Þórður Snær Júlíusson
Þórður Snær Júlíusson
Stjórn þingflokks Samfylkingar hefur ákveðið að ráða Þórð Snæ Júlíusson, 4. þingmann Reykjavíkur, sem framkvæmdastjóra þingflokksins. Þórður Snær hét því í aðdraganda kosninga að hann tæki ekki þingsæti næði hann kjöri, en áður höfðu gömul skrif hans, niðrandi um konur, komist í hámæli

Stjórn þingflokks Samfylkingar hefur ákveðið að ráða Þórð Snæ Júlíusson, 4. þingmann Reykjavíkur, sem framkvæmdastjóra þingflokksins.

Þórður Snær hét því í aðdraganda kosninga að hann tæki ekki þingsæti næði hann kjöri, en áður höfðu gömul skrif hans, niðrandi um konur, komist í hámæli. Hann hefur ítrekað að hann biðjist lausnar sem þingmaður þegar þing kemur saman 4. febrúar.

Framkvæmdastjórar þingflokka eru líkt og annað aðstoðarfólk þeirra ráðið af Alþingi skv. tillögu þingflokkanna. Að sögn Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis hefur ekkert erindi borist um það og þar af leiðandi enginn ráðningarsamningur verið undirritaður. Hins vegar hafi hann sem þingmaður þegar fengið aðgang að húsakynnum Alþingis.

Morgunblaðið leitaði eftir svörum Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, um ráðningu Þórðar Snæs og aðdraganda hennar, en hún hefur ekki enn orðið við þeirri málaleitan. andres@mbl.is