Kistan Kaffistund, f.v. Heiðrún Óladóttir, Þekkingarnetinu, Sigríður F. Halldórsdóttir og Sonja Hólm Gunnarsd.
Kistan Kaffistund, f.v. Heiðrún Óladóttir, Þekkingarnetinu, Sigríður F. Halldórsdóttir og Sonja Hólm Gunnarsd. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kistan er atvinnu- og nýsköpunarsetur Langanesbyggðar, vel staðsett í miðbæ Þórshafnar í húsinu Kistufelli, sem var upphaflega byggt fyrir starfsemi Sparisjóðs Þórshafnar á sínum tíma. Markmið Kistunnar er að skapa samfélag stofnana, fyrirtækja og…

Úr bæjarlífinu

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Kistan er atvinnu- og nýsköpunarsetur Langanesbyggðar, vel staðsett í miðbæ Þórshafnar í húsinu Kistufelli, sem var upphaflega byggt fyrir starfsemi Sparisjóðs Þórshafnar á sínum tíma. Markmið Kistunnar er að skapa samfélag stofnana, fyrirtækja og frumkvöðla undir einu þaki til að styðja við atvinnuþróun í byggðarlaginu.

Kistan gegnir mikilvægu hlutverki í menntun og mannlífi á svæðinu og er þjónustan þar vel nýtt, að sögn verkefnastjóra Kistunnar, Sigríðar F. Halldórsdóttur. Þar hafa fjarnemar aðstöðu en í henni felst m.a. sólarhringsaðgengi að námsaðstöðu, raunfærnimat, námsráðgjöf og aðstaða til prófatöku, en margir sem stunda nám annars staðar geta tekið próf í heimabyggð. Á nýliðnu ári voru þar fjórtán nemar á háskólastigi ásamt nokkrum framhaldsskólanemum.

Starfsfólk Kistunnar skipuleggur einnig námskeið og viðburði af ýmsu tagi og er heimafólk almennt duglegt að nýta sér það sem er í boði hverju sinni, sagði verkefnastjórinn Sigríður.

Í Kistunni er hægt að leigja vinnuaðstöðu í opnu vinnurými og innifalinn er aðgangur að kaffistofu, neti og prentara. Innan Kistunnar hafa nokkur fyrirtæki daglega aðstöðu; Þekkingarnet Þingeyinga, Háskólinn Bifröst, Slökkviliðsstjóri Langanesbyggðar, Íslandspóstur, Sjóvá og 1xInternet auk nýrrar snyrtistofu.

Brottfluttir Þórshafnarbúar hafa einnig nýtt sér vinnuaðstöðu Kistunnar þegar þeir koma heim í frí og geta sinnt starfi sínu þaðan. Ágæt fundaaðstaða og lítið hljóðver er einnig í Kistunni. Á efri hæðinni er gistirými þar sem tekið er á móti fólki sem vill breyta um umhverfi og vinna á nýjum og skapandi stað í svokallaðri Hugvitsdvöl Kistunnar þar sem gisting er innifalin í vinnuaðstöðu. Því er hægt að segja að þar kenni margra grasa, eins og gjarnan er í góðum kistum.

Næsti viðburður haldinn af Kistunni heitir Öngullinn og auðurinn og verður hann seint í febrúar í veiðihúsinu við Miðfjörð á Langanesströnd. Viðburðurinn snýst um það að leita tækifæra í veiðiþjónustu á svæðinu þar sem ferðaþjónustuaðilar, veiðifélög, frumkvöðlar, sveitarstjórnarmenn, stangveiðimenn og fleiri áhugasamir koma saman og vinna að hugmyndum.

Ný snyrtistofa verður opnuð á næstu dögum í Kistunni og tekur heimafólk þeirri þjónustu fagnandi. Það er alltaf ánægjulegt þegar ungt fólk snýr aftur heim að námi loknu og eins og snyrtifræðimeistarinn Sonja Hólm Gunnarsdóttir gerir nú en stofan hennar verður á virðulegum stað í húsinu, fyrrverandi skrifstofu sparisjóðsstjóra, og ber nafnið Snyrtistofan Hólm.

Þorrablótið er á næstu grösum og eflaust margir sem vilja snurfusa sig fyrir þá samkomu enda staðfesti Sonja að bókanir væru nú þegar farnar að hlaðast inn.

Ungir og aldnir undirbúa nú þorrablótið af miklum móð en grunnskólanemar hafa sitt eigið blót í Þórsveri nokkrum dögum fyrir „stóra blótið“. Sést hefur til þorrablótsnefndar í ýmsum hlutverkum hér og þar um bæinn og eru tökur í fullum gangi eins og í alvörukvikmyndaveri.

Er það mál manna að búast megi við góðu þorrablóti í byrjun febrúar.

Höf.: Líney Sigurðardóttir