Fjölskyldan Stödd í safaríferð í Kenía árið 2006.
Fjölskyldan Stödd í safaríferð í Kenía árið 2006.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Högni Óskarsson er fæddur í Danmörku 19. janúar 1945 og verður því áttræður á morgun. „Tilurð fjölskyldu minnar var háð tilviljunum. Faðir minn, sem var í Danmörku við sérnám í læknisfræði í upphafi seinni heimsstyrjaldar, afþakkaði boð um að sigla heim um Petsamo

Högni Óskarsson er fæddur í Danmörku 19. janúar 1945 og verður því áttræður á morgun.

„Tilurð fjölskyldu minnar var háð tilviljunum. Faðir minn, sem var í Danmörku við sérnám í læknisfræði í upphafi seinni heimsstyrjaldar, afþakkaði boð um að sigla heim um Petsamo. Ástæðan doktorsritgerð sem var á endaspretti. Þá hitti hann mjög óvænt miklu yngri konu, danska, mikil ást og úr varð fjölskylda. Heim skyldi halda, með Esjunni til Íslands í lok júní 1945. Ég var ríflega fimm mánaða, í pappakassa enda ekki til burðarrúm í stríðshrjáðu landi. Mikil viðhöfn var við heimkomuna, fyrsta íslenska skipið komandi frá útlöndum eftir stríðslok. Lúðrasveit og ræðuhöld fyrirmanna, viðtöl við þá nýkomnu í fjölmiðlum. Þetta fór algjörlega fram hjá mér í pappakassanum.

Við settumst að í Reykjavík, fyrstu árin á Flókagötu, síðan í Vesturbænum, Marargötu 6. Mikið frelsi, leikir, hamagangur, fótbolti, strákapör og bjölluat. Fluttum í Laugarásinn 1957.

Skólagangan hófst í tímakennslu hjá Kristínu Ólafsdóttur, upp í risi á Bárugötu 19. Hennar kennsluaðferðir voru sérkennilegar, má kalla ógnarstjórn. Mikið lærði ég. Melaskólinn tók við, Laugarnesskóli, landspróf, MR. Á unglingsárum vann ég sem starfsmaður á plani í þrjú sumur hjá Shell við Suðurlandsbraut. Eftir landspróf fór ég á síld, tvö sumur háseti á Leifi Eiríkssyni RE 333. Bjó þar við ansi frumstæð skilyrði. Miklar kröfur, langar vökur, púlsvinna, en ótrúlega gaman. Lærði mikið á sjálfan mig í krefjandi umhverfi.

Við Ingunn kynntumst í MR. Giftum okkur í ágúst 1966, en Gunna okkar fæddist fyrr á því ári. Ingunn vann sem grunnskólakennari þar til ég lauk námi. Þá hóf hún frönskunám við HÍ. Þorbergur sonur okkar var hér kominn til sögunnar. Ég var félagsmálafrík í háskólanum, í stjórn Stúdentaráðs fyrir Verðandi, og um tíma formaður Læknanemafélagsins. Óróatímar. Margt gott kom þó út úr „stúdentabyltingunni“ svokölluðu, ýmislegt orkaði samt tvímælis.

Við fjölskyldan fluttum til Bandaríkjanna 1974. Þriggja ára sérnám í geðlækningum við Strong Memorial Hospital í Rochester, NY, síðan önnur þrjú ár sérfræðingur við New York Hospital og aðstoðarprófessor við Cornell Medical College. Árin í Bandaríkjunum voru bæði ögrun og gefandi fyrir fjölskylduna, námslega og félagslega. Ingunn lauk mastersnámi í frönsku og málvísindum, og börnin undu sér vel í bandaríska skólakerfinu. Ingunn náði sér líka í þjálfun í glerlist og jóga.

Mín fyrstu maraþonhlaup voru í Bandaríkjunum. Var svo stálheppinn að setja nokkur Íslandsmet áður en landar mínir tóku við sér. Við hjónin hlupum saman New York City-maraþonið 1979, Ingunn fyrst íslenskra kvenna til að vinna slíkt afrek.

Heim fluttum við 1980. Ég fór að vinna á geðdeild LSH og var jafnframt kennslustjóri læknadeildar, í stjórn læknaráðs Landspítalans og ýmsum nefndarstörfum. Árið 1986 ákvað ég að einfalda líf mitt, yfirgefa Landspítalann og einbeita mér að stofurekstri. Ásamt nokkrum félögum stofnuðum við fyrirtækið Þerapeia, keyptum hús í Suðurgötu, byggt 1898, sem þarfnaðist mikilla endurbóta. Algjört gönuhlaup var sagt. Það kláraðist þó, hrein snilld. Þarna þróaðist samvinna um fræðslu, sem reyndist mjög gefandi. Því samstarfi lauk 2016. Stofurekstri hætti ég alveg 2022. Talandi um gönuhlaup þá má minnast á skylt fyrirbæri. Við hjónin réðumst í að kaupa Kjarvalshús á Seltjarnarnesi 1991, glæsihús sem var í niðurníðslu. Við settum alla okkar krafta og peninga í þetta, húsið varð að algjörum gimsteini. Ingunn kom sér upp verkstæði þar sem hún skapaði listaverk úr steindu gleri, auk þess sal fyrir jógaþjálfun hópa kvenna.

