<autotextwrap>
Til lítils er að gefa út bækur rati þær ekki til lesenda, segir Rithöfundasamband Íslands (RSÍ). Úr þeim ranni eru komnar í samráðsgátt tillögur til hagræðingar í opinberum rekstri, samanber óskir ríkisstjórarinnar þar um. Hagkvæmt væri fyrir íslenskt samfélag, að mati sambandsins, að breyta fyrirkomulagi stuðnings ríkisins við bókaútgáfu á þá lund að fleiri njóti en forleggjarar. Þeir geta í dag fengið útlagðan kostnað við útgáfu bóka á íslensku endurgreiddan, skv. nánari reglum.
Hagkvæmara væri fyrir íslenskt samfélag að horfa þarna til virðiskeðjunnar í heild og styðja við fleiri en útgefendur, svo sem höfunda, þýðendur, bóksala, bókasöfn og lesendur. Lagt er því til að horft verði til Noregs þar sem allt að 2.000 eintök eru keypt fyrir opinbert fé af hverri útgefinni bók. Bókunum er svo dreift á söfn og í skóla, en mun stærri skammtur er tekinn af barnabókum en öðru.
„Íslenska er örtungumál í útrýmingarhættu, fjöregg sem okkur ber að hlúa að, vernda,“ segir í umsögninni sem Margrét Tryggvadóttir formaður RSÍ skrifar. „Tungumálið okkar er mikilvægur hluti af innviðum okkar og grunnstoð í samfélaginu. Stuðningur við bókmenntir og bókmenningu er lykilatriði er kemur að framgangi íslenskrar tungu. Það fjármagn spörum við annars staðar í ríkisrekstrinum, t.d. í menntakerfinu, sem nýtur góðs af afurðum íslenskra höfunda.“
Rithöfundar segja að verði norska leiðin farin dreifist betur þeir opinberu fjármunir sem varið er til stuðnings við bókaútgáfu. Útgefnar bækur muni skila sér betur til dæmis á skólasöfnin, sem séu eins misjöfn og þau eru mörg. Hagræðing felist í því að skólabókasöfn séu góð, þá sérstaklega á leikskólastiginu þar sem börn, sum af erlendum uppruna, læri íslensku, sem er mál í útrýningarhættu. sbs@mbl.is