Fjölskyldan Frá vinstri: Erla, Ágúst Karl, Ásta Karen, Kristín Jóhanna og Ágúst.
Fjölskyldan Frá vinstri: Erla, Ágúst Karl, Ásta Karen, Kristín Jóhanna og Ágúst.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Karlsson er fæddur 20. janúar 1935 á Fáskrúðsfirði og þar voru heimkynni hans fram yfir tvítugt. „Auk útivinnu var til búdrýginda sjálfsaflabúskapur með kú og kindur svo sem algengt var í þá daga

Ágúst Karlsson er fæddur 20. janúar 1935 á Fáskrúðsfirði og þar voru heimkynni hans fram yfir tvítugt.

„Auk útivinnu var til búdrýginda sjálfsaflabúskapur með kú og kindur svo sem algengt var í þá daga. Við systkinin urðum átta talsins. Auk mín voru sjö systur, en þar af lést ein sem ungbarn.

Uppeldið var einfalt miðað við nútímann. Engir leikskólar né opinbert aðhald, en það var mikið að gera svo vakna þurfti snemma og drífa sig í verkin sem ólokið var í gær. Leiksvæðið var helst fjaran eða bryggjurnar og ef dottið var í sjóinn var helst ekki farið heim fyrr en maður var orðinn þurr. Það kom fyrir að „fengnar voru að láni“ skektur og róið út á fjörð því þar var meiri veiðivon. Fljótlega bættust fleiri verkefni við, svo sem barnaskólinn. Þar kunnu allir að lesa. Fljótt bættust skyldustörfin við til þess að létta undir við heimilisreksturinn, síðan sveitaskyldan í fjögur sumur sem kúarektor og auk þess að keyra traktor.“

Eftir að grunnskólaskyldu lauk fór Ágúst í Eiðaskóla og tók hann þar landspróf. „Hugurinn stóð til menntaskóla, en ýmsir þættir, svo sem tímaþröng og auraleysi, röskuðu áætlun. Í stað þess var farið í starfsnám í rafvirkjun á Fáskrúðsfirði og Iðnskólann í Reykjavík. Eftir það tók ég tvo vetur í rafmagnsdeild Vélskólans í Reykjavík ásamt námskeiði í vélstjórn. Á þessum tíma kynntist ég konuefni mínu Erlu Garðarsdóttur. Við giftum okkur sumarið 1957 og hófum fljótlega búskap í Reykjavík.“

Löngunin til frekara náms lét Ágúst ekki í friði og hann hóf nám í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi við Fachhochschule Bingen, Reinland Pfalz, sumarið 1959 sem lauk svo 1963. „Stærstan hluta þessa tíma var ég einn erlendis, en Erla mín við bankastörf hér heima hjá Búnaðarbanka Íslands. Fyrsta barn okkar af þremur, Kristín, var þá fætt og fylgdi mömmu sinni. Seinustu önnina vorum við kona mín og eldri dóttir saman úti.

Upphafleg fjárhagsáætlun rann út í sandinn vegna mikilla breytinga á gengi. Árið 1959 kostaði þýska markið 4,55 krónur, en ári seinna 10,76. Fljótlega fékk ég þó góðan stuðning frá vesturþýska ríkinu, eða DAAD (Deutscher Akademischer Austauschdienst) sem ég hélt til námsloka. Ég átti kost á lengra háskólanámi eftir B.Sc.-gráðuna, en þá sagði Erla mín stopp. Þá höfðum verið meira og minna aðskilin í fjögur ár.“

Nú var stórum áfanga lokið og hélt Ágúst heim með Gullfossi frá Kaupmannahöfn. „Í stuttu sumarfríi áður hafði ég unnið hjá Rafmagnsveitum ríkisins og bauðst þar starf strax eftir útskrift. Þar var ég í rúmt ár þegar mér var boðið starf hjá Olíufélaginu hf. (Esso), sem ég þáði, einkum vegna miklu betri kjara, auk tækniáskorana, en á þessum árum var mikil uppbygging í tækni og tæknibúnaði s.s. vegna afgreiðslu á eldsneyti. Þar var ég til ársins 2002.“

Eftir að það spurðist út að Ágúst væri hættur hjá Olíufélaginu hf. stóð ekki á verkefnum og sinnti hann tækniráðgjöf víða. Má þar helst nefna Hitastýringu hf. og Borgarplast ehf.

Í langan tíma hefur Ágúst verið upptekinn við hönnun og þróun á hálfsjálfvirku björgunarskeyti sem er ætlað til þess að bjarga mönnum í sjávarháska við mjög erfiðar aðstæður. „Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Frumgerð hefur verið gerð og nokkrar prófanir, m.a. á Skerjafirði. Verið er að vinna að því að uppfæra nýja frumgerð, nýja lögun og aðlaga tæknilausnir ásamt því að vinna við gerð sjósetningarbúnaðar.

Þáttaskil urðu í tilverunni sumarið 2010. Þá lést eiginkona mín. Síðan bý ég einn að heimili okkar á Sunnuflöt í Garðabæ. Nú eru níutíu ár að baki. Framtíðin er óráðin.“

Fjölskylda

Eiginkona Ágústs var Erla Kristbjörg Garðarsdóttir, f. 26.7. 1939, d. 19.7. 2010. Hún starfaði hjá lyfjafyrirtækinu Vistor. Foreldrar hennar voru Kristín Jóhanna Sölvadóttir, f. 1.7. 1912, d. 12.11. 1981, og Garðar Þórhallsson, f. 18.4. 1914, d. 18.6. 2002.

Börn Ágústs og Erlu eru 1) Kristín Jóhanna, f. 11.11. 1957, sjúkraliði, búsett í Hafnarfirði; 2) Ásta Karen, f. 15.6. 1964, dómritari og laganemi, dóttir hennar er Hekla Karen, f. 1991; 3) Ágúst Karl, f. 7.8. 1972, hönnuður og tæknifulltrúi, búsettur í Noregi. Dætur hans eru Elfa Sól, f. 2004, og Gabríela Rós, f. 2008.

Systkini Ágústs: Hulda, f. 1922, d. 2015, Björg, f. 1923, d. 2015, Jóhanna, f. 1926, d. 1928, Lára, f. 1929, d. 2023, Aðalheiður, f. 1939, d. 2011, Valgerður, f. 1941, og Svala, f. 1944, búsett í Kópavogi.

Foreldrar Ágústs voru Karl Pétur Jóhannsson verkamaður, f. 17.1. 1893, d. 17.2. 1968, og Ásta Guðríður Hallsdóttir, húsmóðir og verkakona, f. 10.1. 1902, d. 2.3. 1963.