Áslaug Kristinsdóttir fæddist 23. febrúar 1955. Hún lést 5. janúar 2025.

Útför Áslaugar fór fram 16. janúar 2025

Kæra frænka, nú er komið að kveðjustund, stund sem kom alltof snemma. Nú eru það hlýjar og góðar minningar sem ylja og munu gera um ókomin ár.

Fyrstu minningar mínar af Áslaugu frænku eru heimsóknir hennar í Pétursey þar sem hún færði unga sveitastráknum lesefni. Það voru traktorablöð með fullt af myndum af allskonar traktorum, þetta er mér líklega sérlega minnisstætt vegna þess hversu mikið þetta gladdi mig. Það var alltaf mikil tilhlökkun þegar Áslaug frænka var væntanleg í heimsókn.

Í gegnum árin hafa samverustundirnar flestar verið í Skógum undir Eyjafjöllum. Í þeirri sveit sem maður fann alltaf að Áslaug hélt mikið upp á. Þó að stundum hafi liðið langt á milli þess sem við hittumst fann maður alltaf hlýjuna og kærleikann við að hitta Áslaugu. Það leið öllum vel í nærveru hennar.

Eftir því sem árin liðu hitti ég Áslaugu sjaldnar, en ég fann þó vel að hún fylgdist alltaf vel með frænda sínum á samfélagsmiðlum. Þegar ég var í því að setja saman gestalistann fyrir útskriftarveisluna mína úr framhaldsskóla árið 2022 var mér hugsað til þessarar góðu frænku. Ég sendi henni boð og hún var að sjálfsögðu fyrst til að staðfesta komu sína. Það er mér á þessari stundu mjög dýrmæt minning að Áslaug frænka hafi mætt í veisluna þar sem þetta er með síðustu minningunum sem ég á um hana.

Útskriftargjöfin frá Áslaugu var innrammað textabrot eftir Prins Póló „Góður strákur og vel uppalinn“ sem fór beint upp á vegg í eldhúsinu hjá mér. Mér verður því oft hugsað til Áslaugar og mun ég heldur betur varðveita þessa dýrmætu gjöf vel.

Nú bregður sumri og sunnu

um svala norður braut,

þar mildir morgnar runnu

í minninganna skaut.

Þótt sorgin sendi skugga,

og saknaðs þrungin ský

þá megnar mild að hugga

þín minning björt og hlý.

(J.S. Húnfjörð)

Minning um hlýja og yndislega konu lifir og mun gera um ókomin ár.

Aðstandendum Áslaugar votta ég innilega samúð.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.

Elsku vinkona mín hún Áslaug er farin úr þessari jarðvist. Lífið er svo miklu fátækara án þessarar stórbrotnu konu.

Við kynntumst við störf okkar í Breiðagerðisskóla, hún matráður og ég bókasafnsfræðingur. Við fundum hvor í annarri marga sameiginlega fleti, t.d. kolsvartan húmor, dálæti á Leonard Cohen og Elísabetu Englandsdrottningu að ógleymdu glápi á Morse-þættina, Lewis og Hathaway og að lokum Endeavour. Þetta áhorf stunduðum við eins og vísindarannsókn og áhuginn leiddi okkur á slóðir þessara dáðadrengja í Oxford. Við gengum um söguslóðir þáttanna; m.a. Radcliff Camera og Andvarpsbrúna og fórum á kaffihúsin og barina sem þeir sóttu. Við stöldruðum líka við í London, sem var uppáhaldsborgin hennar Áslaugar. Hún hafði yfirburðaþekkingu á henni og það var mikil gæfa að fá hennar leiðsögn. Þessi ferð mun aldrei gleymast og lifir skýrt í einstaklega fallegri ferðamyndabók sem hún útbjó og gaf mér. Lýsandi fyrir Áslaugu.

Hún ferðaðist þegar tækifæri og pyngja fóru saman og það var upplifun að hlusta á ferðasögurnar hennar og fróðleikinn sem þeim fylgdi. Þar var sko engin yfirborðsþekking á ferð.

Áslaug var hæfileikabúnt. Til að mynda talaði hún mjög vandaða og litríka íslensku með sinni fallegu rödd. Þegar hún talaði lagði maður við hlustir.

Hún var mikil hannyrðakona, prjónaði alls kyns listaverk en var ekki mikið að flíka því frekar en öðru sem hún tók sér fyrir hendur. Hún bjó til kerti sem glöddu okkur í skólanum hver jól, skrifaði skemmtilega texta, málaði og bjó til einstakar gjafir. Ég var ein af þeim heppnu sem fengu að njóta þess örlætis og fyrir það er ég svo þakklát.

Svo má ekki gleyma góða matnum sem hún útbjó, bæði innan vinnu og utan.

Svo t.d. þegar eitthvað gerðist hjá drottningunni okkar í Englandi var notalegt að setjast í litlu stofuna hennar og fá veitingar með bresku þema, skonsur og gúrkusamlokur.

Áslaug var mikill dýravinur og ófáir kettir voru boðnir velkomnir í mat og hlýju á hennar heimili. Það var dæmi um enn einn hæfileikann: hvernig hún betrumbætti og töfraði fram hlýju og notalegheit hvar sem hún kom sér fyrir.

Ég held að okkar samskiptum sé best lýst með því að hún hafi verið Esjan mín. Traustur vinur og einstök á allan hátt.

Áslaug var mikill innblástur, ekki síst í vináttu. Gott dæmi var fallegt samband hennar og Siggu, samstarfskonu hennar, þar fóru tvær konur sem reyndust hvor annarri vel þegar á reyndi. Báðar gull af manni.

Það er þyngra en tárum taki hvað hún fór fljótt, svo til nýfarin í vinnufríið langa og meira en til í þann tíma sem fram undan var og hafði margt á prjónunum. Það nísti þegar hún fékk dóminn um alvarlegan sjúkdóm. Hún haggaðist ekki sjálf en hafði einhvern veginn styrkinn til að hugga aðra í kjölfarið. Allan tímann sýndi hún einstakt æðruleysi, sem kom reyndar ekki á óvart, þessi sterka kona fór ekki vælandi um veröldina.

Fram undan er sorgin yfir missi einstakrar vinkonu en sterkast er þakklæti fyrir dýrmæta tímann með henni.

Ég votta elsku Hrund og fjölskyldu og Baldri og Frey mína dýpstu samúð.

Guðbjörg Garðarsdóttir.