Sigríður Bjarnadóttir fæddist í Hafnarfirði 22. mars 1932. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 31. desember 2024.

Foreldrar Sigríðar voru Bjarni Erlendsson, húsasmíðameistari í Hafnarfirði, f. 3. desember 1898, d. 9. desember 1984, og Júlía Magnúsdóttir húsmóðir, f. 9. ágúst 1903, d. 26. júní 1987. Systkini Sigríðar eru Gunnar Erlendur, f. 11. nóvember 1922, d. 14. ágúst 1990, Magnús, f. 17. júlí 1928, d. 9. janúar 2019, Gróa, f. 27. ágúst 1930, d. 9. ágúst 2009, Eygerður, f. 22. mars 1932, d. 2. ágúst 2020, Kristrún, f. 7. apríl 1936, og Ásthildur, f. 14. mars 1943.

Eiginmaður Sigríðar var Magnús H. Magnússon bifvélavirki, f. 6. nóvember 1932, d. 4. janúar 2015. Þau gengu í hjónaband 14. janúar 1961.

Sigríður og Magnús eignuðust fjögur börn. 1) Hólmfríður, f. 29. október 1960, maki Árni Guðnason, börn þeirra Ásbjörn Árni, Sigríður Maggý, Ágústa Guðný og Magnús H. 2) Hildur, f. 3. júlí 1962, maki Þorsteinn Einarsson, börn þeirra Einar Magnús, Arnar Steinn og Bjarki Þór. 3) Sigríður, f. 31. maí 1963, maki Sturla Jónsson, börn þeirra Ína Salome og Jón Ágúst. 4) Magnús, f. 5. nóvember 1964, maki Áslaug Jónsdóttir, börn þeirra Ívar Örn, Rósa Jóna og Róbert, þau slitu samvistum. Seinni kona Magnúsar er Nína Edvardsdóttir. Barnabörnin eru 12, barnabarnabörnin 20 og eitt barnabarnabarnabarn.

Sigríður ólst upp á Suðurgötu 49 í Hafnarfirði. Hún lærði saumaskap hjá Guðrúnu Arngrímsdóttur sem rak saumastofu í Reykjavík og vann hjá henni í nokkur ár. Hún fór ung til Noregs og Kaupmannahafnar og vann þar við garðyrkju og saumaskap. Eftir heimkomu hóf hún störf við hótel Varmahlíð þar sem hún kynntist manni sínum. Með húsmóðurstarfinu vann hún heima fyrir við saumaskap meðan börnin uxu úr grasi en var lengst af á saumastofu Kópavogshælis og endaði starfsferil sinn þar.

Sigríður og Magnús voru mjög samrýmd hjón og fannst fátt skemmtilegra en að heimsækja börn og barnabörn og njóta samverunnar við þau. Sigríður og Magnús reistu sumarbústað í Vaðnesi sem þau nutu mjög að dvelja í auk þess sem þau ferðuðust töluvert innanlands sem utanlands.

Útför Sigríðar fer fram í Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. janúar 2025, kl. 13.00.

Elsku mamma mín. Það er erfitt til þess að hugsa að þú sért farin. Að ég geti ekki heimsótt þig, hringt í þig eða heyrt rödd þína. Margar góðar og skemmtilegar minningar koma upp í huga minn. Að fara með þig í bæinn, t.d. á kaffihús eða að „skoða í búðir“ eins og þú sagðir svo oft. Alltaf gast þú keypt þér einhver föt og varst fljót að sjá hvað þér fannst fallegt. Þú varst einstaklega lagin í höndunum enda saumakona. Saumaðir kjóla og kápur á okkur systur. Ég minnist þess að þegar ég var krakki á Álfaskeiðinu þá varst þú að sauma langt fram á nætur kjóla fyrir konur úti í bæ, á sjálfa þig og okkur systkinin. Þú saumaðir á mig föt þegar ég var að fara á böll í gamla daga, brúðarkjólinn minn sem þótti einstaklega fallegur og á börnin mín galla og spariföt, og allt var þetta einstaklega fallegt, vel gert og umtalað.

Þau eru til mörg falleg handverkin eftir þig. Mig langaði oft að geta bjargað mér sjálf við saumaskap og bað þig þá um hjálp sem endaði yfirleitt á því að þú sagðir „æ, ég skal bara gera þetta, ég er miklu fljótari sjálf“. En mamma, hvað geri ég þegar þú fellur frá, hver á þá að hjálpa mér? Þá sagðir þú „þú bjargar þér“. Í dag er ég svo heppin að eiga son sem erfði þína hæfileika og ég get nú leitað til.

Þú elskaðir allt sem sneri að fötum og tísku. Og fylgdist alla tíð með hvað var í tísku. Þú hafðir orð á því þegar fólk var í flottum fötum og líka ef fólk var ekki vel klætt. Þú spurðir mig alltaf þegar ég var að fara á árshátíð eða í boð: „Ertu búin að ákveða í hverju þú ætlar að vera? Þú verður að taka mynd af þér og sýna mér.“

Það var alltaf gaman að hlusta á þig daginn eftir Óskarsverðlaunaafhendingu sem þú horfðir alltaf á í sjónvarpinu langt fram á nætur. Daginn eftir var umræðan hvaða leikkona hefði verið í flottasta kjólnum. Þú hafðir frá unga aldri mikinn áhuga á kvikmyndum sem og leikurum og hafði pabbi oft orð á því að þú hefðir farið í bíó á 3-, 5-, 7- og 9-sýningar.

Þú fylgdist vel með barnabörnunum, komst í heimsókn yfirleitt eftir vinnu og oft með pabba á kvöldin að „kíkja á börnin“ eins og þið sögðuð. Það var dýrmætur og góður tími sem gleymist aldrei. Eins og allar góðu samverustundirnar í sumarbústaðnum í Vaðnesi, sælureitnum ykkar.

Þið pabbi voruð dugleg að ferðast. Alltaf keyptuð þið gjafir handa barnabörnunum og það leiddist þér ekki. Það var yndislegur og góður tími þegar við fórum með ykkur til Flórída og svo þér til Danmerkur í heimsókn til Ínu Salome og Bubba sem varð þín síðasta utanlandsferð. Þar naust þú þess að koma á gamlar slóðir og hafðir gaman af.

Þú varst besta mamma, amma og langamma og vildir öllum vel.

Nú hafið þið pabbi sameinast aftur og ég veit, mamma mín, að pabbi hefur tekið vel á móti þér í sumarlandinu. Þið voruð einstaklega samrýmd og glæsileg hjón.

Minning þín lifir í hjarta mínu.

Elsku mamma mín, takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Sigríður (Sigga).