Brynja Friðþórsdóttir fæddist 3. september 1956. Hún lést 8. janúar 2025.

Útför Brynju fór fram 17. janúar 2025.

Í dag kveð ég kæra vinkonu.

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt lífið hennar Brynju. Hún missti hann Steina sinn allt of fljótt og það gerðist mjög skyndilega. Þarna árið 2005 rétt fyrir jólin er hún orðin ekkja með tvö börn. Hún var ótrúlega dugleg og spjaraði sig vel. Við áttum t.d. góða daga í skemmtilegri ferð í Dóminíska lýðveldið í janúar 2008. En fljótlega fór að halla undan fæti með heilsuna. Í ágúst 2017 fór hún til Svíþjóðar í nýrnaskipti og gerðist það hratt, eins og þannig aðgerðir gerast.

Hún hringdi í mig á mánudagskvöldi eftir þjóðhátíð og sagði mér að hún væri að fara með sjúkravél út og Þorsteinn hennar færi með henni. Aðgerðin gekk vel og brátt var hún komin heim og lífið gekk sinn vanagang en hún var inn og út af sjúkrahúsi næstu árin. Æðruleysi hennar var ótrúlegt, ung kona sem gat í raun ekki gert neitt. Ekki tekið þátt í lífinu sem alla langar að gera þegar við erum 50+. Sinnt barnabörnunum og ferðast. Já þarna sannaðist það að það fæðast ekki allir undir heillastjörnu.

Hún átti orðið erfitt með að vera ein og í byrjun árs 2024 fékk hún úthlutaða íbúð á vegum Vestmannaeyjabæjar í Bláa húsinu eins og sagt er og var það dásamleg íbúð sem hún því miður gat ekki notið þess nógu mikið að vera í. Sjúkrahúsinnlagnir komu í veg fyrir það. Svo kom reiðarslag núna í desember sl. að Margrét dóttir hennar dó snöggt eftir mikil veikindi frá eiginmanni og átta ára syni og tók það sinn toll af Brynju minni.

Margrét var jörðuð 17. desember sl. og er því einn mánuður á milli jarðarfardaga þeirra mæðgna.

Brynju minni hrakaði mikið og 3. janúar var hún flutt með þyrlu á Landspítalann og dó þar 8. janúar sl. Ég hef átt góða daga með vinkonu minni sl. ár og áttum við traust og innilegt samband sem ég geymi í hjarta mínu. Ég mun sakna þess að geta ekki heimsótt hana lengur. Takk fyrir ljúfa daga elsku Brynja mín og öll skilaboðin sem við sendum hvor annarri, knús þar til næst.

Þú sagðir við mig síðustu orðin þegar ég kvaddi þig áður en þú fórst með þyrlunni, mjög mikið veik: „Ég hringi ekki í kvöld,“ húmorinn var enn til staðar.

Fyrir hönd okkar Súpermódels 56 úr Vestmannaeyjum vil ég þakka þér samfylgdina og sendi aðstandendum hjartnæmar samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Björk.