Tímamót Hveitimyllu Kornax verður lokað bráðlega en ekki tókst að finna myllunni nýjan stað.
Tímamót Hveitimyllu Kornax verður lokað bráðlega en ekki tókst að finna myllunni nýjan stað. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er dapurlegt. Þarna er verið að loka nokkurra áratuga sögu,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara. Hveitimyllu Kornax í Korngörðum verður lokað á næstunni

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er dapurlegt. Þarna er verið að loka nokkurra áratuga sögu,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara. Hveitimyllu Kornax í Korngörðum verður lokað á næstunni. Sú var eina hveitimylla landsins og því verður allt hveiti á Íslandi innflutt héðan í frá.

Sigurður segir að meirihluti af korni hafi verið ræktaður erlendis en malaður hér. Þarna sé því ákveðnum kafla í atvinnusögunni að ljúka. Þetta felur að hans sögn í sér breytingar fyrir suma bakara, stórnotendur sem hafi fengið kornið til sín með bíl með stórum mjöltanki sem hafi svo dælt því í síló. Hér eftir verði fluttir inn gámar með tönkum í. Minni handverksbakarí muni eftir sem áður fá hveitið til sín í pokum.

Arnar Þórisson forstjóri Líflands segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi leigt húsnæði undir myllu Kornax í Korngörðum. Þegar Faxaflóahafnir hafi ekki viljað framlengja leigusamning við fyrirtækið hafi verið kannaðir möguleikar á að byggja nýja verksmiðju á athafnasvæði félagsins á Grundartanga. Þá hafi komið í ljós að ekki fengist starfsleyfi fyrir matvælaframleiðslu á þynningarsvæði stóriðjufyrirtækjanna sem þar starfa.

„Við skoðuðum marga möguleika til að halda framleiðslunni áfram hér á landi en fundum enga aðra samkeppnishæfa lausn. Niðurstaðan var að við yrðum að loka þessari framleiðslu og gera samning við framleiðanda í Danmörku, sem raunar var upphaflega bakhjarl kornmyllunnar og raunar einnig hluthafi. Hann mun framleiða okkar hveiti undir okkar vörumerkjum, Kornax, og neytendur munu ekki finna fyrir neinum breytingum,“ segir forstjórinn.

Kornax-myllan hefur verið í notkun síðan 1986 og Arnar játar því að þetta séu ekki gleðileg tímamót. „Myllan hefur þjónustað Íslendinga í 38 ár. Auðvitað er leiðinlegt að hætta mölun á Íslandi.“

Sigurður rifjar í samtali við Morgunblaðið upp að löng hefð sé fyrir mölun hér á landi. Þannig hafi verið reist mylla á horni Ingólfsstrætis og Bankastrætis árið 1846 og gekk hún undir nafninu „Hollenska myllan“, hún malaði hveiti í ein 30 ár en var rifin 1902. Síðar hafi verið gert ráð fyrir hveitimyllu í húsinu þegar Rúgbrauðsgerðin var byggð árið 1949. Þá voru árið 1969 uppi hugmyndir um að setja á fót ríkisrekna hveitimyllu. Á aðfangadag það ár skipaði iðnaðarráðuneytið fjögurra manna nefnd til athugunar á hagkvæmni hveitimyllureksturs hér á landi. Ekki varð af þeim áformum og þegar mylla Kornax var tekin í notkun hafði ekki verið malað hér áratugum saman.