háan aldur. Ég man er ég heimsótti hana árið 2018 á afmælisdaginn hennar, er hún varð 95 ára, og þá var hún búin að baka nokkrar tegundir af kökum sem hún bauð upp á. Ég er mikið þakklát að hafa tekið símann upp úr veskinu mínu á þessum degi og tekið mynd af henni.
Að ná 101 ári í aldri er ekki sjálfgefið og sérstaklega þakkarvert að hafa hug og hjarta svona vel starfhæft fram á síðasta dag eins og var hjá elskulegu Mússu.
Ég votta frændfólki mínu, Óla, Diddu, Halla, Halldóru og þeirra fjölskyldum, samúð mína við fráfall elsku frænku minnar.
Edda S. Jónasdóttir.
Elsku besta frænka, Dýrleif Hallgríms, sem við alltaf þekktum sem Mússu, er farin frá okkur og kemur aldrei aftur. Í maí næstkomandi hefði hún orðið 102 ára.
Mér finnst ég hafa þekkt hana alla ævi. Við vissum alltaf að pabbi ætti systkini, þó að við hittum þau eiginlega aldrei. Valgerður Elín, Einar Örn, Dýrleif og Tómas Níels. Þau misstu pabba sinn þegar Ella var 12 ára en Tommi, sem var yngstur, ekki nema sjö ára. Þau ólust ekki upp öll saman. Pabbi eignaðist heimili hjá góðu fólki „austur í hreppum“ eins og sagt var, Mússa fór til föðursystra á Þingeyri, en Ella og Tommi voru í Reykjavík hjá móður sinni, Guðrúnu ömmu.
Foreldrar okkar voru duglegir að kynna okkur fyrir þessum ættingjum í fjarlægðinni, við vissum alltaf af þeim, það komu jólakort, gjafir og afmæliskveðjur. Þegar fram liðu stundir þekktum við börnin þeirra líka. Þrjú fyrstu barnabörn ömmu og afa voru fædd á sama ári, ég átti tvo náfrændur og jafnaldra sem ég hafði aldrei séð.
Stundum á haustin þegar uppskerustörfum var lokið fór fjölskyldan okkar í orlof, sem þá var víst ekki algengt hjá sveitafólki. Við systkinin fórum til ömmu og afa í Mosfellssveitinni, en mamma og pabbi fengu far með flutningabíl frá KS, eða var það Verzlun Haraldar Júlíussonar, norður á Sauðárkrók, þar sem Ella og Tommi bjuggu. Og gat þá líka verið að þau kæmu við í Borgarnesi, hjá Mússu og hennar eiginmanni Gunnari. Hann var þá skipstjóri á Akraborginni og sigldi á milli Reykjavíkur og Borgarness, með viðkomu á Akranesi.
Það var mikið á sig lagt til að hittast. Mér er minnisstætt þegar systkinin öll komu í heimsókn til okkar að Garði. Þvílík gleði og endalaus væntumþykja sem fylgdi þeirri heimsókn.
Atvikin höguðu því þannig að með árunum voru okkar mestu samskipti við Mússu og Gunnar. Mín fyrsta sjóferð var farin með Akraborginni í Borgarnes með foreldrunum, sjóveik, í heimsókn til frændfólksins. Mússa sendi mig þá til Settu spákonu og gaf mér tvær sígarettur til að borga fyrir spádóminn.
Þegar ég fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík voru þau flutt á Dunhagann og ef mér leiddist á laugardögum rölti ég þangað með saumadótið mitt. Alltaf svo velkomin, aldrei neitt of gott fyrir þaulsætinn gestinn. Hjá þeim voru alltaf allir velkomnir. Mússa vildi gera sínum gestum gott og svo helst gefa þeim gjafir líka að skilnaði. Gjafmildin einkenndi hana umfram allt.
Hún var alltaf á réttum stað, passaði inn í allar aðstæður. Við síldarsöltun á Mjóafirði, í kartöflugarðinum í Mýrinni, eða vinnunni á saumastofunni, í brasi við bústaðinn … og hún var flottasta frúin í veislusölum og leikhúsum borgarinnar. Þar gerðust þær ekki glæsilegri.
Þau eignuðust sumarbústaðinn í sveitinni heima, örstutt frá Garði, og það dró aldeilis ekki úr samskiptunum. Hundurinn hans pabba, hann Kjói, eignaðist annað heimili. Hann gat alltaf fengið bita í Brekkukoti.
Elsku frænka mín, fallegust og best af öllum frænkum. Eins og árin öll „sem líða í aldanna skaut og koma aldrei til baka“ ert þú nú farin og líklega hvíldinni fegin eftir meira en heila öld.
Afkomendum öllum, ættingjum og vinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd systkinanna frá Garði og barna þeirra,
Helga R. Einarsdóttir.