Sigurgeir Ísbjörn Jónsson
Sigurgeir Ísbjörn Jónsson
3. mars 2022 samþykkti 100 manna fundur Félags eldri borgara á Suðurnesjum áskorun til stjórnvalda um að þau greiði þann mismun sem árlega myndast.

Sigurgeir Ísbjörn Jónsson

Á undanförnum árum hef ég átt í samskiptum við TR, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, úrskurðarnefnd velferðarmála og umboðsmann Alþingis vegna meðferðar stjórnvalda á 62. gr., áður 69. gr., almannatryggingarlaga nr. 100/2007. Allir þessir aðilar virðast telja það ótvírætt að fara eigi eftir 62.-69. greininni. TR vísaði á úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin gat ekki úrskurðað vegna þess að nefndin heyrði undir félagsmálaráðuneytið, en framkvæmdin heyrði undir fjármálaráðuneytið, vegna þess að í greininni stæði að bætur almannatrygginga væru í fjárlögum og engu virtist breyta að í almannatryggingarlögunum stendur að þau heyri undir félagsmálaráðherra nema annað sé tekið fram. Félagsmálaráðuneytið vísaði á fjármálaráðuneytið, sem virðist telja ótvírætt að fara eigi eftir lögunum en neitar að greiða þann mismun sem er á áætlunum fjármálaráðuneytisins um verðlags- og launaþróun og því sem varð í raun og Hagstofan gefur út eftir hver áramót vegna ársins á undan. Umboðsmaður Alþingis gaf út álit 2018 að beiðni ÖBÍ. í beiðni ÖBÍ kemur ekki fram rökstuðningur fyrir beiðninni annað en að bæturnar fylgi ekki launaþróun. Í áliti umboðsmanns kemur fram að hann telur að framkvæmd stjórnvalda sé mjög ábótavant þótt hann telji að fjármálaráðherra hafi svigrúm til að áætla bætur. Umboðsmaður bætti um betur og sendi ráðherrum og Alþingi bréf dags. 1. okt. 2019 þar sem hann skorar á stjórnvöld og Alþingi að bæta vinnubrögðin. Engu er líkara en að stjórnvöld og Alþingi hafi hent þessu bréfi í ruslið.

Umboðsmaður virðist álíta, sem er skiljanlegt, að stjórnvöld muni virða athugasemdir hans að engu þótt hann ítreki þær.

Bréf fjármálaráðuneytis til undirritaðs

Undirritaður sendi bréf til fjármálaráðuneytisins og spurði hvernig sú tala hefði verið fengin sem var í fjárlögum ársins 2021 varðandi hækkanir á bótum almannatrygginga. Fyrsta bréf fjármálaráðuneytisins til undirritaðs var svohljóðandi: „Reykjavík 10. des. 2021, efni: Hækkun á bótum almannatrygginga. Líkt og fram kemur í fjárlögum ársins 2021 byggist hækkunin á mati á meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaðnum í heild fyrir árið 2021. Framangreindar forsendur eru í samræmi við 69. gr. laga nr. 100/2007 þar sem kveðið er á um að bæturnar skuli breytast og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“ Undirritaður hefur rukkað ráðherra árlega um mismun á ágiskunum hans og því sem þróunin varð í raun samkvæmt því sem komið hefur frá Hagstofunni en án árangurs.

Laun þingmanna, dómara og fleiri

2017 voru sett lög um hækkun á launum toppanna í þjóðfélaginu. Skulu þau hækka samkvæmt launaþróun ríkisstarfsmanna og greiðist hækkunin út 1. júlí árið eftir. 2 júlí 2022 var fjármálaráðherra í sjónvarpsfréttum RÚV og sagði að mistök hefðu átt sér stað varðandi hækkanirnar. Þær hefðu verið ofgreiddar og notuð hefði verið vísitala en átt hefði að miða við textahækkanir og yrðu nú allir sem féllu undir lögin að endurgreiða og hækkanirnar myndu lækka. Í sama fréttaþætti var formaður dómarafélagsins sem hafnaði þessu og sagði nánast að hann skildi ekki málflutninginn. Og enginn af því stóði lögfræðinga sem sitja á Alþingi né umboðsmaður Alþingis eða ríkisendurskoðandi, sem hafði þá fengið ofgreidd laun í þrjú ár og á að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, gerði nokkra athugasemd. En dómurum ofbauð. Dómari höfðaði mál og féll dómur í Hæstarétti 22. des. 2023 dómaranum í vil. En af hverju er ég að rifja þetta upp. Í tilfelli hækkunar á bótum almannatrygginga er orðið launaþróun notað og líka varðandi hækkun á launum þingmanna og dómara. Í hvorugu tilfellinu er orðið vísitala fyrir framan launaþróun en fjármálaráðherra virðist hafa staðið í þeirri meiningu að launaþróun sé ekki launaþróun nema vísitala standi fyrir framan tölu launaþróunar. Líka virðist fjármálaráðherra hafa staðið í þeirri meiningu að greidd laun sem Hagstofan gefur út sem laun og skatturinn líka séu ekki laun. Laun séu aðeins laun sem miðist við einhvern launataxta sem fjármálaráðherra áætlar að verði hugsanlega árið eftir. Þegar spurt er hver sá launataxti sé sem ráðuneytið miðar bæturnar við verður fátt um svör enda ekki hægt að gefa þau þar sem í mörgum tilfellum var eftir að semja um laun á almennum markaði eins og var þegar fjárlög ársins 2024 voru samþykkt. Og í fæstum tilvikum er farið eftir föstum launataxta þegar skoðað er hver voru greidd laun eins og Hagstofan gerir. Hinn 3. mars 2022 samþykkti 100 manna fundur Félags eldri borgara á Suðurnesjum áskorun til stjórnvalda um að þau greiði þann mismun sem árlega myndast, líka vegna þess að ekki er farið eftir verðlagsþróun þótt þar standi vísitala, og greiði þann mismun 1. júlí ár hvert. Í fjárlögum ársins 2024 áætlaði fjármálaráðuneytið að verðlags- og launaþróun yrði 4,9% og bætur hækkuðu 1. janúar samkvæmt því. Sú ágiskun stenst ekki og undirritaður mun því halda áfram að rukka nýjan fjármálaráðherra eftir næstu áramót um þann mismun sem kemur í ljós þegar Hagstofan gefur út sínar tölur.

Höfundur er coxswain dux emeritus.

Höf.: Sigurgeir Ísbjörn Jónsson