Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Flensan er komin og mallar af talsverðum þunga nú,“ segir Oddur Steinarsson heimilislæknir og framkvæmdastjóri á Heilsugæslunni á Kirkjusandi í Reykjavík. „Einkennin eru öll mjög kunnugleg; höfuðverkur, hiti, hálssærindi og þurr hósti, pest sem gengur oftast yfir fljótt.“
Skv. upplýsingum frá sóttvarnalækni er inflúensa nú í vexti á landinu. Í 2. viku janúar greindust alls 68 manns í ölllum hópum með flensu, sem var af ýmsum tegundum. Sjö þurftu af þessum sökum að leggjast inn á Landspítalann til lækninga. Þá komu 22 á bráðamóttökur með staðfesta flensu og væntanlega mun fleiri á Læknavaktina og heilsugæslur. – Rúmlega 50 greindust svo á fyrrgreindum tíma með RS-veirusýkingar og þrír með covid-19.
„Þetta er allt mjög kunnuglegt. Inflúensunnar varð vart í haust og svo er hún vanalega í hámarki í janúar og febrúar. Þegar daginn fer að lengja meira og fólk er meira úti við fjarar þetta svo út,“ segir Oddur.
Sóttvarnalæknir hefur í skilaboðum til lækna greint frá því að nóg sé til í landinu af bóluefni gegn flensu. „Á meðan inflúensan er enn að sækja í sig veðrið víða í kringum okkur er mikilvægt að reyna að ná til sem flestra, sérstaklega þeirra sem óska eftir bólusetningu vegna undirliggjandi heilsufarsvandamála,“ segir sóttvarnalæknir. Minnir þar á að inflúensan hafi í fyrra gengið langt fram á vor og gjarnan sé mikið um veikindi hjá eldra fólki seinni part vetrar. Þarna sé bólusetning besta vörnin.