Undirbúningur Bandarískir hermenn ganga að bifreið hersins á götu í Washington-borg í gær, á meðan snjór fellur af himnum ofan umhverfis þá.
Undirbúningur Bandarískir hermenn ganga að bifreið hersins á götu í Washington-borg í gær, á meðan snjór fellur af himnum ofan umhverfis þá. — AFP/Angela Weiss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Donald Trump verður í dag settur inn í embætti forseta Bandaríkjanna, það valdamesta í heiminum. Þrátt fyrir að hafa enn ekki formlega tekið við keflinu af Joe Biden hefur Trump verið atkvæðamikill á vettvangi alþjóðamála síðustu daga

Donald Trump verður í dag settur inn í embætti forseta Bandaríkjanna, það valdamesta í heiminum. Þrátt fyrir að hafa enn ekki formlega tekið við keflinu af Joe Biden hefur Trump verið atkvæðamikill á vettvangi alþjóðamála síðustu daga. Er þáttur hans í vopnahléssamkomulaginu á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas, sem tók formlega gildi í gær, m.a. sagður veigamikill.

Þá vörðu áhrif TikTok-bannsins í Bandaríkjunum ekki ýkja lengi en bandarískir notendur komust aftur inn á samfélagsmiðilinn í gær eftir að honum hafði verið lokað, að því er virðist fyrir tilstilli verðandi forsetans, sem hét því að aflétta tímabundið banni sem þingið hafði þvert á flokkslínur samþykkt að leggja á miðilinn.

Fagnaði með stuðningsfólki

Trump og JD Vance, verðandi varaforseti hans, heimsóttu í gær gröf óþekkta hermannsins í Washington þar sem Trump lagði hvítan blómsveig, prýddan rauðum, hvítum og bláum borða. Melania Trump verðandi forsetafrú og fjölskylda Trumps voru einnig viðstödd athöfnina.

Þar næst hélt verðandi forsetinn í fjölmennan fögnuð með stuðningsfólki sínu sem haldinn var á íþróttaleikvangi í Washington, þar sem þekktar stjörnur eins og Kid Rock, Billy Ray Cyrus og hljómsveitin Village People tróðu upp.

Síðast árið 1985

Langar raðir voru farnar að myndast snemma dags og ljóst að eftirvæntingin var mikil meðal stuðningsmanna hans.

Mun færri verða þó viðstaddir þegar forsetinn fyrrverandi verður settur inn í embætti í annað sinn, þar sem athöfnin verður haldin innandyra, en ekki úti eins og hefð er fyrir, á tröppum þinghússins.

Ástæðan fyrir breytingunni er sögð vera kuldi en heimskautaloft er tekið að leika um bandarísku höfuðborgina. Síðast var innsetningarathöfnin haldin innandyra árið 1985, þegar Ronald Reagan hóf sitt annað kjörtímabil. Til eru fáein dæmi í sögu Bandaríkjanna um að þessi athöfn hafi farið fram innandyra en það er þó mjög sjaldgæft.

Við athöfnina flytja forsetar ávarp þar sem þeir nýta oft tækifærið til að kynna sýn sína og setja fram markmið sín fyrir þjóðina. Sem dæmi má nefna árið 1933 þegar Franklin D. Roosevelt sagði í ávarpi sínu: „Það eina sem við höfum að óttast er óttinn sjálfur.“

Ætlar tafarlaust í málin

„Þið munuð hlusta á Trump tala um hvernig við séum að ganga inn í gullöld Bandaríkjanna,“ sagði Karoline Leavitt fjölmiðlafulltrúi Trumps um ræðu verðandi forsetans.

Trump hefur heitið því að beita sér tafarlaust fyrir þeim málum sem hann talaði fyrir í kosningabaráttu sinni. Þar á meðal að vísa úr landi milljónum innflytjenda sem komu til landsins með ólöglegum hætti. Þá hyggst hann undirrita fjöldann allan af forsetatilskipunum til að meðal annars afturkalla breytingar og stefnur sem ríkisstjórn Bidens lagði grunninn að.

„Brottvísanirnar munu hefjast mjög fljótt,“ sagði Trump við NBC-fréttastofuna í gær. Ekki er þó víst að það muni raungerast en Tom Homan, yfirmaður brottvísana Trump-stjórnarinnar, sagði ríkisstjórnina þurfa að endurskipuleggja fyrstu brottvísanirnar eftir að áætlanir þeirra láku í fjölmiðla.