Búfjársjúkdómur Gin- og klaufaveiki leggst aðeins á klaufdýr. Meðal einkenna eru blöðrur og sár í munni, nösum, spenum og á milli klaufa.
Búfjársjúkdómur Gin- og klaufaveiki leggst aðeins á klaufdýr. Meðal einkenna eru blöðrur og sár í munni, nösum, spenum og á milli klaufa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segist fylgjast vel með þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til í Þýskalandi eftir að gin- og klaufaveiki greindist í þremur vatnabuffalóum í Brandenburg 9

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segist fylgjast vel með þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til í Þýskalandi eftir að gin- og klaufaveiki greindist í þremur vatnabuffalóum í Brandenburg 9. janúar. Þar hafa strangar ráðstafanir verið gerðar til að hindra útbreiðslu veirunnar. Hanna Katrín segir MAST upplýsa ráðuneytið regulega um stöðu mála.

„Ég mun eiga fund með forystu bændasamtakanna í vikunni og þetta mál verður örugglega rætt þar ásamt ýmsu öðru. Það vekur traust að sjá hversu snögg og ströng viðbrögðin voru þegar tilfellið kom upp í Þýskalandi. Næstu dagar munu leiða í ljós hvernig þetta þróast og við höldum áfram að fylgjast náið með.“

Spurð hvort þetta hafi áhrif á afstöðu hennar um að flytja nýtt kúakyn frá Evrópu til landsins segir hún að það breyti hennar afstöðu ekki að svo stöddu.

„Það þarf að skoða það í stærra samhengi og ég hef fullan skilning á þeim áhyggjum sem bændur hafa þegar svona fréttir berast,“ segir ráðherrann.

Sóttvarnasvæði 10 km radíus

Þjóðverjar gripu til mikilla ráðstafana vegna smitsins og eru búnir að setja upp sóttvarnasvæði í 10 km radíus frá þeim stað þar sem smitið greindist. Innan 3 km radíuss var öllum klaufdýrum slátrað. Nokkur lönd, m.a. Bretland, hafa nú þegar bannað innflutning á vörum frá Þýskalandi. Evrópusambandið lítur svo á að óhætt sé að flytja matvæli frá Þýskalandi til annarra landa svo lengi sem það sé utan sóttvarnasvæðisins.

Fyrirskipuð eru ýmiss konar höft á tilgreindu svæði umhverfis sýktan stað, m.a. bann við flutningi á dýrum og öllu sem borið getur smitið. Dýr á svæðinu eru skoðuð og smitið rakið.

Gin- og klaufaveiki hefur ekki greinst í Þýskalandi í 40 ár. Síðasta tilfelli innan Evrópusambandsins var í Búlgaríu árið 2011. Hún er aftur á móti landlæg í mörgum löndum heims og smit getur borist með ýmsum hætti milli landa. Ein algengasta smitleiðin eru ólöglega innflutt matvæli.

Tilfelli en ekki faraldur

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að þessi veiki hafi aldrei komið upp á Íslandi og það sé gríðarlega kostnaðarsamt að hefta útbreiðslu veirunnar.

„Við flytjum ekki inn lifandi búfénað og stöndum því betur að vígi. Þetta getur borist með matvælum ef dýr komast í matvæli sem bera þessa veiru.“

Hún segir að tilfellin í Þýskalandi séu ekki faraldur og hafi ekki áhrif á matvælaöryggi.

Spurð hvernig smitið berist segir Margrét að það smitist í lofti og með lifandi búfénaði.

„Þetta er sama veiki og kom upp í Bretlandi 2001 þegar slátra þurfti sex milljónum dýra. Þetta er gríðarlega alvarlegur sjúkdómur og fyrst og fremst skelfilegur fyrir dýrin. Það er samt mikilvægt að taka fram að gin- og klaufaveikiveiran sýkir ekki fólk og fólki stafar ekki hætta af umgengni við sýkt dýr eða neyslu afurða,“ segir Margrét Gísladóttir.

Ábending Matvælastofnunar

Matvælastofnun minnir fólk á að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr erlendis, þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr áður en komið er heim. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli. Veikin leggst aðeins á klaufdýr. Hún veldur sýktum dýrum skelfilegum þjáningum. Meðal einkenna eru blöðrur og sár í munnholi, í kringum munn og nasir, á spenum og á milli klaufa. Dýrin verða því fljótt treg til að éta vegna sársauka í munni og stirð í hreyfingum vegna eymsla í fótum.