Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Ungmennabókin Hvíti ásinn er fyrsta bók Jóhönnu Sveinsdóttur. Hún segir svolítið skrýtið að vita af bókinni í höndum lesenda en því fylgi líka ákveðinn léttir því það hafi verið mikil vinna að skrifa bókina.
„Fyrst þegar hún kom út hélt ég niðri í mér andanum, ég var stressuð yfir því hvað fólki myndi finnast. Svo var mjög gaman þegar viðbrögð fóru að streyma inn,“ segir hún og nefnir sem dæmi að hún hafi fengið sendar myndir af börnum að lesa bókina og þeirra á meðal hafi verið krakkar sem ekki gátu lagt bókina frá sér.
„Þetta voru stolnar stundir“
„Ég held að mig hafi alltaf langað að vera rithöfundur. Ég hef skrifað frá því ég var krakki. Ég skrifaði sögur og ljóð og var bara smástelpa þegar ég var alltaf að kveðast á við afa minn.“ Hún segist snemma hafa byrjað að vinna í blaðamennsku og sem pistlahöfundur en hafi undanfarin ár unnið sem textasmiður í auglýsingabransanum. „Svo ég hef alltaf unnið við að skrifa en þetta er í fyrsta sinn sem ég sest niður og skrifa skáldskap af þessari stærðargráðu.“
Jóhanna hefur skrifað með fram fullri vinnu og rekur þar að auki stórt heimili. Þegar hún byrjaði að skrifa bókina voru börnin hennar á leikskóla. „Þetta voru stolnar stundir,“ segir hún og bætir við að ferlið hafi þess vegna tekið nokkur ár. „Stundum hef ég haft svigrúm til að sitja við en svo hafa komið tímabil þar sem ég hef ekkert getað skrifað. Í haust kom augnablik þar sem það var bara að duga eða drepast og ég ákvað að kýla á þetta. Ég fékk svigrúm frá fjölskyldunni til að klára þetta og ég sé ekki eftir því.“
Handritið að Hvíta ásnum tók töluverðum breytingum í ferlinu. „Þetta byrjaði sem barnabók, fyrir miklu yngri krakka. Svo á meðan ég var að skrifa þá stækkaði heimurinn og sagan þroskaðist yfir í ungmennabók. Það er margt sem karakterarnir takast á við sem talar meira inn í þetta tímabil lífsins, þegar maður er ungur og að reyna að koma sér fyrir í lífinu. Bókin óx frá því að vera barn yfir í að vera stálpaður unglingur á meðan ég var að skrifa hana.“
Jóhanna segir miður að ekki sé meira úrval af íslensku lesefni fyrir unglinga. „Ég held að maður læri það alltaf betur og betur hvað það er lítið í boði fyrir þennan hóp. Fólk minnist mjög mikið á það. Það eru ekki margir á Íslandi að skrifa fyrir unglinga og ég er mjög spennt að vera komin í þann hóp.“
Að sýna sig og sanna
Hvíti ásinn er á kápunni sögð „ævintýraleg og spennandi bók um heim ása og vætta, ógnvekjandi framtíðarsýn og kraftinn sem býr innra með okkur“. Þar segir af Iðunni sem hefur alist upp í mjög vernduðu umhverfi. Hún hefur búið með pabba sínum í Noregi, utan við samfélagið, þar sem hann hefur falið hana fyrir hættum heimsins. „Iðunn er ótrúlega sterkur karakter en er mjög læst inni í sér eftir að hafa verið ein með pabba sínum. Þegar þau fá óvænta heimsókn um miðja nótt, sem verður til þess að þau flytja til Íslands, þá fer að opnast fyrir henni hvernig heimurinn í raun og veru er og hver hún sjálf er.“
Iðunn byrjar í hinum ævintýralega Vættaskóla og þar reynir á félagsfærnina. Hún kynnist þó nokkrum krökkum sem reynast henni vel. Sagan fjallar að sögn Jóhönnu að hluta til um það að finna sitt fólk. Þá segir hún verkið einnig um það að brjótast undan vantrausti fullorðinna. „Það sem Iðunn og vinir hennar upplifa er að það er eitthvað sem skiptir þau rosalega miklu máli en þeim er meinaður aðgangur að því að hafa áhrif á það. Þau eru svolítið að sýna sig og sanna, að þau séu traustsins verð, að þrátt fyrir ungan aldur geti þau sannarlega haft áhrif á umhverfi sitt.“
Hringrásin í Völuspá
Sagan gerist í framtíðinni og heimurinn er mjög breyttur. „Hvað gerist ef við höldum áfram í óbreyttu ástandi, hvernig yrði heimurinn þá? Þá væri ýmislegt í samfélaginu og náttúrulögmálunum sem væri komið vel úr skorðum. Ég fléttaði það þarna inn.“
Jóhanna nýtti norræna goðafræði í verkinu og segist hafa lagst í töluverða rannsóknarvinnu enda hafi hún viljað gera goðafræðinni góð skil. „Auðvitað vill maður fara eins vel með þetta efni og maður getur. Þetta er menningararfurinn okkar og maður ber virðingu fyrir honum,“ segir hún.
„Ég notaði Völuspá og goðafræðina, sérstaklega Gylfaginningu, til þess að búa til plottið sem drífur söguna áfram,“ segir Jóhanna en viðurkennir þó að hún hafi farið töluvert út fyrir það sem sé skrásett í handritum og hafi haft gaman af því að spinna við söguna.
Völuspá segir Jóhanna áhugaverða vegna þess að það sé sama á hvaða tímabili sögunnar maður lesi kvæðið, það eigi alltaf við. „Við lifum alltaf í hringrásinni sem Völuspáin segir frá. Einhvers staðar byrjum við, einhvers staðar fer allt í rugl og síðan fæðist nýr heimur. Það þarf ekki að vera að allt tortímist en við erum alltaf í þessari hringrás, líka í tilfinningalífinu. Það er það sem mér finnst svo fallegt við Völuspána. Mér finnst falleg von í því að hugsa um að heimurinn í dag eigi erindi inn í Völuspána eins og hún var ort fyrir öllum þessum árum. Það mun fæðast nýr heimur út úr ástandinu sem við erum í í dag,“ segir hún.
Býður upp á framhald
Spurð hvort framhald af Hvíta ásnum sé í bígerð segir Jóhanna: „Sagan býður alveg upp á að ég haldi áfram. Framhald er byrjað að fæðast í huganum og Iðunn lifir enn mjög góðu lífi þar og það er margt spennandi að gerast hjá henni. En hvort og þá hvenær það ratar niður á blað verður að koma í ljós.“
Jóhanna hvetur að lokum fullorðna til að vera duglegir að gefa unglingum bækur. Best sé að þær séu á íslensku en mestu máli skipti að unglingarnir, sem alla jafna skipta ekki mikið við bókabúðir, hafi aðgang að bókum. „Maður les ekki bækur sem eru ekki í rýminu manns. Krakkar verða að eiga bækur til að lesa bækur.“