Sigurlaug Erla Pétursdóttir fæddist 8. maí 1934. Hún lést 6. janúar 2025.

Útförin fór fram 17. janúar 2025.

Held að sumarið 1990 hafi verið eftirminnilegt hjá okkur elsku amma þegar ég hringdi heim í Litlu-Hlíð og bað þig að sækja mig og Hermínu systur, en þá vorum við komin á barnaheimili vegna heimilisaðstæðna. Enn þann dag í dag finnst mér það merkilegt að ég hafi munað símanúmerið heima í sveitinni og hringt. En þú komst og sóttir okkur með Stínu og Jóa ef ég man rétt og fórum við í sveitina. Ég get hreinlega ekki ímyndað mér hvernig hefði farið fyrir okkur ef við hefðum ekki getað verið hjá ykkur í sveitinni. En að hafa verið 10 barna móðir og líka tekið okkur að sem aukabörn hefur ekki verið auðvelt. Þó að á þessum tíma væru flest börnin komin með sína eigin fjölskyldu hefur þú örugglega ekki ætlað þér að ala upp fleiri börn. En ég er svo sannarlega fullur þakklætis að hafa alist upp hjá ykkur.

Ég man að fyrstu mánuðina og árin í sveitinni var ég alltaf að vona að mamma væri að koma þegar ég heyrði í hundunum gelta. En hennar sjúkdómur var of mikill svo að sú von dvínaði með tímanum en ljótt að segja það að mér var orðið sama hvort hún kæmi eða ekki. En pabbi kom alltaf þegar hann átti frí frá sjónum, stundum tók hann tvo túra í röð og kom svo strax næst þegar hann kom í land. Svo má ekki gleyma öllum jólunum en hann kom alltaf norður nema í tvö skipti þegar við prófuðum að vera hjá móður okkar, sem var ekkert spennandi. En þvílíka spennan sem það var þegar við sáum pabba koma, þá gleymdist allt og við systkinin vorum yfir okkur spennt.

Mér finnst það hafa verið forréttindi að alast upp í sveit. Allir þurftu að taka til hendinni, sama hvort það var í fjárhúsunum eða við heimilisstörfin, og þótt maður væri kannski ekki alveg sáttur við sum hlutverkin þýddi ekkert að kvarta yfir því.

En það er svo margt hægt að segja um þig elsku amma/mamma okkar. Ég vil meina að við höfum átt æðislega æsku heima í Litlu-Hlíð, ég fékk að keyra traktor í heyskapnum þótt ég hafi verið tregur til þess fyrst um sinn. Fengum svo okkar eigin rollur, man að ég vildi bara golsóttar kindur og reyndi að bæta fleirum við hægt og rólega, sem ég reyndar fékk í gegn. En sú reynsla að hafa alist upp í sveit var góður undirbúningur þegar ég fór á vinnumarkaðinn.

Það er hægt að skrifa svo mikið um tímann okkar saman, t.d. þegar við tókum rúnt um Vatnsnesið sem þú elskaðir svo mikið. Það var gaman að hlusta á þær sögur sem þú hafðir að segja þegar þú varst ung stelpa á Illugastöðum. Ég væri til í einn rúnt aftur sem fullorðinn en það er of seint núna. Og alltaf hló ég með afa þegar hann sagði að það væri ekkert merkilegt að sjá þarna nema mold og grjót. En hann var náttúrlega að stríða þér aðeins með það, svo kom þetta glott á hann þegar þú varðst smá pirruð yfir þessu.

Nú er komin kveðjustund en það eru til nægar minningar sem hægt er að rifja upp. Afkomendur þínir eru yfir 70 talsins, sem er slatti, ég skal halda uppi heiðri þínum fyrir mína afkomendur. Við munum sakna þín elsku mamma okkar allra, pabbi og afi taka vel á móti þér.

Þangað til næst, þinn

Einar Ragnar.