Kristín Söfn Helgadóttir fæddist á 9. nóvember 1943. Hún lést 7. janúar 2025.

Útför hennar var gerð 16. janúar 2025.

Elsku stóra systir mín. Nú ertu farin frá okkur eftir snörp veikindi sem var erfitt að fylgjast með. Öll vorum við samt svo þakklát fyrir að þú náðir jólahátíðinni. Þú varst búin að ganga frá jólagjöfum fyrir allan þinn stóra hóp. Þannig varst þú, vildir alltaf vera að gefa. Þegar við Hrafnhildur vorum litlar varst þú líka ávallt svo gjafmild. Mér fannst þú alltaf svo fullorðin þótt það væru bara fimm ár á milli okkar. Þegar pabbi og mamma ráku svifflugsskólann á Sandskeiði þá var það heimili okkar á sumrin þegar við vorum börn. Þaðan áttum við yndislegar æskuminningar. Og stolt mitt var mikið að fylgjast með þér að læra svifflug. Þú sveifst í langan tíma í loftinu þegar þú þreyttir C-prófið í svifflugi, en þá varstu einungis 12 ára. Og þar með orðin yngsta svifflugskona í heimi til að taka þetta próf svo vitað sé. Stolt mömmu og pabba var auðvitað ekki minna. Pabbi ætlaði reyndar líka að koma okkur Hrafnhildi í loftið þegar við næðum „réttum“ aldri, en það náðist ekki því þá var hann hættur með svifflugsskólann.

Æskuárin í Selás 3 voru ekki síðri. Þar bjuggu einnig amma og afi og Hulda, systir pabba, ásamt frænkunum Kristínu og Guðrúnu. Í Selásnum var mikið brallað og við systurnar og frænkur okkar urðum mjög nánar.

Það er margs að minnast, m.a. utanlandsferða okkar systra. Við fórum fyrst allar saman til Þýskalands árið 1971. Það var á vörusýningu með mömmu og pabba. Ein af mörgum góðum minningum úr þeirri ferð er hversu glaður og ánægður pabbi var þegar hann var að kynna okkur systurnar og mömmu fyrir viðskiptafélögum sínum á sýningunni. Þá bókstaflega breiddi pabbi út faðminn þegar hann tók utan um okkar allar fjórar. Síðar fóru þær með mér á vörusýningu í Bandaríkjunum og keyrðum þá mjög eftirminnilega um nokkur fylki þar vestra og var það sömuleiðis yndisleg ferð í alla staði. Og fyrir nokkrum árum, á sjötugsafmæli mínu, fórum við systurnar, ásamt eiginmönnum okkar, í dásamlega þriggja vikna ferð til Bandaríkjanna þar sem siglt var frá Flórída til San Francisco. Já, minningarnar eru margar og góðar.

Ein þeirra snýr enn fremur að stofnun Soroptimistaklúbbs Árbæjar fyrir margt löngu. Þar vorum við saman í stofnendahópnum og þú varst þar allt í öllu. Það var gaman að fylgjast með þér á þessum vettvangi og sjá hversu vel þetta átti við þig.

Ég er þakklát fyrir að hafa náð að vera með þér stóran hluta síðasta sólarhringsins áður en þú kvaddir og að fylgjast með eiginmanni, börnum, tengdabörnum, barnabörnum og langömmubörnum þínum umvefja þig hlýju og kærleika uns yfir lauk. Og þrátt fyrir að endalokin væru óumflýjanleg varstu söm við þig og slóst bara á létta strengi. Vá, það er bara orðið partífært, sagðir þú þegar sjúkrastofan hafði fyllst af fólki og bættir svo við það væri bara verst að það vantaði gestabókina!

Elsku Skúli, Helgi, Viggó, Hafdís, Ingólfur og fjölskyldur, hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Guð blessi minningu systur minnar, Kristínar Sjafnar Helgadóttur.

Guðfinna Björk Helgadóttir.

Elsku mamma mín (amma mín). Maður er varla að trúa því að þú sért farin frá okkur! Það verða ekki fleiri sjónvarpskvöld á Prestastíg en við náðum nú að horfa á uppáhaldsmynd okkar beggja, Notting Hill, um jólin. Fyrir það er ég þakklátur.

Fyrir mig og drenginn minn gerðir þú einfaldlega allt og það ber að þakka. Elsku mamma mín, nú ertu komin í ró eða hvað? Nú ertu komin til ömmu og afa og jú þinnar bestu Emmu, svo eflaust er gleðin við völd þar.

Það er bara of mikið sem hægt væri að skrifa til þín elsku mamma mín. Allar utanlandsferðirnar og ferðalögin, það eru bara svo margar minningar sem flæða en koma ekki alveg fram núna.

Takk fyrir allt elsku mamma (amma mín). Þú varst best! Kveð þig með besta lagi Bubba Morthens:

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Þinn sonur og ömmustrákurinn þinn

Ingólfur Skúlason og Skúli Möller.

