María Kristjánsdóttir fæddist 19. mars 1944. Hún lést 27. desember 2024.

Útför fór fram 17. janúar 2025.

Maríu sat ég fyrst með á Húsavík er við rýndum í Garðveislu, leikrit Guðmundar Steinssonar. Það fór vel á með okkur, verkefnið var gefandi og skemmtilegt með Kristbjörgu Kjeld, Erlingi Gíslasyni og stórum hópi leikara og starfsmanna Þjóðleikhússins, en olli strax á æfingatíma töluverðum usla. Þurfti leikhússtjóri að taka á móti fjölmennri sendinefnd kirkjunnar, sem vildi meta hvort um guðlast og siðleysi væri að ræða, annaðhvort af hendi höfundar eða uppsetningarinnar. Niðurstaðan varð leikhúsinu í hag. Adam og Eva yngri máttu vera ber undir skilningstrénu og Skaparinn gat verið kona af óræðum kynþætti, krossfest í sundlaug Adams og Evu eldri í dómsdagsgarðveislu þeirra. Flestum var létt og framkvæmdastjóri hússins keypti svuntur til að hlífa sparifötum áhorfenda fyrir vatnssulli úr sundlauginni.

Leikstjórinn María hafði ekki haggast meðan á þessu stóð og hélt sínu striki með gildar ástæður fyrir öllum sínum leikstjórnarákvörðunum. Það þýddi þó ekki að hún væri ósveigjanleg, þvert á móti var hún opin og móttækileg fyrir hugmyndum alls síns samstarfsfólks. Hún var skarpur greinandi, óhrædd við að setja hlutina í stærra samhengi og segja sína skoðun umbúðalaust.

Þannig fannst mér María vera bæði sem vinnufélagi og vinur, íhugul og rólynd en hugmyndarík, hafnaði skrauti og prjáli en var fagurkeri fram í fingurgóma og niður í tær. Hún lét ekki leiða sig neitt sem hún ekki vildi fara, hafði sterka réttlætiskennd og fordæmdi misskiptingu auðs og valds jafnt í íslensku samfélagi sem og í samfélagi þjóðanna. Hún hafði faglegan metnað fyrir hönd leikhússins og gaf engan afslátt í þágu tilfinningasemi eða vinsælda.

Á námsárunum átti María þess kost að vinna og fylgjast með afburðaleikhúsfólki þess tíma og nefndi gjarnan helstan Benno Besson, leikstjóra og leikhússtjóra, sem kallaður hefur verið faðir „nútíma austurþýska leikhússins“. Það úði og grúði af sterkum listamönnum og sem Íslendingur naut María þess einnig að ferðast óhindrað og geta fylgst með leikhúslífinu og samfélaginu bæði austan og vestan megin múrs. Andóf '68-kynslóðarinnar gegn ríkjandi kerfi og Víetnamstríðinu var allsráðandi og einnig varð María mjög meðvituð um skelfilegt ástand víða í Suður-Ameríku í gegnum vinkonu og skólasystur, skáldkonuna Ritu Valdivia, sem síðar týndi lífinu í pólitískum hreinsunum Bólivíu.

En getur leikhús breytt heiminum til betri vegar? Ég er ekki viss um hvert svar Maríu hefði verið, en ég er alveg viss um að hún vann öll sín verk bæði af hugsjón, viti og listfengi. Fyrrnefnda Garðveislu og síðar Heimili Bernhörðu Alba e. Lorca unnum við saman fyrir stóra svið Þjóðleikhússins og ýmislegt fleira eftirminnilegt. Hún var mjög góður leikstjóri og samtals liggur eftir hana umfangsmikið, fróðlegt og margbreytilegt ævistarf.

Ég vil þakka einstakri konu og listamanni fyrir samvinnuna, samveruna og samtölin öll í samfylgd sem nær nú yfir ríflega 40 ár. Dóttur hennar Salbjörgu Ritu, Pétri, Glóa, Unnari og fjölskyldu allri ásamt vinum votta ég innilega samúð.

Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

Tvær stúlkur í strákabekk í máladeild Menntaskólans í Reykjavík á sjöunda áratug liðinnar aldar. Það er eiginlega eins og í Eyrbyggjasögu, þar sem allt getur gerst, selshaus komið upp úr gólfinu, hvað þá annað. Á okkar tíma í MR voru ekki þrjár konur að mynda ríkisstjórn, engin var prestvígð konan, hvað þá biskup eða forseti Íslands. Og hver skyldi hafa verið önnur stúlkan í B- bekknum okkar nema María Kristjánsdóttir, hún Maja, sem síðan hefur verið svo sjálfsagður partur af heimsmynd okkar margra að það er eiginlega fráleitt að hún sé ekki lengur með okkur.

Hún hafði hvort tveggja, geislandi gáfur, sjálfstæðan vilja og mótaðar skoðanir, sem meðal annars kom fram í því að hún var á menntaskólaárum búin að ná því sem kallað er pólitískur þroski, sem tók okkur sum hver langan tíma að öðlast, en um leið var hún umburðarlynd og fús að fyrirgefa okkur þroskaleysið og hún hreif það okkar, sem var sveitastrákur, svo að hann hikaði ekki við að flytja henni frumort afmæliskvæði í sjálfri Kristjaníu, eins og Hafnarfjörður var gjarna kallaður þá og ekki að ástæðulausu.

