Morð Dexter Morgan er morðóður sérfræðingur.
Morð Dexter Morgan er morðóður sérfræðingur. — Ljósmynd/Showtime
Undanförnum kvöldum hef ég eytt í það að horfa á raðmorðingjann Dexter á Netflix. Þættirnir komu fyrst út árð 2006 og ég var duglegur að hlaða niður þáttunum á sínum tíma um leið og þeir birtust á veraldarvefnum

Bjarni Helgason

Undanförnum kvöldum hef ég eytt í það að horfa á raðmorðingjann Dexter á Netflix. Þættirnir komu fyrst út árð 2006 og ég var duglegur að hlaða niður þáttunum á sínum tíma um leið og þeir birtust á veraldarvefnum. Ég horfði á fyrstu tvær seríurnar um raðmorðingjann en gafst svo upp. Fann mér annað að horfa á, líklegast einhverja unglingadramatík.

Ég er kominn á áttundu og síðustu seríuna og ólíkt flestöllum þáttum sem ég hef horft á á undanförnum árum hef ég enga löngun til þess að hámhorfa á þættina. Mér hefur í raun tekist að slátra flestöllum sjónvarpsþáttaseríum sem ég hef dottið í á örfáum sólarhringum á síðustu árum. Raðmorðinginn Dexter er hins vegar of mikið fyrir mig. Ég næ einum til tveimur þáttum áður en ég get ekki meira. Það er ekkert sérstaklega aðlaðandi að horfa á aðra manneskju drepa aðra manneskju, þátt eftir þátt. Og þegar hann er ekki að drepa einhvern þá er hann að skipuleggja það að drepa einhvern eða að hugsa um að drepa einhvern.

Þetta er samt orðið heldur þunnt fyrir minn smekk. Það er búið að gefa út fleiri seríur um raðmorðingjan Dexter, en áttunda upprunalega serían verður sú síðasta hjá mér.

Höf.: Bjarni Helgason