Enn kemur á daginn að Pútín vill kæfa allt andóf og hræða Rússa til undirgefni

Skoðanakúgunin í Rússlandi minnir óþyrmilega á svart­nættis­tíma gömlu Sovétríkjanna. Ríkis­valdinu er beitt til að þagga niður alla umræðu og gagnrýni. Það eitt að nefna orðið frið getur kostað margra ára fangelsi.

Í gær féll dómur yfir þremur lögmönnum sem höfðu leyft sér þá ósvinnu að verja andófsmanninn Alexei Navalní. Allir þrír voru dæmdir í fangelsi og hljómaði þyngsti dómurinn upp á fimm og hálft ár bak við lás og slá.

Glæpur þeirra var sá að hafa flutt skilaboð frá Navalní úr fangelsinu til fjölskyldu og samherja.

Réttarhöldin fóru fram fyrir luktum dyrum skammt frá fangelsi þar sem Navalní sat áður en hann var fluttur í fangabúðirnar norðan heimskautsbaugs þar sem hann lést í febrúar í fyrra. Lögmennirnir þrír, Vadím Kobsev, Alexei Liptser and Ígor Sergúnín, voru fundnir sekir um aðild að „öfgasamtökum“.

Navalní var í fararbroddi þeirra sem boðið hafa Vladimír Pútín, forseta Rússlands, byrginn. Hann afhjúpaði spillingu meðal æðstu valdhafa landsins og var þeim óþægur ljár í þúfu.

Reynt var að eitra fyrir Navalní og var hann fluttur til Þýskalands, þar sem hann náði heilsu á ný. Hann ákvað þá að snúa aftur til Rússlands þótt margir vöruðu hann við að með því stofnaði hann lífi sínu í hættu. Navalní fannst hann hins vegar ekki gera málstaðnum nægilegt gagn væri hann útlagi.

Til þessa hefur verið alsiða í Rússlandi að lögmenn komi skilaboðum frá skjólstæðingum sínum í fangelsi til aðstandenda. Ákvörðunin um að sækja verjendur Navalnís til saka þykir til marks um að fæla eigi lögmenn frá því að taka að sér mál andófsmanna vegna þess að það gæti komið þeim í í koll.

Júlía Navalnía, ekkja Navalnís, lýsti því yfir í gær að lögmennirnir væru pólitískir fangar og krafðist þess að þeir yrðu þegar látnir lausir.

Í gær voru einnig lagðar fram kærur á hendur stjórnarandstæðingnum Lev Shlosberg. Hann er einn af síðustu rússnesku stjórnmálamönnunum sem hafa opinberlega lýst yfir andstöðu við Úkraínustríðið og enn eru í landinu.

Mál af þessu tagi eru orðin æði mörg. Fólk lendir í fangelsi fyrir að tala ógætilega um rússneska herinn í einkasamtölum við sjúklinga eða tala um frið í kennslustofum.

Ástandið í Rússlandi er orðið þannig að engin leið er að vita hver raunveruleg afstaða Rússa er til Pútíns eða stríðsins í Úkraínu. Það er einfaldlega hættulegt að gefa það upp.

Það er líka auðvelt að segja að fólk eigi að sýna hugrekki, en þeir sem það gera leggja ekki aðeins sjálfa sig undir heldur einnig fjölskyldu og vini.

Vadím Kobsev, sá lögfræðinganna þriggja sem fékk þyngsta dóminn, líkir ástandinu í Rússlandi við sýndarréttarhöld Stalíns.

„Áttatíu ár eru liðin … og í dómstólnum í Petúsjkí er fólk enn á ný dregið fyrir dóm fyrir að hallmæla embættismönnum og ríkisstofnunum,“ sagði hann í liðinni viku.

Pútín lætur eins og hann sé alvaldur í Rússlandi og eins og stendur virðist hann traustur í sessi. Hann stjórnar í krafti furðulegra hugmynda um siðferðislega yfirburði gagnvart Vesturlöndum og endurreisn Rússneska stórveldisins í anda keisaratímans.

Um leið býður hann almenningi upp á ömurleg lífskjör, sem eru réttlætt með því að Rússland sé umsetið og því þurfi að færa fórnir.

Viðskiptaþvinganirnar á hendur Rússum vegna innrásarinnar í Úkraínu hafa verið meingallaðar en þær bíta þó. Iðulega birtast greiningar um að efnahagsástandið sé þannig að það hljóti að fara að draga til tíðinda, en áfram situr Pútín. Oft mætti ætla að þessar spár helgist frekar af óskhyggju en köldu mati.

Pútín var líka felmtri sleginn þegar Jevgení Prígosjín lagði af stað með Wagner-liða sína í herleiðangur frá Rostov til Moskvu, en tókst að stöðva hann. Prígosjín beið svo bana með mjög fyrirsjáanlegum hætti, þótt það hafi verið kallað þyrluslys.

Þó má ekki gleyma því að hlutirnir geta gerst hratt. Nokkrum vikum fyrir rússnesku byltinguna árið 1917 flutti Vladimír Lenín ræðu í Sviss þar sem hann sagði að bylting lægi í loftinu, en líklega myndum „við af eldri kynslóðinni“ ekki upplifa úrslitaorrusturnar. Það fór á annan veg.

Það var heldur ekkert fararsnið á Sovétríkjunum þar til atburðarás ársins 1989 hófst, járntjaldið féll og þau leystust upp.

Pútín hefur tekist að breyta Rússlandi í einangrað útlagaríki, sem leitar sér bandamanna í Íran og Norður-Kóreu. Þá nýtur hann skjóls Kína, en þar er hann enginn jafningi, heldur upp á þau býti komin sem Kínverjum hentar. Erfitt er að sjá hvernig það samræmist stórveldisdraumum Pútíns. Það getur vel verið að Pútín geti haldið velli einhvern tíma enn, en það gerir hann með ógnarstjórn og ofbeldi, lafhræddur við minnstu mótstöðu, og þegar byrjar að fjara undan honum gætu hlutirnir gerst hratt.