Guðrún Jónsdóttir, kölluð Rúna, fæddist á Meiðastöðum í Garði 12. nóvember 1932. Hún lést 5. janúar 2025.

Foreldrar: Marta Jónsdóttir, f. 1902 d. 1948, og Jón Guðlaugur Kristinn Eiríksson, f. 1902 d. 1983. Systkini Rúnu voru Guðfinna, f. 1930 d. 2008, Eiríkur, f. 1931 d. 2015, Hulda, f. 1934.

Rúna giftist 10.9. 1955 Lárusi Jónssyni, f. í Ólafsfirði 17.11. 1933, d. 29.11.2015. Foreldrar: Unnur Þorleifsdóttir, f. 1909, d. 1995, og Jón Ellert Sigurpálsson, f. 1910, d. 2000.

Börn þeirra eru: 1) Jón Ellert, f. 4.3. 1956, 2) Unnar Þór, f. 30.4. 1958, d. 7.6. 2010, 3) Marta Kristín, f. 8.6. 1963, 4) Jónína Sigrún, f. 7.8. 1970.

Jón Ellert var giftur Svandísi Jónsdóttur, f. 1957 Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Hrönn, f. 1974, gift Pétri Jakob Péturssyni, f. 1981. Börn þeirra eru: Skírnir Matthías, f. 2004, Ellen Dís, f. 2007, og Huginn Leví, f. 2009.

2) Valdís Bergmann, f. 1979, var gift Magnúsi Magnússyni, f. 1976. Þau skildu. Börn þeirra eru: Jón Ellert, f. 2000, Kristófer Magni, f. 2006, og Sóldís Lilja, f. 2011.

3) María Ósk, f. 1987, í sambúð með Helgu Bragadóttur, f. 1991. Synir þeirra eru Júlíus Hrannar, f. 2017, Breki Svan, f. 2023.

Jón Ellert er kvæntur Sigrúnu Ásdísi Gísladóttur, f. 1953. Börn hennar eru: 1) Andri Már Sigurðarson, f. 1975. Hann á þrjú börn. Tómas Veigar Sigurðarson, f. 1977. Hann á tvö börn á lífi. Eiríkur Sigurðarson, f. 1987. Hann á tvö börn. 4) Einar Logi Sigurðarson, f. 1989.

Unnar Þór heitinn var kvæntur Hólmfríði S. Kristjánsdóttur, f. 1959. Börn þeirra eru: 1) Lára Kristín, f. 1982, gift Hrafnkeli Sigurðarsyni, f. 1987. Börn þeirra eru: Hólmfríður, f. 2013, Unnar Oddi, f. 2015, 2) Eyrún, f. 1985, gift Lárusi Heiðari Ásgeirssyni, f. 1983. Börn þeirra eru Ásthildur, f. 2008, og Steinunn, f. 2012, 3) Margrét, f. 1991. Sambýlismaður hennar er Arnór Kári Davíðsson, f. 1989. Börn þeirra eru Úlfur Þór, f. 2021, og Björn Breki, f. 2023.

Marta Kristín Lárusdóttir er gift Guðmundi Valssyni, f. 1966. Börn þeirra eru 1) Lárus, f. 1994, í sambúð með Marie Penin, f. 1995, 2) Valur, f. 2000, og 3) Guðrún Ýr, f. 2003.

Jónína Sigrún Lárusdóttir er gift Birgi Guðmundssyni, f. 1972. Börn þeirra eru 1) Lárus Örn, f. 2004, 2) Ásta Rún, f. 2004, d. 2004, og 3) Unnur Ásta, f. 2007.

Rúna lauk landsprófi 1950 frá Héraðsskólanum á Laugarvatni. Rúna og Lárus bjuggu í Reykjavík til 1960, í Ólafsfirði til 1968, á Akureyri til 1984 og í Reykjavík til dauðadags.

Rúna vann ýmis störf utan heimilis á lífsleiðinni. Hún var mikil hannyrðakona og eftir hana liggja ógrynni verka sem hún hannaði og skapaði fyrir sjálfa sig og til gjafa. Hún hafði einnig áhuga á laxveiði, ferðalögum og listum.