Á þessum árum kom ég að fjölda verkefna meðfram stofurekstri. Nokkur dæmi eru formaður Læknafélags Reykjavíkur 1990-1994, í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar 1994-2002, markþjálfi frá 1995, við rannsóknir og ráðgjöf hjá Íslenskri erfðagreiningu á tíunda áratugnum. Óhemju spennandi tími það. Á erlendum vettvangi var ég í mörg ár í stjórn samvinnunefndar norrænu geðlæknafélaganna og í fastanefnd World Psychiatric Association. Innan Nordic Cancer Union tók ég þátt í að skipuleggja þjálfun fyrir krabbameinslækna til að auka skilning þeirra á sálfélagslegum þáttum tengdum krabbameini. Verðugt verkefni Þjóð gegn þunglyndi stendur upp úr, forvarnaverkefni gegn sjálfsvígum á vegum embættis landlæknis. Með öflugum hópi skipulögðum við árin 2002-2003 mikla fræðslu og þjálfun fyrir aðila innan og utan heilbrigðiskerfisins sem stóð í 4 ár, þar til að fjármagn þraut. Varð ég um leið og er enn virkur þátttakandi í norrænu samstarfi á þessum vettvangi. Síðustu tvö ár hef ég verið ráðgjafi í sjálfsvígsforvörnum pro bono hjá embætti landlæknis. Flókið verkefni með frábæru fólki. Hluti af því er stór rannsókn um áhættuþætti sjálfsvíga á Íslandi. Er meðhöfundur á um fjórða tug ritrýndra vísindagreina.

Á þessum tímamótum er rétt að staldra við. Þegar upp er staðið þá sprettur upp hið góða líf í nærveru þeirra sem næstir eru, maki og börn, fjölskyldur þeirra, og svo vinir. Áhugamálin hafa verið mörg. Gönguferðir um Ísland og erlendis með allt á bakinu í góðra vina hópi, Geirfuglunum, voru magnaðar. Útskriftarhópurinn úr læknadeild hefur hist reglulega og ferðast saman innan lands og utan, margt skrafað, minnst um læknisfræði. Aðrir vinahópar, menningartengdir, hafa gefið okkur mikið. Tryggðin í þessum samböndum er mikilvæg.

80 ár eru bara tala. Ég er í fullkominni afneitun, tel mig enn vera í fullu fjöri. Fyrir utan hlaup og sund þá les ég mikið, bókmenntir, sögu, hlusta á tónlist, borða og bý oft til góðan mat.“

Fjölskylda

Eiginkona Högna er Ingunn Ósk Benediktsdóttir, f. 15.1. 1944, glerlistakona, frönsku- og jógakennari. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Foreldrar Ingunnar voru hjónin Benedikt Guðjónsson kennari, f. 3.3. 1909, d. 12.4. 1982, og Róshildur Sveinsdóttir jógakennari, f. 20.2. 1911, d. 16.5. 2003.

Börn Högna og Ingunnar eru 1) Guðrún Högnadóttir, f. 16.2. 1966, framkvæmdastjóri, Garðabæ. Maki: Kristinn Gunnarsson, f. 24.8. 1963, ráðgjafi og frumkvöðull. Dætur þeirra eru Kristjana Ósk, f. 1997, maki: Björn Elvar Þorleifsson, f. 1995, og Ingunn Anna, f. 1999, maki: Róbert Vilhjálmur Ásgeirsson, f. 2000; 2) Þorbergur Högnason, f. 22.8. 1971, læknir á Húsavík. Maki: Svava Hlín Arnardóttir, f. 18.12. 1987, framkvæmdastjóri. Börn Svövu eru Arnar, f. 2014, Martin, f. 2016 og Sólveig Stephens, f. 2019.

Systkini Högna: Guðrún Óskarsdóttir, f. 9.6. 1943, d. 10.2. 1963, og Ásgeir Óskarsson, f. 5.1. 1950, fyrrv. fjármálastjóri.

Foreldrar Högna voru hjónin Óskar Þ. Þórðarson, f. 29.12. 1906, d. 2.3. 1995, yfirlæknir í Reykjavík, og Inger Þórðarson fædd Schröder, f. 25.9. 1919, d. 9.12. 2013, húsmóðir í Reykjavík.