Þrátt fyrir að leiðirnar lægju ekki alltaf saman var það sjálfsagt mál þegar Maja hringdi og sagði: „Við erum að taka saman þýðingar á kvæðum eftir Brecht, það er hérna sonnetta sem þarf að þýða. Ég sendi þér hana.“ – Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að hreyfa andmælum við slíkri beiðni. Hún hafði lært leikhús, og það meira að segja á slóðum Brechts og Weigels í Berliner Ensemble.

Það sópaði að henni hvar sem hún fór og hún skildi eftir sig spor í íslensku leikhúslífi sem leikstjóri, gagnrýnandi og leiklistarstjóri Ríkisútvarpsins. Hún var hugsjónakona og stóð á sínu eins og hver sá gerir sem á sér hugsjónir. Þess vegna er minning um hana óbrotgjörn og þótt við séum fá eftir af strákabekknum með stúlkunum tveimur hikum við ekki við að flytja kveðju bekkjarins og segja: Við þökkum þér fyrir að hafa verið með okkur svona lengi, Maja, og ef hann er til þessi besti heimur sem okkur dreymdi um, þá hittumst við öll þar.

Fyrir hönd 6. bekkjar B 1964,

Ásdís Skúladóttir
(hin stúlkan),
Heimir Pálsson
(sveitastrákurinn).

Á fyrsta-des-hátíð í Háskóla Íslands árið 1971 leikstýrði María Kristjánsdóttir uppfærslu sem byggðist á bókinni Og svo fór ég að skjóta. Verkið fjallaði um bandaríska hermenn sem höfðu ofreynt sig á stríðinu í Víetnam. Ég lék einn af þessum hermönnum og þannig hófust kynni okkar Maríu.

Á þessum árum las ég í fyrsta sinn inn skáldsögu fyrir Rás 1 og var svo heppinn að fá Maríu til að leiðbeina mér. Hún hafði lært brechtíska leikhúsfræði í Austur-Þýskalandi og hún þurrkaði út hjá mér allar sjálfhverfar oftúlkanir í þessum upplestri á Tóníó Kröger eftir Thomas Mann; sem kom sér síðar vel þegar ég sem ólærður leikari lék aðalhlutverkið í Kertalogi eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þetta var í leikhússtjóratíð frönskukennarans míns úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, Vigdísar Finnbogadóttur, hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1974. Allir þóttu leika vel í verkinu nema ég – ég þótti „eðlilegur“.

Mér leist vel á að feta í fótspor Maríu: læra brechtíska leiklist á námslaunum. Á Heimsmóti æskunnar 1973 í Austur-Berlín var samstarfsmaður Brechts, Rudolf Penka, með sýningu nemenda sinna í leiklist og eftir uppákomuna vatt ég mér að Penka og spurði hvort ég gæti lært leiklist hjá honum. Penka sagði að það væri eitt skilyrði: Ríkisstjórnir Íslands og Austur-Þýskalands yrðu að samþykkja ferlið. Þegar heim kom fór ég niður í menntamálaráðuneyti á Hverfisgötu við Arnarhól og bað þá að hafa samband við Austur-Þýskaland svo ég kæmist þar í leiklistarnám. Nokkru síðar, þegar ekkert bar á úrlausn í þessu máli, frétti ég að bréf frá menntamálaráðuneytinu hefði dagað uppi í Rússlandi.

Síðar þegar ég vann við Þjóðleikhúsið var ég ráðinn aðstoðarmaður Maríu við uppfærsluna á Garðveislu eftir Guðmund Steinsson árið 1982. Verkið fjallar m.a. um úrkynjun og skemmtanasýki borgarastéttarinnar á Íslandi. Var ætlunin að skemmtiatriði í veislunni skyldi vera söngur spillts mafíósa, í ætt við Frank Sinatra. Ákveðið var að ráða Hauk Morthens í verkið. En þegar Haukur söng svo í fyrsta sinn í verkinu, á síðari hluta æfingaferlisins, kom í ljós að hann var langt frá því að sýnast spilltur og úrkynjaður, svo ljúflingurinn Haukur með gullbarkann stakk skemmtilega í stúf við veisluna sjálfhverfu.

Þegar María stjórnaði Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 fékk hún mig til að leikstýra smásögu eftir Kafka: eintali apa fyrir akademíuna, þar sem Arnar Jónsson var apinn. Eftir nokkrar æfingar með Arnari dembdum við okkur í upptöku og rann allt ljúflega inn á segulband; góðir tímar, nema fyrir hin dýru segulbönd.

María var vel ættuð úr ranni Máls og menningar, bróðurdóttir Kristins E. Andréssonar menningarpáfa vinstrimanna. Því var það að svokölluðum hægrimönnum stóð stuggur af henni, þar sem þeir héldu í fordómum sínum að hún væri gaddfreðinn harðýðgiskommúnisti. Þessir fordómar hægrisins í Reykjavík þeirra ára gerðu það að verkum að slíkir aðilar misstu af því að kynnast einhverjum ljúfasta mannvini sem fram hefur komið á Íslandi frá því að Erlendur í Unuhúsi var og hét.

Árni Blandon Einarsson.