Fyrsta skóflustungan tekin í forarvilpu borgarlínunnar

Þeir voru glaðbeittir kjörnir fulltrúar almennings og embættismenn þar sem þeir munduðu skóflurnar til að marka upphaf fyrstu framkvæmda við borgarlínuverkefnið. Þar er um að ræða brú yfir Fossvog sem á að flytja gangandi og hjólandi en ekki aðra bíla en risastóra strætisvagna borgarlínunnar. Vinsælasta farartæki almennings verður ekki velkomið á brúnni sem þó á að kosta skattgreiðendur níu milljarða króna, eins og tölur standa nú. Gjalda verður varhug við þeim útreikningum því að þegar brúin var sett inn í samgöngusáttmálaáformin átti hún að kosta um tvo milljarða króna.

Það er ekki aðeins brúin sem hefur hækkað hressilega frá því að kjörnir fulltrúar ákváðu fyrst að fara út í það risaverkefni sem borgarlínan á að vera og vitað var að yrði aldrei arðbært. Verkefnið í heild, samgöngusáttmálinn svokallaði sem er fyrst og fremst borgarlínan, hefur um það bil tvöfaldast frá fyrstu samþykktu tölum, sem þó voru yfirgengilega háar. Síðast þegar spurðist var kostnaðaráætlunin orðin vel á fjórða hundrað milljarða og litlar líkur á að hún standist svo að kjósendur ættu að fara að grípa um veskið.

Það versta við samgöngusáttmálann er þó ekki um hve háar fjárhæðir ræðir, sem er nógu slæmt, heldur hverju hann mun skila verði anað áfram enn. Þær gríðarlegu framkvæmdir sem áformaðar eru til að gera risastrætisvagnana á sérakreinunum mögulega munu tefja umferð mikið á meðan framkvæmdir standa yfir en verða ekki til að rýmka fyrir umferð að framkvæmdum loknum. Þvert á móti raunar, því að áfram á að þrengja að umferðinni og taka akreinar af almenningi sem að langstærstum hluta hefur valið fjölskyldubílinn sem sinn eftirlætisferðamáta. Borgarlínan mun vitaskuld ekki breyta því vali.

Harla litlar líkur eru því á að þetta dýra verkefni létti á umferð og alls ekki fyrr en eftir allmörg ár í fyrsta lagi. Þangað til mun ástandið aðeins versna.

Þetta þyrfti ekki að fara svona ef að stjórnmálamenn tækju sig saman í andlitinu og viðurkenndu staðreyndir í stað þess að elta sem dáleiddir úreltar kreddur ættaðar frá fyrrverandi borgarstjóra, sem hefur farið svo illa út af sporinu að honum er ekki treyst fyrir neinni ábyrgð af eigin flokksforystu. Það er til dæmis hægt að efla núverandi strætisvagnakerfi með aukinni tíðni og fleiri sérakreinum sem væri mun ódýrari kostur og fæli í sér minni umferðartafir á framkvæmdatíma og mundi skila svipaðri niðurstöðu og risavagnarnir í að bæta almenningssamgöngukerfið.

En ef enginn þorir að taka af skarið og spara þær himinháu fjárhæðir sem ætlunin er að sóa með samgöngusáttmálanum verður verkefninu nuddað áfram þar til að því kemur að það siglir í strand með skelfilegum afleiðingum fyrir fjárhag hins opinbera og umferðar- og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Væri ekki ráð að ný ríkisstjórn, sem segist nú leita logandi ljósi að hagræðingartækifærum, gripi það stærsta?!