Það er sama hvar ferðast er í Evrópu; alls staðar blasa þeir við, vindmylluskógarnir, sem enga láta óáreitta. Tvö hundruð metra háir spaðarnir sjást langar leiðir og niðurinn smýgur í eyru.
Öryggisleysið er þó verst. Þegar vindurinn er of mikill, of lítill eða enginn, þá er framleiðslan stopp og annars konar orkuuppsprettur verða að taka við.
Það verður sem sé að vera varakerfi til staðar fyrir þetta gæluverkefni sem vindmyllurnar eru, og lón og vatns- eða varmavirkjanir að geta tekið við.
Það segir sig sjálft að þetta geta ekki verið hagkvæm úrræði þegar aðrir kostir eru fyrir hendi í landi fjalla, jökla og fossa.
Þessir skógar vindanna eiga eftir að skemma ásýnd landsins og fæla ferðamenn frá. Skammsýnin er algjör að það skuli vera landsfyrirtæki þjóðarinnar sem ganga á undan. Það er ekki eins og fordæmin séu ekki fyrir hendi í næstu löndum þar sem ruðst hefur verið um fjöll og skóga til að koma þessum turnferlíkjum á sinn stað. Þetta er líka að raungerast hér.
Sunnlendingur