Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fjögur sveitarfélög á Suðurlandi eru í efstu sætunum yfir þær byggðir landsins þar sem hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar eru skráðir og búa. Þetta sýna nýjar tölur frá Þjóðskrá sem miðast við 1. desember síðastliðinn. Hvergi er fólk sem á rætur í öðrum löndum fleira en í Mýrdalshreppi; þar eru erlendir ríkisborgarar nú alls 704 eða 65% af 1.084 íbúum sveitarfélagsins. Í Skaftárhreppi, það er á Kirkjubæjarklaustri og þar í kring, eru útlendingarnir 320 eða 45% af samanlögum íbúafjölda.
Í Bláskógabyggð, sem nær yfir til dæmis Reykholt, Geysi í Haukadal og Laugarvatn, eru borgarar frá öðrum löndum 538 eða um 36% af heildinni. í Hrunamannahreppi, það er Flúðum, er hlutfall þetta 33,9%.
Í öllum sveitarfélögunum sem hér að framan eru nefnd eru erlendir ríkisborgarar gjarnan við störf í ferðaþjónustu – og í uppsveitum Árnessýslu bætist við að margt starfar þetta fólk við garðyrkju. Báðar þessar atvinnugreinar eru nokkuð mannaflsfrekar og þar sem annað býðst ekki er því leitað eftir starfsfólki ytra, sem gefur góða raun.
Þegar horft er til landshluta þá er hæst hlutfall íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum, 32,2%, og Vestfirðir koma næst með 23,8%. Lægsta hlutfallið er á Norðurlandi eystra, 12,1%. Fólk af erlendri rót er hvergi fleira í einstökum sveitarfélögum en í Reykjanesbæ; þar eru í menginu 8.369 manns. Af þeim sem eru á vinnumarkaði hafa margir viðurværi sitt af starfsemi á Keflavíkurflugvelli.