Kær systir í Soroptimistaklúbbi Árbæjar, Kristín Sjöfn, er fallin frá. Hugtakið „soroptimist“ merkir bestu systur eða systur sem vinna að því besta og það átti svo sannarlega við um Kristínu sem var ein okkar besta systir. Það var mikill fengur fyrir Soroptimistasamtökin þegar Kristín Sjöfn gekk í þeirra raðir. Hún var ein af þeim 18 systrum sem stofnuðu Soroptimistaklúbb Árbæjar, sem fékk nafnið Reykjavík II, þann 18. október 1980. Kristín var fyrsti formaður klúbbsins og að tilstuðlan hennar var nafni hans og annarra klúbba í Reykjavík breytt á landssambandsfundi í Árbæ vorið 1995. Lagði Kristín til að klúbbar yrðu kenndir við hverfin sem þeir störfuðu í. Evrópusamband Soroptimista samþykkti þessa tillögu og breyttist nafn klúbbsins úr Reykjavík II í Árbær.

Kristín var framsýn og áhugasöm um starf Soroptimistasamtakanna og var Soroptimisti af lífi og sál. Hún var mikill fróðleiksbrunnur um sögu og starfsemi samtakanna hér á landi og erlendis og taldi samskipti milli systra innan lands jafnt sem utan mikilvæg en þannig gætu konur treyst vinabönd, lært hver af annarri og eignast nýjar systur, jafnvel um allan heim. Það eru ekki margir landssambandsfundir eða haustfundir Soroptimista sem Kristín mætti ekki á en fyrsti haustfundur Soroptimistasambands Íslands var haldinn, að hennar tilstuðlan, í Munaðarnesi árið 1985. Ótal fundi sótti hún erlendis, m.a. alheimsþing, sendifulltrúafundi og norræna vinadaga og naut þess að taka þátt í þeim. Því eitt af því sem einkenndi Kristín Sjöfn var það hve gaman hún hafði af því að hitta fólk og spjalla við það. Hún var þá í essinu sínu og frásagnargleði hennar naut sín.

Kristín var forseti Landssambands Soroptimista árin 1990-1992. Beitti hún sér m.a. fyrir því að samtökin eignuðust heimili. Sem varð að veruleika árið 1990 þegar húsnæði að Suðurlandsbraut 22 var tekið á leigu.

Árið 2005 færði Kristín nýjum klúbbi í Þýskalandi stofnskrá sína. Klúbburinn fékk nafnið Munsterland West. Var þetta mikill heiður og skemmtileg reynsla sem hún vísaði oft til. Árið 2005 var hún síðan gerð að heiðursfélaga í Soroptimistaklúbbi Árbæjar fyrir störf sín í þágu klúbbsins.

Það var engin lognmolla í kringum Kristínu, dillandi hlátur og glæsileiki einkenndu hana og var hún eins og guðmóðir allra í klúbbnum.

Við Árbæjarsystur höfum svo sannarlega notið samfylgdarinnar með Kristínu. Hún auðgaði líf systra og klúbbstarfið með glaðlyndi, hlýju og lífsgleði en ekki síður með því að veita öllum systrum bæði nýjum og þeim sem eldri voru áhuga og athygli og hún var óspör á að deila reynslu sinni. Henni var mikið í mun að tekið væri vel á móti nýjum systrum og að þær fyndu sig velkomnar í klúbbnum. Eitt sinn fékk hún viðurnefnið „Big Mama“ í tengslum við störf sín fyrir Soroptimista, sem henni þótti afar vænt um og talaði stundum um sjálfa sig sem slíka enda stóð hún fyllilega undir því nafni.

Takk fyrir allt kæra systir.

Klúbbsystur senda Skúla og fjölskyldu sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd systra,

Kristjana Jónsdóttir.

Kær vinkona til margra ára hefur nú kvatt þetta jarðlíf. Allt hefur sinn tíma og það er okkar sem eftir stöndum að horfast í augu við þann veruleika. Í minningunni sjáum við Kristínu Sjöfn fyrir okkur, hennar geislandi sterku nærveru, hlýju og hugrekki. Við hugsum til hennar og jafnframt til sameiginlegra vina í vinahópnum sem á undan okkur eru gengnir.

Hún Kristín Sjöfn var til margra ára ein af máttarstólpunum í vinahópnum, því hún var bæði félagslynd og tillögugóð. Frásagnargleði hennar var einstök. Hún sagði okkur hinum frá ferðastöðum og ferðalögum erlendis, frá þeim stöðum sem við höfðum ekki komið til. Frásögnin varð lifandi fyrir hugskotssjónum okkar, en okkar sameiginlega áhugamál voru ferðalög, bæði erlendis og innanlands.

Og Kristín Sjöfn var virk í umræðu líðandi stundar. Hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, meðal annars á stjórnmálum, trúmálum og heilbrigðis- og velferðarmálum. Umræða í hópnum var fjörug, þar var Kristín Sjöfn í essinu sínu og stóð fast á sínu.

Við minnumst matarboða og reglulegra vinafunda á heimili þeirra Kristínar Sjafnar og Skúla. Þar nutu þau sín sem gestgjafar og þar voru þau svo sannarlega fyrirmyndir okkar hinna.

Við sem nutum þeirra forréttinda að verða vinir Kristínar Sjafnar erum nú með hugann hjá Skúla og fjölskyldu. Við kveðjum elskulega vinkonu okkar með söknuði og eftirsjá. Þökkum allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Í huga og hjarta látum við minningu um góða konu lifa.

Blessuð sé minning Kristínar Sjafnar.

Alda Halldórsdóttir, Árni Þ. Árnason, Ása Hanna Hjartardóttir og Hjördís Jensdóttir.

hinsta kveðja

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Guðríður (Gauja) og Viktoría (Vigga)