Útför Rúnu fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 20. janúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 13. Henni verður streymt á https://www.beint.is/streymi/runa

Elsku tengdamamma.

Þú varst með gesti í kaffi þegar þú ákvaðst að komið væri gott og hallaðir aftur augunum. Það var alveg í þínum anda. Veittir alltaf vel og gestrisin fram í fingurgóma til hinstu stundar. Hafðir gaman af að fá gesti í kaffi og pönnukökur með rjóma eða sykri. Það fannst öllum gott og barnabörnunum og barnabarnabörnunum þínum alveg dásamlegt og verður þeim ógleymanleg minning. En þú varst orðin södd lífdaga og tilbúin að hitta Lalla þinn, ljósið í lífi þínu, Unnar þinn sem var svo tengdur þér og alla hina sem gengnir eru.

Sit við rúmið þitt,

held í hönd þína.

Skoða myndir frá æviskeiði þínu

og af ljósunum í lífi þínu.

Horfi á fuglana flögra fyrir utan gluggann þinn.

Þú sefur djúpt, andar hljótt.

Hvíldu þig nú elsku hjartans.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(H.S.K.)

Blessuð sé minning þín, elsku fallega Rúnan okkar.

Hólmfríður S. Kristjánsdóttir.

Elsku amma mín. Ég á erfitt með að trúa því að ég muni ekki sjá þig aftur í glugganum veifa mér bless eftir kærkomna heimsókn til þín.

Það er mér svo ljúf minning frá því ég var barn að sjá ykkur afa saman veifa okkur fjölskyldunni úr borðstofuglugganum eftir hverja einustu heimsókn. Að koma í Hólastekkinn var svo umvefjandi og hlýlegt. Þú bauðst mér oft inniskó að láni svo mér yrði örugglega ekki kalt á fótunum, pönnukökur og kræsingar voru hafðar til og auðvitað kaffi með. Síðan sagðir þú mér oft sögur af pabba sem yljuðu mér um hjartað. Ég er svo þakklát fyrir það.

Síðustu árin þín, þegar ég og strákarnir mínir komum til þín í heimsóknir, eru mér svo dýrmætar minningar. Við spjölluðum um lífið og lékum saman við strákana. Ég man hvað ég dáðist að þér leika við þá og sjá alltaf sama léttleikaglampann í augunum þínum. Glaðværð, jákvæðni og glettni einkenndi þig.

Ég minnist þín með djúpu þakklæti og með því að tileinka mér eiginleika þína í mínu eigin hugarfari og lífi. Takk fyrir að vera þú, takk fyrir allt. Hvíldu í friði elsku amma Rúna mín.

Þín

Margrét.

„Eigum við ekki að fá okkur kaffi?“ voru upphafsorð velflestra heimsókna minna í Hólastekkinn til ömmu Rúnu. Amma var einstaklega glaðvær kona sem gaman var að vera í kringum. Ótal margar minningar fljúga í gegnum hugann. Hlýr faðmur og breitt bros, heitt súkkulaði, laxafiðrildi, lúka af smápeningum, saumaskapur fyrir árshátíð í háskólanum, morgunkorn í jólapakkanum, amma við stóra gluggann að hekla með Esjuna fyrir augunum, prakkaraglott og bakföll af hlátri í gleði og kátínu.

Efst í huga mér er þó djúpstætt þakklæti. Þakklæti fyrir þessa stórkostlegu konu sem ég fékk að kalla ömmu mína, allar stundirnar sem við sátum saman og skröfuðum, ræddum gamla tíma eða bara um daginn og veginn. Takk fyrir að segja mér sögur af pabba, takk fyrir allar hekluðu gersemarnar, hlýjuna og væntumþykjuna og takk fyrir að leyfa mér að vera þér innan handar. Börnin mín muna langömmu sem var orðin 92 ára, notaði ekki staf, ekki gleraugu, ekki heyrnartæki, bjó ennþá heima og bakaði bestu pönnukökurnar, eins og Fríða mín 11 ára komst svo vel að orði. Það er svo sannarlega þakkarvert.

Það er samt sárt að sjá á eftir þér, elsku amma. Ég mun sakna þess að líta við hjá þér og að fá að gjöf örlítið brot af þessari einstöku lífsgleði sem þú geislaðir af. Ég mun þó gera mitt allra besta til að fara að þínu fordæmi og halda í gleðina, því eins og þú sagðir sjálf svo réttilega „þá verður allt svo miklu bærilegra, Lára mín“.

Takk fyrir allt, elsku besta amma mín, næst þegar við hittumst lofa ég að vera kaffiþyrst.

Þín

Lára Kristín.

Elsku amma, það sem ég sakna þín gríðarlega. Þú hefur ávallt verið mér svo ótrúlega kær. Orð fá ekki lýst þeirri yndislegu og fallegu manneskju sem þú varst, svo ótrúleg varstu. Sjarmi þinn, gleðin, jákvæðnin og hlýjan geislaði af þér allt fram á síðasta dag.

Ég ylja mér við þær mörgu, fallegu og dásamlegu minningar sem við áttum saman og vitja mín nú sterkt. Þvílík lífsins lukka að hafa átt þig að, elsku amma. Ég er full þakklætis fyrir að hafa fengið þig sem ömmu, fyrirmynd og vinkonu.

Þú hefur ævinlega verið skínandi björt stjarna í mínu lífi. Stjarna sem lýsir nú upp himininn.

Ég elska þig alltaf, elsku fallega amma mín.

María Ósk Jónsdóttir.

Frá sumu fólki streymir svo mikil lífsgleði og hlýja – og þannig var elsku Rúna frænka okkar. Hún var sannkallaður gleðigjafi í okkar lífi og allrar fjölskyldunnar. Hún gat komið inn í hvaða samkomu sem er og breytt henni í alvöru veislu, með sinni léttu lund, dillandi hlátri og skemmtilegum sögum. Hún var dama af guðs náð og var alltaf svo fín og sæt í litríkum drögtum eða kjólum sem hún saumaði gjarnan sjálf af mikilli natni og nákvæmni.

Hún hafði einlægan áhuga á fólki. Hún gaf sér tíma og hlustaði með ákafa á sögur okkar og vissi alltaf allt um hagi alls síns fólks, barna, barnabarna og frændfólks. Við systkinin eigum öll dýrmætar minningar, frá unga aldri til dagsins í dag, um skilningsrík og hvetjandi prívat samtöl við Rúnu frænku sem gerði sér ætíð far um að nálgast okkur á sinn einstaka hátt. Þegar við krakkarnir komum með foreldrum okkar í heimsókn til Rúnu frænku og Lalla frænda, fyrst í Hrafnagilsstrætið og síðar til Reykjavíkur, voru móttökurnar alltaf eins og um þjóðhöfðingja væri að ræða. Steikt læri, rauðkál og flöskukók eða Tab, heit eplakaka, blíní og pönnukökur voru galdraðar fram af Rúnu, og svo settist hún niður með okkur krökkunum og spurði okkur spjörunum úr. Við áttum alltaf skjól hjá þessu trausta og góða frændfólki okkar og dvöldum oft hjá þeim langdvölum. Rúna sá alltaf það besta í öllum og það átti líka við um óstýrilát börn sem voru minnt á í hennar návist að þau væru meira en óþekktin.

Eftir að við systkinin fluttumst suður og eignuðumst fjölskyldur hefur Rúna haldið áfram að vera fastur punktur í okkar lífi og barnanna okkar, og það eru ófáar stundirnar sem við höfum setið yfir kaffibolla, spjallað og hlegið, og hún gefið okkur góð ráð eða hjálpað okkur með handavinnuna. Hún hefur verið fyrst á staðinn til að fagna sigrum okkar og styðja okkur þegar á móti blæs. Það hefur verið ómetanlegt að eiga Rúnu að og fylgjast með því hvernig hún hefur lifað sínu lífi sem er algjörlega til fyrirmyndar.

Fyrir það og ótal aðrar gjafir Rúnu erum við systkinin, börn okkar og makar svo innilega þakklát. Hvíl í friði elsku Rúna frænka og hjartans þakkir fyrir allt.

Pétur, Unnur og Jóna.

Rúna móðursystir mín er látin eftir stutta sjúkdómslegu. Hún náði því að verða elst allra í Meiðastaðaættinni, sem hún var mjög hreykin af. Hún lifði líka heilbrigðu lífi, hugsaði vel um heilsuna og sálina og naut lífsins fram á síðasta dag.

Hún var sú fyrsta til að taka mig í fangið eftir fæðingu og kannski þess vegna var samband okkar alltaf náið. Ég fékk oft að vera hjá henni í Reykjavík þegar ég var lítil stelpa, í vikutíma eða meira, bæði á Hofteignum og Rauðalæknum og 15 ára var ég hjá fjölskyldunni vetrarlangt í Ólafsfirði, þar sem ég fór í skóla. Í Ólafsfirði kenndi hún mér alls kyns handavinnu, t.d. að vinna með bast og tágar, leðurvinnu og margt fleira. Við sátum saman á kvöldin og gerðum handavinnu, en allt lék í höndunum á henni. Hún saumaði næstum öll föt á fjölskylduna, kjólarnir hennar vöktu alltaf athygli og kápur, dragtir, buxur og blússur framleiddi hún í massavís, ásamt því að sauma rúmföt, þar sem hún heklaði líka milliverkin og merkti. Mér varð hugsað til hennar þegar ég var að ganga frá sparirúmfötunum eftir jólin, en þau saumaði hún fyrir mömmu. Það vakti ljúfar minningar, en þær systur voru mjög nánar. Þegar hún gat ekki lengur prjónað sökum liðagigtar byrjaði hún að hekla og eins og áður rúllaði hún því upp. Síðustu árin heklaði hún mest lopateppi í tugatali handa flestum í fjölskyldunni og vinum. Ég fékk eitt teppi frá henni sem ég ylja mér við og hugsa til hennar.

Rúna var einstaklega létt í skapi og aldrei man ég eftir því að hún hafi reiðst. Þegar hún þurfti að hækka röddina og þykjast vera reið þá snéri hún síðan baki við viðkomandi og var að springa úr hlátri. Hún valdi húsmóðurhlutverkið og sá um heimilið þar sem Lárus var mikið fjarri sökum starfa sinna.

Hún sagði við mig um daginn að hún hefði átt gott líf en hún slapp þó ekki við sorgina. Hún missti móður sína 15 ára og Unnar son sinn í blóma lífsins. Eiginmanninn Lárus missti hún eftir meira en 60 ára samveru en bjó áfram í húsinu þeirra fram í andlátið.

Ég átti þess kost að stytta henni stundir nokkur kvöld í mánuði síðustu misserin. Við gátum endalaust spjallað og var gaman að heyra hana segja frá æskuárunum á Meiðastöðum og það var margt sem ég vissi ekki. Alltaf fór ég ríkari heim. Við fórum líka í stuttar ferðir, t.d. fórum við á æskuslóðir hennar í Garðinn, þar sem hún hitti gamla Garðbúa sem hún hafði gaman af að spjalla við og rifja upp gamlar minningar með. Síðasta ferðin okkar saman var þegar við fórum að sjá Ellý 7. desember og naut hún þess að hlusta á lögin og raula með í hljóði, lögin sem hún kunni svo vel. Það var dásamleg ferð.

Elsku Rúna, nú er komið að leiðarlokum. Mig grunaði ekki þegar ég kvaddi þig 29. desember að ég myndi ekki tala við þig aftur. Við kvöddumst með faðmlagi og ætluðum að hittast aftur fjórum dögum seinna.

Börnunum hennar og fjölskyldum þeirra votta ég innilega samúð, þau hafa misst ættmóðurina sem hlúði svo vel að þeim.

Hvíl í friði, elsku Rúna frænka, minningin lifir og ég á eftir að sakna þín.

Marta Guðmundsdóttir.

Kjölfesta, vinátta, tryggð, réttsýni, gjafmildi, jöfnuður, gleði eru allt orð sem eiga heima í minningargrein um Rúnu móðursystur mína. Þetta eru allavega þau hugtök sem mér koma í hug þegar Rúna er kvödd. Ég held að ég hafi aldrei efast um að hjá Rúnu væri alltaf stuðning að fá. Og svo kynntist ég vel Unnari syni hennar en hann var á heimili okkar í Garðinum fáeinar sumarvertíðir. Yndislegri ungling var vart að finna. Traust og gott samband myndaðist milli Unnars og Leifa bróður. Báðir féllu þeir frá langt um aldur fram. Á seinni árum urðum við Rúna félagar um sameiginleg áhugamál svo sem áhuga á ræktun, handverki og listum. Á þeim sviðum var hún á heimavelli. Þeir eiginleikar hafa borist til afkomenda hennar. Þeir hafa misst mikið og ég votta þeim samúð mína.

Jón Guðmundsson.

Glæsileg, gleðigjafi, listræn, kærleiksrík, allt þetta og miklu meira. Guðrún var gæfukona, gekk sátt og æðrulaus í gegnum sitt líf með eiginmanninn Lárus sér við hlið sem elskaði hana og dáði. Börnin þeirra umhyggjusöm og elskuleg.

Hvernig kynntist ég Guðrúnu? Jú, hún var tengdaamma yngsta sonar míns Péturs Jakobs. Sem sagt amma Guðrúnar konunnar hans, sem er alnafna ömmu sinnar. Þær nöfnurnar voru nánar og áttu fallegt samband.

Guðrún amma var kona sem kunni að njóta stundanna, hún horfði hvern dag björtum augum. Alltaf eitthvað að sýsla. Allt lék í höndunum á henni. Fallegu fötin hennar voru meira og minna hennar eigin hönnun og smíð. Þetta listfengi hefur erfst til afkomendanna. Heimilin þeirra Lárusar í Reykjavík og á Ólafsfirði falleg og hlý. Ólafsfjörður var fjörðurinn þeirra. Lárus maðurinn hennar og hún voru glæsileg hjón svo eftir var tekið. Samstiga og ástfangin. Ég var heppin að kynnast þeim heiðurshjónum.

Mér finnst ekkert langt síðan við Guðrún glöddumst saman í fermingu barnabarns míns og barnabarnabarns hennar. Að venju mætti Guðrún skínandi kát, hamingjusöm að fagna með fólkinu sínu. Smekkleg að vanda og mikil dama. Já, það er dýrmætt að minnast góðra sem við mætum á æviveginum. Ég þakka Guðrúnu fyrir gjöful kynni. Guð blessi minningu mannkostakonunnar Guðrúnar Jónsdóttur. Veri hún kært kvödd.

Helga Mattína Björnsdóttir.

Þegar við minnumst Rúnu mágkonu okkar kemur eitt orð oftar öðrum upp í hugann; þakklæti. Þakklæti fyrir hvað hún var okkur og fjölskyldum okkar. Þakkklæti fyrir hvað hún var foreldrum okkar og þakklæti fyrir hvað hún var Lárusi bróður okkar og stóð með honum hvað svo sem á gekk á viðburðaríku og oft krefjandi lífshlaupi þeirra.

Þegar þau Lárus komu norður til að staðfesta trúlofunarheit sitt og heita hvort öðru ævarandi samleið og tryggð í Ólafsfjarðarkirkju árið 1955 var strax ljóst hve vel Rúna féll inn í fjölskyldu okkar. Við vorum ung að árum, aðeins 16 og 10 ára. Það var í fyrsta sinn sem við sáum Rúnu og mikil eftirvænting ríkjandi um við hverju mætti búast. Við fengum svarið fljótt. Glaðværð hennar, einlægni og framkoma öll voru með þeim hætti að okkur fannst þá þegar að við værum að eignast nýtt systkini. Og þannig hefur sú tilfinning haldist allt fram á þennan dag. Þau voru svo samrýnd og samtaka gagnvart fjölskyldunni að þegar nafn annars þeirra var nefnt fylgdi hitt oftast með eins og um einstakling væri að ræða. Það var okkur sannarlega mikil gæfa að fá Rúnu inn í fjölskylduna.

Rúna var ákaflega handlagin og listræn. Hún saumaði eigin brúðarkjól og einnig allmarga slíka á ættingja og vini. Hún saumaði fjóra upphluti; á sjálfa sig, dætur sínar og tengdamóður (móður okkar), saumaði og heklaði fjölmargar gjafir til vina og venslafólks að ógleymdum fjölda listrænna hluta sem prýða heimili hennar. Hún hefði sannarlega getað haslað sér völl á þessu sviði ef hún hefði tekið þann pól í hæðina. Þótt fjölskyldan og heimilið hafi átt hug hennar allan var áhuginn til staðar og þegar þau Lárus fluttu norður í Ólafsfjörð stofnsetti hún ásamt öðrum og rak um tíma saumastofu í bílskúr heimilis þeirra þar. Þannig gat hún sameinað vinnu við áhugamál sitt og húsmóðurhlutverkið. Móðir okkar vann þarna með henni ásamt vinkonu sinni og var þar oft glatt á hjalla.

Rúna var framúrskarandi húsmóðir og uppalandi. Það var unun að heimsækja hana og þiggja góðar veitingar og fylgjast með samskiptum hennar og alúð við börnin. Meðfædd glaðværð hennar og geislandi framkoma bræddu hjörtu allra sem hún umgekkst hvort sem hún var gestgjafi sjálf eða þátttakandi í sameiginlegum viðburðum.

Af um 75 ára samfylgd er svo margs að minnast að varla er viðeigandi að draga einstaka atburði út úr. Við minnumst óteljandi fjölskyldusamfunda; ferðalaga sem við ýmist kölluðum fjölskyldu- eða systkinaferðir, veiðitúra í Svartá og Blöndu, gagnkvæmra fjölskylduboða ýmist um jól eða á öðrum tímum, hreinsunardaga og annarrar samveru í ættaróðalinu okkar í Ólafsfirði o.s.frv. Atburða sem voru í senn ógleymanlgir og gefandi. Og enn kemst aðeins ein hugsun að; þakklæti til Rúnu fyrir að hafa auðgað og stuðlað að samheldni fjölskyldunnar svo sem raun varð á.

Æviferill Rúnu var farsæll en ekki áfallalaus. Þau Lárus bróðir áttu miklu barnaláni að fagna en urðu að sjá á eftir syni sínum Unnari Þór sem lést um aldur fram. Var það þeim og okkur öllum mikil raun. Kom þá berlega í ljós hve trúin var þeim eins og oft áður mikið haldreipi.

Guð blessi minningu okkar kæru mágkonu og vinkonu og leiði hana til móts við fólkið sitt sem héðan er horfið. Börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum sem nú eiga um sárt að binda sendum við hjartanlegar samúðarkveðjur.

Guðrún, Þórleifur og fjölskyldur.

Elsku Rúna mín, þá ertu farin að hitta Lalla þinn. Ég er strax farin að sakna þín.

Vinátta okkar hefur varað óslitið í 65 ár, þá báðar nýfluttar til Ólafsfjarðar. Það er margs að minnast. Minnist ég föndurtímanna hjá séra Kristjáni Búasyni, þar sem við vorum leiðbeinendur krakkanna sem voru að læra fyrir ferminguna. Það var bæði lærdómsríkt og gaman. Við létum vonda veðrið, þá sjaldan það gerðist, ekki stoppa okkur. Svo voru það jólaboðin. Þegar þið fóruð heim rennduð þið ykkur niður brekkuna á sleða, en stundum var rassinn bara látinn duga.

Rúna var mikil handavinnu- og saumakona. Hún saumaði allt á sig og krakkana. Hún var sannkölluð listasaumakona. Mig minnir að hún hafi saumað brúðarkjóla á dæturnar þegar þær giftu sig.

Rúna var gift Lárusi Jónssyni alþingismanni og var hjónaband þeirra farsælt og gæfuríkt. Lárus lést árið 2015.

Þegar þið Lárus fluttuð suður, í Hólastekkinn, var alltaf öruggt að fá pönnukökur með rjóma þegar við komum í heimsókn. Og núna síðast í haust þá fengum við pönnukökur með kaffinu, 92 ára gömul kona að bjóða veitingar. Geri aðrir betur. En svo getur lífið kreppt snögglega að. Rúna fékk heilablóðfall og þá varð ekki aftur snúið.

Þín verður sárt saknað, enda einstök persóna, sem geislaði af kærleika og yndislegri nærveru. Við Nonni sendum börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Sigrún Jónsdóttir.