Teikning Mynd eftir Mugg sem fylgir sögu móður hans, Rjúpuhreiðrinu.
Teikning Mynd eftir Mugg sem fylgir sögu móður hans, Rjúpuhreiðrinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Út er komin bókin Tímanna safn: Kjörgripir í Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni sem safnið gefur út í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag. Í henni er fjallað í máli og myndum um kjörgripi sem varðveittir eru í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Út er komin bókin Tímanna safn: Kjörgripir í Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni sem safnið gefur út í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag. Í henni er fjallað í máli og myndum um kjörgripi sem varðveittir eru í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Þeir endurspegla fjölbreytta safneign og er til að mynda fjallað um bækur, handrit, einkaskjöl, tímarit og hljómplötur. Bókin er gefin út í tilefni af 30 ára afmæli Þjóðarbókhlöðu en 1994 sameinuðust Landsbókasafn og Háskólabókasafn undir einu þaki.

Safnið á sér sögu sem nær aftur til ársins 1818 þegar Landsbókasafn, sem í fyrstu hét Stiftsbókasafn, var stofnað. Á þessum ríflega 200 árum hefur safnkosturinn vaxið og starfsemin tekið breytingum.

Bókin varpar ljósi á breidd safnkostsins. Í henni er vakin athygli á efni sem lítið hefur verið fjallað um áður, í bland við þekktari gersemar í safnkostinum. Birtar eru ljósmyndir af hverjum kjörgrip ásamt stuttum greinum þar sem gerð er grein fyrir honum. Höfundar texta eru bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn safnsins. Ritstjórar eru Halldóra Kristinsdóttir og Hildur Ploder Vigfúsdóttir.

Hér eru birtar þrjár greinar úr bókinni: „Góðar konur og góðir menn!“ eftir Braga Þorgrím Ólafsson sem segir frá skjölum hjúkrunarnefndar Reykjavíkur sem sett var á fót í spænsku veikinni 1918, „Rjúpuhreiðrið“ eftir Halldóru Kristinsdóttur sem fjallar um myndskreytta smásögu sem birtist í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna og „Ef til loftárása kemur“ eftir Rannver H. Hannesson þar sem sagt er frá leiðbeiningum og veggspjöldum loftvarnarnefndar Reykjavíkur á tímum seinni heimstyrjaldarinnar.

„Góðar konur og góðir menn!“

Þegar spænska veikin barst til Íslands undir lok októbermánaðar árið 1918 breiddist hún út með slíkum krafti að sett var á fót sérstök hjúkrunarnefnd í Reykjavík til að bregðast við neyðarástandi í bænum. Gögn nefndarinnar eru varðveitt í handritasafni og samanstanda af skýrslum, listum, bréfum, dreifimiðum og öðrum gögnum þar sem lesandinn dregst beint inn í hringiðu atburðanna.

Eitt af fyrstu verkum nefndarinnar var að safna saman sjálfboðaliðum til að ganga í öll íbúðarhús í bænum og kanna heilsufar bæjarbúa. Í því skyni var prentuð áskorun. Þó nokkrir sjálfboðaliðar gáfu sig fram við nefndina og var hverjum þeirra úthlutað ákveðnum bæjarhluta þar sem þeir áttu að ganga á milli húsa, athuga heilsufar íbúa og skila skýrslum til nefndarinnar. Samkvæmt þeim var ástandið grafalvarlegt, en talið var að um 10.000 bæjarbúar væru veikir, en þá voru íbúar Reykjavíkur um 15.000 talsins. Til að sinna þessum mikla fjölda sjúklinga greip nefndin til ýmissa ráðstafana. Ákveðið var að nýta Barnaskólann (Miðbæjarskólann) undir bráðabirgðasjúkrahús og voru kallaðir þar til starfa læknar og hjúkrunarfólk ásamt ýmsu aðstoðarfólki. Í skólanum var jafnframt opnað bráðabirgðabarnaheimili, enda var fjöldi barna umkomulaus og/eða lasinn sjálfur, og höfðu sum þeirra misst annað eða jafnvel báða foreldra. Sett var á fót heimahjúkrunarþjónusta sem veitti aðstoð til íbúa í 159 húsum – nær sjöunda hverju húsi í bænum. Hjúkrunarnefndin útvegaði einnig sjálfboðaliða til að aðstoða við bakstur og afgreiðslu og annaðist líka ýmis önnur verkefni; sá læknum og ljósmæðrum fyrir akstri, útbýtti lyfjum, dósamjólk og haframjöli, úthlutaði steinolíu, sá um sjúkraflutninga með bílum og hestvögnum, stóð að fjársöfnun og margt fleira.

Mikill fjöldi leitaði til nefndarinnar og hafði hún til dæmis milligöngu um 2.500 sjúkravitjanir. Þá var upphaflega ráðgert að skrá hvert tilfelli en aðsóknin var svo mikil að skrifstofu nefndarinnar „að henda varð allri skriffinnsku fyrir borð, ef nokkuð verulegt ætti að verða úr framkvæmdum,“ eins og segir í skýrslu nefndarinnar. Þegar leið að mánaðamótunum var veikin í rénun og starfi nefndarinnar var að mestu lokið þann 25. nóvember.

„Rjúpuhreiðrið“

Mánaðarrit var félagsrit Lestrarfélags kvenna Reykjavíkur sem hóf göngu sína árið 1912. Það var handskrifað inn í sérstaka bók og lesið upp á fundum félagsins. Í einu hefti Mánaðarritsins, sem skrifað var í febrúar 1916, er saga sem ber heitið „Rjúpuhreiðrið“. Sagan er „sönn frásaga“ en er án höfundar í ritinu og henni fylgja tvær teikningar, sem einnig eru ómerktar.

