Bjarni Þjóðleifsson fæddist 29. janúar 1939. Hann lést 30. desember 2024.

Útför hans fór fram 10. janúar 2025.

Genginn er góður og sannur vinur til margra ára. Mér er efst í huga þakklæti fyrir hjálpsemi, virðingu og vináttu sem Bjarni sýndi mér alla tíð. Kynni okkar hófust á sjöunda áratug síðustu aldar, þá nágrannar í Fossvoginum. Bjarni var ekki maður margra orða en þegar hann talaði með sinni hógværri röddu hlustuðu allir. Aldrei sá ég hann skipta skapi eða tala illa um nokkurn mann. Hann var sannur heiðursmaður í orðsins fyllstu merkingu.

Ég á margar góðar og ljúfar minningar úr veiðiferðum okkar sem lengi verða í minnum hafðar. Mér er þó minnisstæðust fyrsta veiðiferðin sem hann bauð mér í; laxveiði í Blöndu ásamt nokkrum félögum hans sem flestir voru vanir veiðimenn eins og Bjarni á þessu svæði. Hann lét mig vita áður en við fórum úr bænum að það gæti farið svo að ég myndi kannski ekki veiða mikið í fyrstu þar sem veiðiaðferðir og veiðarfæri væru ekki af því tagi sem ég væri vanur að nota. Á þessum árum var áin oft mórauð og vatnsmikil og því þurfti sérstakt lag til að ná í fiskinn. Það var algjört skilyrði að hafa réttu tækin, gott hjól, sterka stöng og sterkt girni. Ég hlýt að læra þetta hugsaði ég með mér og útbjó mig með þeim græjum sem ég átti. Þegar við komum á náttstað fóru allir að gera veiðarfærin klár, setja saman stangir, spúna og sökkur því engan tíma mátti missa þegar veiðin hæfist klukkan sjö daginn eftir. Bjarni var mjög kurteis og orðvar maður, leit á veiðarfærin mín með rannsakandi augum og af svipnum að dæma leist honum ekkert of vel á græjurnar mínar sem ég ætlaði að nota, sagði aðeins: Þú reynir bara hvort þetta gengur hjá þér. Það er skemmst frá því að segja að eftir að ég hafði fylgst með þeim félögum veiða í 2-3 tíma fékk ég fljótlega vænan nýgenginn lax. Þá gerðist það sem Bjarna eflaust grunaði að myndi gerast hjá mér; fiskurinn gerði alveg út af við veiðimanninn, veiðihjólið og stöngina á svipstundu og fór sína leið. Þannig endaði þessi fyrri hluti dagsins hjá mér. Ég þurfti greinilega að endurnýja veiðarfærin ef ég ætlaði að halda áfram veiði með þessum heiðursmönnum. Upp frá þessu var það árlegur viðburður að fara saman í Blöndu og ríkti ávallt mikil eftirvænting eftir þeim degi. Alltaf voru þessar ferðir skemmtilegar og eftirminnilegar. Ég á þarna mínar bestu og ljúfustu minningar með Bjarna og fölskyldu hans og vinum. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur.

Ég votta Sigríði eiginkonu hans og börnunum Gerði, Guðrúnu, Hildi og Brjáni og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Bjarna Þjóðleifssonar.

Thulin Johansen.