Baksvið
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Nýjustu snúningar í málum Hvammsvirkjunar kunna að tefja gerð hennar enn eina ferðina, en á hinn bóginn má vera að þeir verði til þess að flýta fyrir langþráðum breytingum á umhverfi orkuöflunar í landinu.
Dómur í héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku kom flestum í opna skjöldu, en þar féll úrskurður um að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Dómarinn taldi að Umhverfisstofnun hefði skort lagastoð til að heimila breytingu á „vatnshloti“ og því gæti virkjunarleyfið ekki staðið.
Andstæðingar virkjana fögnuðu að vonum þessum sigri, þótt fáir gerðu ráð fyrir að sú sæla stæði lengi. Aðrir fundu að því að þarna hefði löggjafanum brugðist bogalistin 2011, bent var á að varað hefði verið við þessum galla á lögunum í minnisblaði frá 2019, en tveimur umhverfisráðherrum, þeim Guðmundi Inga Guðbrandssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, ekki enst tími til þess að bæta úr því.
Breytt afstaða
Eins og fram kemur í forsíðufrétt blaðsins hyggst Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bregðast skjótt við þessari stöðu, sem upp er komin. Hann segir það óþolandi niðurstöðu ef dómurinn yrði til þess að seinka Hvammsvirkjun frekar, of mikið sé í húfi fyrir raforkuöryggi landsins, bæði fyrir heimili og atvinnulíf.
Ráðherra boðar lagafrumvörp, bæði um Hvammsvirkjun sérstaklega, en einnig almennari til breytinga á almennari lagaákvæðum, sem geri áform um orkuöflun skipulegri og skilvirkari.
Margt af því sem Jóhann Páll nefnir í því samhengi hefur áður heyrst, en þessi skjótu viðbrögð í upphafi fyrsta þings nýrrar ríkisstjórnar eru ugglaust til bóta fyrir orkugeirann og um leið pólitísk merkjasending um breytta afstöðu Samfylkingarinnar í þessum veigamikla en oft verulega umdeilda málaflokki.
Alþingi á einu máli
Miðað við það sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðuflokkunum, bæði fyrir og eftir kosningar, er tæplega að vænta mikillar ef nokkurrar andstöðu við þessi áform ráðherrans. Frumvörpin eru auðvitað óframkomin, svo mögulega finna menn eitthvað að kýta um, en tæplega um meginmarkmiðin.
Á sinn hátt á það ekki að koma á óvart, þeir flokkar hafa ekki skipt um stefnu, en það munar um að Vinstri-grænir féllu af þingi, því þvergirðingar þeirra í ríkisstjórn voru helsta fyrirstaða aukinnar orkuöflunar á liðnum árum.
Það á ekki heldur að koma á óvart að við nýrri tón kveði hjá Samfylkingu, hún boðaði stóraukna orkuöflun fyrir kosningar og lét fyrri efasemdir lönd og leið. Sem burtséð frá öllu málefnastarfi rímar fyllilega við niðurstöður skoðanakönnunar um að aðeins 3% landsmanna væru andsnúin frekari orkuöflun. Væntanlega sömu 3% og kusu Vinstri-græna!
Stóra spurningin er hins vegar hvað gerist svo. Þær raddir gerast æ háværari sem segja að taka þurfi allt fyrirkomulag og regluverk orkuöflunar til endurskoðunar, fullreynt sé með það og pólitíkin þurfi að skerast í leikinn. Ekki verður annað séð en að nú sé lag til þess.
Hvammsvirkjun
Eilífar tafir
á tafir ofan
Landsvirkjun hefur frá aldamótum ráðgert Hvammsvirkjun á Þjórsár og Tungnasvæðinu. Áform um virkjun þar voru fyrst kynnt 2003, en síðan hefur á ýmsu gengið. Samningar við landeigendur, flokkun samkvæmt rammaáætlun, umhverfismat reyndust tafsöm, virkjunarleyfi Orkustofnunar var kært og fellt úr gildi, en Umhverfisstofnun veitti undanþágu, en leyfið á dögunum ógilt með dómi, þar sem óvænt valdþurrð við leyfi til vatnsaflsvirkjana virðist koma í ljós.