[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í bruni í heimsbikar kvenna í alpagreinum í Cortina á Ítalíu á laugardaginn. Hún hafnaði í 50. sæti af 54 keppendum og kom í mark á einni mínútu, 40,24 sekúndum

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir keppti í bruni í heimsbikar kvenna í alpagreinum í Cortina á Ítalíu á laugardaginn. Hún hafnaði í 50. sæti af 54 keppendum og kom í mark á einni mínútu, 40,24 sekúndum. Sofia Goggia frá Ítalíu sigraði á 1:33,95 mínútum og fertuga goðsögnin Lindsey Vonn frá Bandaríkjunum hafnaði í 20. sæti á 1:35,63 mínútum. Í gær keppti Hólmfríður síðan í risasvigi á sama stað og endaði í 46. sæti af 58 keppendum á einni mínútu, 27,59 sekúndum. Federica Brignone frá Ítalíu sigraði á 1:21,64 mínútum.

Útlit er fyrir að Elísabet Gunnarsdóttir verði næsti þjálfari belgíska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Vefmiðillinn 433.is greindi fyrst frá því að hún væri líkleg til að hreppa starfið og samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins frá Belgíu telja fjölmiðlamenn þar að næsti þjálfari liðsins verði íslenskur og verði kynntur til leiks á miðvikudaginn. Elísabet kvaddi Kristianstad í Svíþjóð í árslok 2023 eftir að hafa stýrt liðinu í fimmtán ár. Hún var lengi vel orðuð við ensku meistarana Chelsea en var síðan í fríi allt síðasta ár.

Hildur Antonsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lagði upp mark Madrid CFF sem gerði jafntefli við Valencia, 1:1, í spænsku 1. deildinni á laugardaginn. Ásdís Karen Halldórsdóttir kom inn á hjá Madrid á 79. mínútu og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið eftir komuna frá Lilleström í Noregi.

Elías Már Ómarsson skoraði sitt fjórða mark í síðustu fjórum leikjum í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar lið hans, Breda, lagði Twente að velli í gær, 2:1. Elías, sem lék í 80 mínútur, hefur skorað sex mörk alls í deildinni á tímabilinu og nýliðar Breda hafa komið talsvert á óvart en þeir eru um miðja deild.

Brynjólfur Willumsson skoraði mark Groningen þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Go Ahead Eagles í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í fyrrakvöld. Hann jafnaði í fyrri hálfleik og lék í 79 mínútur en sigurmark Go Ahead kom í uppbótartíma leiksins.

Lára Kristín Pedersen skoraði eitt marka Club Brugge þegar liðið vann Waregem örugglega, 4:0, í belgísku A-deildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Lára kom Club Brugge í 2:0 á 27. mínútu leiksins en lið hennar er í fjórða sæti deildarinnar.

Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet á Stórmóti ÍR í frjálsíþróttum í Laugardalshöllinni í gær þegar hún kastaði 16,75 metra, þótt hún væri talsvert frá sínu besta. Tvær stúlkur sigruðu í tveimur greinum í fullorðinsflokki á mótinu, Eir Chang Hlésdóttir úr ÍR í 200 og 400 metra hlaupum kvenna og Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki í langstökki og 60 metra hlaupi kvenna. Þá sigraði Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH í 60 metra hlaupi karla á 6,93 sekúndum.

Stúlkurnar í U18 ára landsliði Íslands í íshokkíi fóru vel af stað í 2. deild B á heimsmeistaramótinu í Istanbúl á laugardag þegar þær unnu risasigur á Suður-Afríku, 17:0. Friðrika Magnúsdóttir var atkvæðamest með fjögur mörk og fjórar stoðsendingar. U20 ára lið karla tapaði hins vegar 2:0 fyrir Spáni í fyrsta leik sínum í 2. deild B í sínum aldursflokki á Tyrklandi í gær.

Jón Axel Guðmundsson og samherjar hans í San Pablo Burgos héldu áfram sigurgöngu sinni í fyrrakvöld og unnu Ourense, 106:81, í spænsku B-deildinni í körfuknattleik. San Pablo er á toppnum með sextán sigra í 17 leikjum. Jón Axel lék í 19 mínútur, skoraði 9 stig, átti 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst.

Baldvin Þór Magnússon úr UFA bætti eigið Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi karla um tæplega tvær og hálfa sekúndu þegar hann sigraði í greininni á móti í Sheffield á Englandi í gær. Baldvin hljóp á 7:45,11 mínútum en fyrra met hans frá 2021 var 7:47,51 mínúta. Hann varð rúmum sex sekúndum á undan næsta manni, Íranum Sean Tobin.

Knattspyrnudeild Víkings hefur boðað til blaðamannafundar í dag og þar er reiknað með að Sölvi Geir Ottesen verði kynntur til leiks sem nýr þjálfari karlaliðs félagsins.