Menning Edda – hús íslenskunnar fékk formlega nafn í apríl 2023.
Menning Edda – hús íslenskunnar fékk formlega nafn í apríl 2023. — Morgunblaðið/Sigurður bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VeItingastaðurinn Ýmir var opnaður í Eddu – húsi íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag og til að byrja með verður opið frá tíu á morgnana til fimm síðdegis. „Við sjáum svo til hvernig þetta þróast,“ segir …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

VeItingastaðurinn Ýmir var opnaður í Eddu – húsi íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag og til að byrja með verður opið frá tíu á morgnana til fimm síðdegis. „Við sjáum svo til hvernig þetta þróast,“ segir Þórður Bragason matreiðslumeistari, sem verður með tvo til þrjá starfsmenn með sér í fyrstu.

Starfsemi í Eddu hefur jafnt og þétt verið að taka á sig mynd síðan nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands var formlega gefið nafn 19. apríl 2023. Fyrstu handritin voru flutt þangað úr Árnasafni 11. nóvember sl. og eru þau hluti af handritasýningunni „Heimur í orðum“, sem nú er í húsinu.

Kerrur og kjöt

Árnastofnun bauð út rekstur veitingastaðar í Eddu í fyrrasumar og var samið við Þórð sl. haust. Hann hófst þegar handa við að koma aðstöðunni í gagnið en hann er ábyrgur fyrir öllum tækjum og tólum sem og borðbúnaði. Sótt var um veitingaleyfi í byrjun október og var umsóknin afgreidd í vikunni. Boðið er upp á kaffi og meðlæti allan daginn og auk þess hádegismat. „Staðurinn er opinn fyrir gesti og gangandi og er auk þess mötuneyti fyrir Árnastofnun,“ segir Þórður, en sæti eru fyrir um 60 manns.

Nafn veitingastaðarins er niðurstaða óformlegrar skoðanakönnunar á meðal starfsmanna Árnastofnunar. „Þeim fannst tilhlýðilegt að hafa goðanafn á kaffihúsinu,“ segir Þórður og vísar til þess að allir jötnar séu frá Ými komnir.

„Ég byrjaði að vinna hjá Hrafni Bachmann í Kjötmiðstöðinni þegar ég var 14 ára, var fyrst í kerrunum en hækkaði jafnt og þétt í tign, endaði í kjötborðinu og þar með var tónninn sleginn,“ segir Þórður um námsvalið, en hann er hokinn af reynslu í veitingarekstri. Hann lærði á veitingastaðnum Óðinsvéum og starfaði lengi í Perlunni. Hann byrjaði með Úrvalseldhús og Úrvalssósur 1997 og sá um reksturinn til 2012. Hann var sviðsstjóri á ISS-veitingasviði 2012-2017, opnaði síðan framleiðslueldhús fyrir Krónuna og Festi, stofnaði kjúklingastaðinn Rottissier í Smáralind og rekur veitingastaðinn Nony og Toni á Hlemmi, svo fátt eitt sé nefnt. „Ég hef verið í hádegisrekstri í mörg ár en ekki í kaffihúsarekstri fyrr,“ segir hann og hlakkar til að fá gesti á staðinn.

Eftir að Hótel Saga hætti hefur vantað kaffistað á svæðið og nú hefur verið bætt úr því. „Eins og í öðrum rekstri þurfa menn að vera á tánum, vera á vaktinni og standa sig,“ segir Þórður. „Edda er mjög fallegt og lifandi hús með helstu gersemar þjóðarinnar og með Ými vonumst við til að koma enn meira lífi í það. Við gerum okkar besta til þess.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson