Gestur Ólafsson
Fyrir meira en hundrað árum gerðu menningarþjóðir bæði austan hafs og vestan sér grein fyrir að það gæti verið ansi flókið að hanna byggingar og burð í þær. Enn flóknara væri samt að skipuleggja byggð svo vel væri, enda væru oft miklu viðameiri og afdrifaríkari ákvarðanir sem þar þyrfti að taka. Þessar þjóðir komu sér því upp kennslu í skipulagsfræðum þar sem meðal annars var samtímis bæði horft til félagsfræði og hagfræði, samgangna og þróunarmöguleika viðkomandi svæða í góðri sátt við íbúa og umhverfi.
Mikilvægi þessarar afstöðu virðist ekki enn hafa náð hingað til lands eins og ýmis nýleg dæmi sanna; staðarval Landspítala – háskólasjúkrahúss; vanræksla í uppbyggingu vegakerfis á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn áratug og tillögur um borgarlínu.
Afdrifaríkar ákvarðanir
Allt eru þetta risavaxnar afdrifaríkar ákvarðanir sem varða ekki bara okkur, núverandi íbúa borgarinnar (og landsins alls), heldur börnin okkar líka og barnabörn. Hér er því ekki um neitt gamanmál að ræða, enda eru ákvarðanir um ofangreind mál nú þegar farnar að kosta samfélagið okkar á höfuðborgarsvæðinu tugi milljarða á ári – að nauðsynjalausu. Vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan gríðarlega kostnað með betri ákvörðunum.
Þetta er líka bara byrjunin á miklu stærri reikningi sem núna er horft til og er að hluta afleiðing af ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar. Hér má m.a. nefna ýmis jarðgöng sem vissir aðilar telja nú nauðsynleg til að fólk geti bara komist leiðar sinnar með þokkalegu móti á komandi árum.
Skortur á menntun og reynslu
Undanfarin ár hefur færst í vöxt að ýmsir hafi tekið að sér flókna skipulagsvinnu og rannsóknir án þess að hafa nauðsynlega menntun og reynslu af skipulagi. Þar vantar líka upp á að verksvið og ábyrgð viðkomandi aðila hafi áður verið skilgreind eða það sjálfsagða markmið að gæta í hvívetna hagsmuna almennings á viðkomandi svæði.
Reynslan hefur líka sýnt að þegar á reynir hefur enginn þessara aðila viljað taka faglega ábyrgð á skipulaginu. Engu að síður er það eitt meginmarkmið íslenskra skipulagslaga „að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“.
Illskiljanleg greinargerð
Í greinargerð með aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er fullyrt að það „leggi grunn að mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar“. 155 síður af texta þessa rits eru að verulegu leyti óskiljanlegar venjulegum íbúum Reykjavíkur. Málið er tyrfið, hugtök flókin og merking óljós. Það á að vera hluti þjónustu við borgarbúa að hafa jafn mikilvæg gögn á skýru og skiljanlegu máli. Ekki eru heldur kynntir mismunandi valkostir í þróun byggðar og samgangna, sem alltaf koma til greina og gætu verið miklu hagkvæmari.
Í öllu falli væri það bætt þjónusta við notendur þjónustu borgaryfirvalda – okkur íbúana – að upplýsa með skýrum og einföldum hætti hvaða kostir séu mögulegir og tækir, og sýna þannig margumrætt og lofað íbúalýðræði í verki.
Eini kosturinn?
Þess í stað er fullyrt að borgarlína sé eini og besti kosturinn, þótt flest sjái að svo er ekki. Hvergi var kynntur samanburður við aðra kosti, sem hæglega koma til greina, eins og til dæmis að skipuleggja byggðaþróun betur fyrir íbúana og hagkvæmar eða einfaldlega að efla núverandi strætisvagnakerfi. Árið 2022 var fæðingartíðni íslenskra kvenna komin niður í 1,59 börn á hverja konu, en þyrfti að vera um 2,1 barn til þess eins að viðhalda mannfjölda til lengri tíma. Þessi staðreynd getur gerbreytt hugmyndum um mannfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og hvernig unnt verði að greiða kostnað við innviði í framtíðinni.
Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að Reykjavík er talsvert skuldsett borg, ekki síður en íslenska ríkið. Hér er því um grundvallarbreytingu á forsendum aðalskipulagsins að ræða og brýn ástæða til að endurskoða skipulag höfuðborgarsvæðisins í þessu nýja ljósi. Nýir íbúar hafa oft nýja afstöðu til fjölmargra mála og nýjar væntingar til umhverfis og skipulags.
Kolefnishlutleysi með þéttingu
Í aðalskipulagi Reykjavikur til 2040 er líka að því stefnt að Reykjavík verði kolefnishlutlaust borgarsamfélag árið 2040 – eftir aðeins 15 ár – með tilheyrandi þéttingu byggðar og umbyltingu gamalla hverfa. Í mörgum vestrænum ríkjum þar sem álíka þéttingaröfl hafa gengið fram með niðurrifi húsa og byggingu „sovétblokka“ hafa mörg félög almennings risið upp og bent á aðrar hagkvæmari leiðir og að nauðsynlegt sé að varðveita menningarsögulegt, manneskjulegt og fagurfræðilegt gildi þessara hverfa.
Í siðareglum Skipulagsfræðingafélags Íslands er meðal annars eftirfarandi ábyrgðarskylda lögð á herðar skipulagsfræðinga: „Skipulagsfræðingar skulu setja almannahagsmuni ofar öðrum hagsmunum við gerð og framkvæmd skipulags. Sérstakt tillit skal taka til hagsmuna þeirra sem erfitt eiga með notkun byggðs umhverfis, svo sem fatlaðra.“
Gott og vandað skipulag skiptir okkur öll miklu máli. Er ekki besta leiðin til að fagna nýju ári að tryggja okkur og afkomendum okkar betra og vandaðra framtíðarskipulag? Kannski væri ekki heldur úr vegi að við fögnuðum nýju ári með því að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar.
Höfundur er arkitekt og skipulagsfræðingur FAí/FSFFÍ.