Lárus Arnþór Brown fæddist 2. febrúar 1944. Hann lést 3. janúar 2025.
Útför fór fram 17. janúar 2025.
Þegar ég fékk fréttirnar af því að Lalli frændi, eins og Lárus Brown var ávallt kallaður, væri allur gat ég ekki annað en grátið. Áhrif Lalla á mig sem krakka, ungling og ungan mann voru yndisleg. Nærvera hans var ávallt hlý, góðmannleg, nærgætin og ákveðinn ævintýraljómi yfir brosi hans og glotti.
Ég man fyrst eftir Lalla á Hverfisgötunni þegar ég og mamma heitin fórum að heimsækja Önnu frænku, móður Lalla. Þá var ég einungis 5-7 ára. Án efa hitti ég hann áður t.d. á Þórshöfn á Langanesi þar sem ættarböndin liggja. En á Hverfisgötunni man ég fyrst eftir honum og hans töfrum. Lalli var þá kafari hjá Landhelgisgæslunni og var því oft fjarri, en þegar hann var heima fékk maður margar sögur sem Lalli sagði svo skemmtilega frá. Upplifði ákveðna ævintýrahugsun og áhrif frá Lalla, sem án efa höfðu áhrif og hafa enn.
Hvar sem Lalli fór var gleði, sögur og ómældur hlátur. Man ég eftir því í Bræðraborg á Þórshöfn, þá ungur að árum og sendur í rúmið snemma, að hafa legið á hleri til að heyra sögurnar, hláturinn og gleðina sem umlukti samverustund þeirra allra í eldhúsinu og oftar en ekki var Lalli miðja gleðinnar.
Lalli, Hjalti (bróðir Lalla) og Nonni (bróðir mömmu) voru með litla grásleppuútgerð frá Heiðarhöfn á Langanesi og var virkilega gaman að koma og sjá ævintýrið sem því tengdist. Upplifði alltaf svo skemmtilegar og ævintýralegar stundir tengdar Lalla og gleðin ávallt nærri.
Glensið í Lalla var aldrei langt undan. Eitt árið vorum við á „Kátum dögum“ á Þórshöfn og strákurinn minn, Pétur, var sjúkur í bryggjuna að veiða og dró tvær vænar ýsur á land en missti eina. Þá segir Lalli: „Ég hefði nú bara skutlað mér á eftir henni, ýsunni.“ Pétur var ekki sáttur við orð frænda. Um kvöldið erum við að grilla kótelettur og ein dettur af grillinu, þar sem Lalli stóð. Þá segir Pétur: „Skutlað þér á eftir ýsunni, getur ekki einu sinni gripið kótelettu!“ Hláturinn dundi um hópinn og Lalli og Pétur bundust böndum sem lifa enn þann dag í dag.
Elsku Lalli minn, hafðu þökk fyrir allt og allt, og þau áhrif sem þú hafðir á líf mitt og minna. Minning þín, sögurnar, útilegurnar, verða með okkur alltaf.
Ég bið góðan Guð að veita dætrum hans, Pálínu, Önnu og Rebekku, og fjölskyldu styrk í sinni miklu sorg sem og bróður Lalla, Hjalta, og fjölskyldu.
Kveðja,
Ingimar Örn.
Kveðja frá Rótarýklúbbnum Þinghól
Fallinn er frá góður félagi okkar í Rótarýklúbbnum Þinghól, Lárus A. Brown.
Hann fæddist á Akureyri, og var brekkusnigill.
Hann sat nokkrum sinnum í stjórn klúbbsins, síðast sem ritari, og rækti sín störf af alúð og trúmennsku.
Fundir Þinghóls eru að jafnaði vikulega og eru þá fengir fróðir menn til að upplýsa okkur um fjölbreytt málefni og ræða um þau. Lárus tók virkan þátt í þessum umræðum og varpaði gjarnan fram skörpum athugasemdum og spurningum. Hann vildi brjóta málin til mergjar.
Lárus starfaði hvort tveggja í senn til sjós og lands, ofan sjávar og neðan.
Hann var í áhöfn vistaskipsins Árvakurs um árabil. Erfiðaði þar ásamt skipsfélögum sínum við að koma nauðsynjum upp á sker þar sem vitar voru, og oft voru erfiðar lendingar á smábátum við úfinn sæ. Þess á milli brá hann sér í kafarabúninginn og kafaði til botns, og kannaði hvort ekki væri allt í lagi neðansjávar.
Þá starfaði hann um árabil í Svíþjóð og undir lokin ók hann leigubíl.
Lárus kunni því frá ýmsu að segja, enda komið víða við og sagnamaður af guðs náð og kryddaði frásögn sína gjarnan með góðlátlegri kímni. Lalli var vel heima í atvinnusögu landsins, einkum útgerðarsögu Akureyrar þar sem hann kom víða við.
Mikill fjölskyldumaður og gerði vel við sitt fólk sem hefur nú misst mikilvæga kjölfestu í lífi sínu.
Hann naut þess að vera í nálægð við yngstu kynslóðina í fjölskyldunni.
Það er mikil eftirsjá að Lárusi, sem setti mark sitt á Þinghól.
Rótary Þinghóll sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
Þórarinn Þórarinsson.
hinsta kveðja
Hinsta kveðja til vinar
Lárus Arnþór lýkur hér,
lífs og göngu starfi.
Frábær var og fylginn sér,
fallinn nú frá arfi.
Vina missir verður sár,
við því mátti búast.
Venjan er, þá trítla tár
og tilfinningar snúast.
Vini þakka vinskapinn,
vilja, dug og hlýju.
Hér og nú, í hinsta sinn,
en, hittumst svo að nýju.
Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur.
Inga og Hafsteinn Reykjalín.