Baksvið
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að fella úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá hverfist um túlkun ákvæðis í lögum um stjórn vatnamála frá árinu 2011 og hvort Umhverfisstofnun hafi mátt byggja á undanþáguheimild í lögunum til að heimila breytingar á Þjórsá í þágu virkjunarinnar.
Dómurinn féll sl. miðvikudag.
Í ákvæðinu, sem er að finna í 18. grein laganna, er mælt fyrir um í 1. málsgrein að Umhverfisstofnun geti heimilað breytingu á vatnshloti sem hefur það í för með sér að ekki sé hægt að ná fram tilteknum umhverfismarkmiðum þegar um sé að ræða „breytingar, svo sem vegna mengunar eða í tengslum við loftslagsbreytingar, á vatnsgæðum, vistfræðilegum, vatnsformfræðilegum eða efna- og eðlisefnafræðilegum eiginleikum yfirborðsvatnshlots eða á hæð grunnvatnshlots“, að því er segir í a-lið málsgreinarinnar.
Var því haldið fram af stefnendum í málinu að Umhverfisstofnun hefði túlkað fyrrgreint ákvæði of rúmt og það ætti ekki við hvað vatnsaflsvirkjanir varðar.
Hvað er vatnshlot?
Orðið vatnshlot er fæstum tamt á tungu, en á vef Umhverfisstofnunar er það skýrt þannig: „Vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar sem fá tiltekin raðnúmer innan stjórnar vatnamála. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða tiltekinn hluti straumvatns.“
Landsvirkjun ósammála
Landsvirkjun telur aftur á móti að vatnsaflsvirkjanir falli undir 1. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála og því hafi Umhverfisstofnun mátt veita heimild til breytingar á svokölluðu vatnshloti Þjórsár vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun á grundvalli ákvæðisins.
„Dómurinn segir að Umhverfisstofnun hafi ekki haft heimild til að veita undanþáguna til virkjunarinnar, þar sem a-liður 1. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála taki einungis til þess þegar um mengun er að ræða eða loftslagsbreytingar, en ekki vegna virkjana,“ segir Steinunn Pálmadóttir lögfræðingur hjá Landsvirkjun í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað var viðbragða fyrirtækisins vegna dómsins.
Þröngur stakkur sniðinn
„Dómurinn segir að Umhverfisstofnun sé sniðinn mjög þröngur stakkur. Ef einhver óskar eftir heimild til að breyta vatnshloti eins og við gerðum í þessu tilviki, þá má það einungis gera vegna mengunar eða loftslagsbreytinga,“ segir hún.
Steinunn segir einnig að þegar tilskipun Evrópusambandsins var innleidd í lögunum um stjórn vatnamála hafi átt sér stað umræður í þingnefndinni sem um málið fjallaði, þar sem orðalagi var lítillega breytt og dómarinn túlkaði það á þann veg að ákvæðið ætti ekki við um vatnsaflsvirkjanir og engar undanþágur heimilar þar með vegna þess.
Steinunn segir að tilskipunin sem ætlunin var að innleiða sé alveg skýr um að hægt sé að veita undanþágu vegna virkjunarframkvæmda t.a.m., en með orðalagsbreytingu hafi þingnefndin þrengt ákvæðið með fyrrgreindum afleiðingum.
„Gullhúðun“
Segir Steinunn þetta dæmi um svokallaða „gullhúðun“.
Hún nefnir einnig að hafi það í raun verið vilji löggjafans að banna vatnsaflsvirkjanir hefði það átt að standa skýrum stöfum í lagatextanum eða lögskýringargögnum.
Ljóst er að niðurstaða Héraðsdóms mun valda miklum töfum á framkvæmdum við Hvammsvirkjun, en Landsvirkjun er nú með til athugunar að áfrýja dómnum til æðra dómstigs. Skoðað er hvort reynt verði að fá heimild til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar til að flýta málinu.
Afdrifaríkur dómur
Innleiðing Evróputilskipunar um stjórn vatnamála
Breyting á orðalagi lagagreinar hefur mikil áhrif
Sagt dæmi um „gullhúðun“
Umhverfisstofnun sögð hafa túlkað undanþáguákvæði í lögum of rúmt
Nýjar vatnsaflsvirkjanir mögulega bannaðar
Áfrýjun til æðra dómstigs til skoðunar hjá Landsvirkjun