Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Besta leiðin til að kynnast hverju samfélagi, sem nýr íbúi þar, tel ég að sé að gerast strax virkur þátttakandi,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, nýr bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ. „Að vera í tónlist, íþróttum eða einhverju slíku opnar fólki möguleika og tækifæri. Ég flutti hingað vestur árið 2019 og blandaði mér fljótt í leikinn á ýmsum sviðum. Hét því reyndar strax að ég ætlaði aldrei í stjórnmál, en svo fór fljótt að ég sogaðist inn í þau, enda vildi ég hafa áhrif. Var árið 2022 kjörin í bæjarstjórn en sá þó aldrei fyrir mér að verða bæjarstjóri. En svona kemur lífið manni stundum á óvart.“
Norðurland og Borgarfjörður
Nú um áramótin tók Sigríður við bæjarstjórastarfinu í kjölfar þess að Arna Lára Jónsdóttir, sem því hafði gegnt frá 2022, var kjörin á Alþingi. Þær koma báðar úr Í-listanum sem hefur meirihluta í Ísafjarðarbæ og fimm bæjarfulltrúa. Í sveitarstjórnarkosningum 2022 skipaði Sigríður fjórða sæti listans og næstliðin ár hefur hún verið formaður skipulags- og mannvirkjanefndar sveitarfélagsins. Íbúar í Ísafjarðarbæ eru nú um 4.000 og fjórðungur þeirra af erlendum uppruna.
„Ræturnar eru á Norðurlandi,“ segir Sigríður Júlía, sem fæddist á Akureyri en ólst upp í Fnjóskadal og Skagafirði. Hún bjó svo í um tuttugu ár í Borgarfirði, hvar hún bjó, nam og starfaði meðal annars á Hvanneyri. Var þar framkvæmdastjóri bændaskóga á Vesturlandi og síðar sviðsstjóri hjá Skógræktinni.
Nýjar atvinnugreinar
„Í Borgarbyggð var ég í sveitarstjórn um skeið, en svo dró ástin mig hingað vestur og hingað flutti ég árið 2019. Við Steinþór Bjarni Kristjánsson eiginmaður minn bjuggum lengi í Önundarfirði, en fluttum okkur svo á Suðureyri eftir að hafa keypt okkur inn í ferðaþjónustuna Fisherman. Á þeim tíma var ég farin að vinna hjá Lýðskólanum á Flateyri; var fyrst kennslustjóri og síðar skólastjóri en af því starfi lét ég þegar mál skipuðust svo að ég tæki við starfi bæjarstjóra,“ segir viðmælandi og heldur áfram:
„Skógrækt, lýðskóli, ferðaþjónusta; já, þetta er kannski ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar minnst er á Vestfirði. En þarna ber á að líta að á sl. 10-15 árum hafa orðið breytingar á öllum atvinnuháttum hér. Sjávarútvegurinn, það að beita línu, sækja sjó og vinna fisk, er ekki lengur í sama aðalhlutverki og var þótt mikilvægt sé. Fleiri atvinnugreinar hafa komið inn og eru mikilvægar; svo sem fiskeldið. Þá munar mjög um komu nærri 200 skemmtiferðaskipa á sumri hverju til Ísafjarðar. Sett hafa verið viðmið um mengun og fjölda farþega í landi á hverjum tíma svo nú hefur náðst ágæt sátt um þessi mál. Og dagarnir hér í bænum þegar skipin eru í höfn og bærinn fullur af fólki eru skemmtilegir. Iðandi mannlíf og sól á Silfurtorgi.“
Hlustar í heita pottinum
Markmið hins nýja bæjarstjóra er að ná á fyrstu tveimur mánuðum í starfi að heimsækja allar stofnanir sveitarfélagsins; skóla, íþróttamannvirki, slökkviliðið, hafnaþjónustuna og svo framvegis. „Ef veður helst skaplegt ætti þetta alveg að takast,“ segir Sigríður, sem rómar lífsgæðin vestra. Þar séu aðstæður til skíðaiðkunar hinar bestu og sjálfri þyki sér frábært að fara í heita pottinn í sundlauginni á Suðureyri. Slaka þar á en heyra líka viðhorf fólksins – sem sannarlega geri kröfur en vilji sínu samfélagi allt hið besta.