Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Framfarir í hestamennsku á Íslandi síðustu árin hafa verið miklar, það er þróun sem hefur verið gaman að taka þátt í. Stöðugt fjölgar þeim sem stunda hestaíþróttir, sem njóta í dag þeirrar viðurkenningar sem vert er. Allt starf, svo sem þjálfun, menntun og ræktun, er orðið mun markvissara og faglegra en áður. Árangur af því er frábær,“ segir Sigurbjörn Bárðarson hestamaður.
120 Íslandsmeistaratitlar
Nú á fyrstu dögum ársins, samhliða útnefningu á Íþróttamanni ársins 2024, var Sigurbjörn Bárðarson tekinn inn í Heiðurshöll Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Hann er 26. íþróttamaðurinn sem kemst á þann lista frá stofnun hallarinnar árið 2012. Sigurbjörn er margfaldur Íslands- og heimsmethafi í öllum greinum hestamennsku. Hann hefur á löngum ferli unnið alls 13 gullverðlaun á heimsmeistaramótum og 120 Íslandsmeistaratitla. Síðasta titilinn vann hann árið 2022, þá sjötugur. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 og hefur fimm sinnum verið á meðal tíu efstu í því kjöri.
Sigurbjörn hefur og hlotið riddarakross hinnar íslensku fálkakorðu, er heiðursfélagi í Fáki og Landssambandi hestamannafélaga. Hefur svo verið verið landsliðsþjálfari Íslands undanfarin sjö ár og er nú að leggja línurnar fyrir Heimsmeistaramót íslenska hestsins sem haldið verður í Sviss í ágúst næstkomandi.
Verðugur sess
„Hestamennska var lengi jaðarsport. Það tók að breytast fyrir um tuttugu árum þegar áhugi og umfjöllun fjölmiðla um sportið, öll fréttamennska, varð betri. Með því fékk hestamennskan þann sess sem verðugt var,“ segir Sigurbjörn sem kveðst hafa fengið áhuga á hestum strax á barnsaldri. Sumardvöl í sveit, fyrst í Hrunamannahreppi og síðar í Skagafirði, hafi skerpt áhugann svo ekki varð aftur snúið.
„Ég man og upplifi enn þá góðu tilfinningu sem nærvera við hrossin færði mér, að klappa hestunum og finna lyktina af þeim. Hér í Reykjavík kynntist ég líka ýmsum góðum hestamönnum sem gáfu mér tækifæri, en fyrir 50-60 árum var litið á þetta sem sport fyrir fullorðna en ekki unga krakka. Þetta breyttist sem betur fer.“
Keppnisandi í blóði
Vorið 1966 fermdist Sigurbjörn og notaði peningana sem hann fékk þá að gjöf til að kaupa sinn fyrsta hest. Lokkur hét gæðingurinn og var hann haldinn í hesthúsi á svæði Fáks við Bústaðaveg í Reykjavík. Á þeim slóðum var jafnframt keppnisvöllur og mótshald þar. Hvítasunnukappreiðar Fáks voru á þeim tíma þekktar útisamkomur. Í þessu umhverfi og samfélagi segir Sigurbjörn að hestamennska sín hafi verið komin á góðan skrið og óskiptur áhugi sinn vakinn.
„Ég var þarna í lífsins skóla með hestamönnum sem ég lærði mikið af. Aðeins sautján ára fór ég svo í það ævintýri að byggja hesthús hér í Víðidalnum í Reykjavík í samvinnu við Hörð G. Albertsson, sem er fyrsta og eina steinsteypta hesthúsið á Fákssvæðinu. Og hér er ég enn að og verð, enda þótt ég sé líka með góða aðstöðu á jörð okkar hjóna austur á Rangárvöllum,“ tiltekur Sigurbjörn og bætir við að mikill keppnisandi sé í blóði sínu. Sér sé nánast eðlislægt að þurfa að breyta öllu í daglegu lífi sínu í keppni.
„Gangi ég með manni frá einum stað til annars vil ég alltaf vera á undan honum. Keppnisskapið kemur ómeðvitað upp hjá mér í öllu dagsins amstri. Kannski segir þetta eitthvað um mína hestamennsku, þar sem kappreiðar höfða alltaf sterkt til mín. Ég vil alltaf koma á undan öðrum í mark og að tíminn ráði úrslitum.“
Sem ungur maður nam Sigurbjörn blikksmíði en hestamennskan varð fljótlega hans aðalstarf. Þar hefur hann sinnt til dæmis reiðkennslu, þjálfun, ræktun, félagsstörfum og svo mætti áfram telja. Mikið starfað erlendis við kennslu og kynningu á íslenska hestinum. Slíka góðhesta má finna í meira en tuttugu löndum og þegar allt er saman talið eru íslensk hross erlendis töluvert fleiri en á Íslandi.
„Hestamennska í hnotskurn, ræktun, þjálfun og tamningar, byggist mikið á að geta sálgreint hestinn út frá þeirri reynslu og tilfinningu sem árin færa manni. Er hesturinn ör, ljúfur eða geðfúll? Svona atferlisgreining lærist með tímanum. Hestar eru alls konar eins og mannfólkið; með mismunandi lundafar. Góður þjálfari gefur hestinum tíma til að þroskast og læra allt sem fyrir honum er haft. Í raun þarftu að vera hálfgerður sálfræðingur þegar hesturinn er lesinn. Hestur sem hefur mikla afkastagetu á skeiði hefur kannski ekki við fyrstu sýn byggingarlag til stórræða. Kemst þó langt á því keppnisskapi, styrk og þoli sem íslenski hesturinn státar af.“
Landsliðshópurinn sé breiður
Í Hólaskóla í Hjaltadal er hestafræði kennd á háskólastigi, sem hefur skilað mikilvægri og góðri þekkingu inn í hestamennskuna, segir Sigurbjörn. Starfið þar sé að skila sér. Íslenski hesturinn – með allt sitt atgervi – sé einstakur samanber lands- og heimsmeistaramót sem haldin eru annað hvert ár til skiptis. Á heimsmeistaramótum hefur hlutverk Sigurbjörns verið að velja sjö manna landshliðshóp sem fer utan til keppni hverju sinni. Leiðarljósið þar segir hann að breiddin í hópnum sé sem mest; að heildin tikki í sem flest box. Og ekki vanti atgervið; æskulýðsstarf, hæfileikamótun, fræðslustarf og fleira gott sé að skila sér.
„Hver nýr dagur felur í sér tækifæri. Ég er orðinn 72 ára og hlakka ávallt til að fara í hesthúsið þar sem bíða mín áskoranir. Og ég er ekki hættur að keppa; Vökull minn frá Tunguhálsi er orðinn sextán vetra en á mikið inni þótt farinn sé yfir léttasta skeiðið. Svo er líka gaman að fylgjast með efnilegum hrossum. Ræktunin er í stöðugri framför og sama má segja um reiðmennskuna og efnilega knapa,“ segir Sigurbjörn að síðustu.
Hver er hann?
Sigurbjörn Bárðarson fæddist 2. febrúar 1952 í Reykjavík og ólst upp í Stangarholti 26. Hann var í Austurbæjarskólanum og varð snemma mjög íþróttalega sinnaður. Sótti Sigurbjörn æfingar á Framvellinum fyrir neðan Sjómannaskólann.
Sem drengur var Sigurbjörn bráðefnilegur, bæði í fótboltanum og í handbolta, en fljótlega tók hestamennskan allt annað yfir – og ferillinn þar hefur verið einstakur.