„Rjúpuhreiðrið“ reynist vera endurminning Ásthildar Thorsteinsson (1857-1938) frá því að hún var á níunda ári og búsett hjá foreldrum sínum í Kvennabrekku í Miðdölum. Á leið sinni milli bæja einn daginn steig hún ofan í rjúpuhreiður með 11 eggjum og braut tvö. Þegar hún segir fóstru sinni frá þessu tjáir fóstran henni að þetta muni þýða það að Ásthildur muni eignast 11 börn og missa tvö. „Rjúpuhreiðrinu“ gleymdi Ásthildur en mundi svo eftir því löngu seinna, þegar hún var búin að eignast 11 börn og missa tvö.

Myndirnar tvær, sem fylgja sögunni, eru eftir son Ásthildar, Mugg (Guðmund Thorsteinsson) (1891-1924). Önnur myndin er límd inn í bókina en hin er teiknuð í ritið sjálft. Sama ár, 1916, kom út bókin Þulur eftir móðursystur Muggs, Theodóru Thoroddsen (1863-1954), með teikningum eftir hann.

„Rjúpuhreiðrið“ birtist fyrst á prenti mörgum áratugum eftir að sagan var skrifuð í Mánaðarritið. Það var árið 1963 þegar gefið var út ritið Konur segja frá en í því eru sögur, ljóð og frásagnir eftir 15 konur og er efnið allt úr Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna. Kom bókin út í tilefni af 50 ára afmæli Lestrarfélagsins. Í henni er birt sú mynd Muggs sem er límd inn í Mánaðarritið, myndin af stúlkunni við rjúpuhreiðrið.

Lestrarfélag kvenna Reykjavíkur var stofnað í Reykjavík 18. september 1911 af nokkrum konum í Kvenréttindafélagi Íslands sem höfðu þá rekið lesstofu fyrir konur í tvö ár. Í fyrsta ritinu kemur fram tilgangur félagsins, en hann er „að vekja og efla löngun til að lesa góðar bækur og eftir föngum að rekja og ræða efni þeirra til aukins skilnings, og ef verða mætti til einhverra framkvæmda“. Mánaðarritið sjálft skyldi „vekja athygli á merkum bókum og höfundum þeirra, á merkum mönnum og starfi þeirra, koma með fyrirspurnir og fróðleiksmola um ýmislegt það, er varðar félagsskap vorn og áhugamál“. Ritið lifði í rúma tvo áratugi og í það skrifuðu ýmsar nafntogaðar konur. Er einkaskjalasafn félagsins varðveitt í handritasafni undir safnmarkinu Lbs 102 NF, en í því eru meðal annars fundargerðarbækur, Mánaðarrit félagsins, bóka- og aðfangaskrár, bréf og önnur skjöl.

„Ef til loftárása kemur“

Nokkrum dögum eftir hernám Breta á Íslandi 10. maí 1940 fól Hermann Jónasson (1896-1976) forsætis- og dómsmálaráðherra lögreglustjóranum í Reykjavík að skipa loftvarnanefnd. Auk lögreglustjóra skyldu eiga sæti í nefndinni einn fulltrúi fyrir hvern eftirtalinna aðila: Bæjarráð Reykjavíkur, Landsímann, Rauða kross Íslands og Bandalag íslenskra skáta.

Þegar á sínum fyrsta fundi ákvað nefndin að útbúa og láta prenta leiðbeiningar fyrir almenning um viðbrögð við árásum. Í bæklingnum er fjallað almennt um loftvarnir, um viðbrögð fólks sé það statt innanhúss, á götum úti eða á bersvæði, um loftvarnabyrgi og hjálparsveitir. Viðvörunarkerfi var komið upp og stofnað til fjölmennra hjálparsveita sjálfboðaliða til stuðnings slökkviliði, lögreglu og hjúkrunarfólki. Auk leiðbeiningabæklingsins birti Loftvarnarnefnd auglýsingar í dagblöðum og lét prenta dreifimiða. Í kjölfarið voru sett loftvarnalög haustið 1940 og síðan stofnaðar loftvarnanefndir á þéttbýlisstöðum um land allt.

Á þessum tíma hýsti Safnahúsið við Hverfisgötu helstu söfn þjóðarinnar. Strax á fyrsta degi hernámsins hvöttu forráðamenn safnanna til þess að söfnin yrðu flutt frá Reykjavík vegna hættu á yfirvofandi loftárásum Þjóðverja. Ákvörðun var tekin um brottflutning handrita og fágætra bóka Landsbókasafns, auk ýmissa skjala Þjóðskjalasafns, í barnaskólahúsið á Flúðum þar sem gripirnir voru geymdir fram yfir stríðslok.

Í safni dægurprents í Landsbókasafni eru tvö fágæt veggspjöld, líklegast frá árinu 1942, sem eru lýsandi fyrir ástandið sem ríkti í Reykjavík á stríðsárunum síðari. Óvíst er þó hvort þau hafi nokkurn tíma verið fjölfölduð og þeim dreift. Veggspjöldin eru offsetprentuð í tveimur litum hjá prentsmiðjunni Gutenberg. Stærð veggspjaldanna sem hér eru birt er 35,7x69,0 og 76,0x50,0 sentimetrar.

Að lokinni seinni heimsstyrjöld var loftvarnanefnd Reykjavíkur lögð niður en endurvakin á upphafsárum kalda stríðsins. Árið 1962 voru Almannavarnir ríkisins stofnaðar og lögunum um almannavarnir breytt á þann veg að þau tækju einnig til varna gegn náttúruvá.