Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir að gefnu tilefni: Í Kópavogi klúður var er kjörgögn skyldi velja. Í bráðakvelli bauðst þá svar frá Borgarnesi – að telja. Guðjóni Jóhannessyni varð ekki svefnsamt: Hvíldin eigi er mér trygg í il hef náladofa

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir að gefnu tilefni:

Í Kópavogi klúður var

er kjörgögn skyldi velja.

Í bráðakvelli bauðst þá svar

frá Borgarnesi – að telja.

Guðjóni Jóhannessyni varð ekki svefnsamt:

Hvíldin eigi er mér trygg

í il hef náladofa.

Andvaka ég út af ligg

en ætlaði mér að sofa.

Taldi ær og ein var stygg

eg vil henni gleyma.

Andvaka ég út af ligg

en ætlaði mér að dreyma.

Nokkurn kláða hef við hrygg

honum skal nú blóta.

Andvaka ég út af ligg

en ætlaði mér að hrjóta.

Það ég bæði held og hygg

að hér sé komin staka.

Andvaka ég út af ligg

og ætla bara að vaka.

Jón Gissurarson kannast við vandamálið:

Mér þitt væna vísnabú

vel í eyrum lætur.

Eg hef verið eins og þú

andvaka um nætur.

Oft mig vermir andans þrá

ef ég svefni tapa.

Finnst þá gott að fara á stjá

ferskeytluna skapa.

Það hlýtur þá að hafa þurft nokkrar andvökunætur hjá Gunnari J. Straumland til að skapa þennan „aldýra ljóma“:

Ljómi bindur lyndisóð,

lofar nýjum degi.

Óma vindsins yndisljóð

ofar skýjavegi.

Eins og glöggir sjá rímar hvert orð seinnipartsins við þann fyrri. Að síðustu „maðurinn með hattinn“:

Það er margt sem mæðir

menn og konur hér.

Tíminn áfram æðir

og út í buskann fer.

Pétur Stefánsson kastar fram:

Andinn þræðir beina braut

bæði' í svefni og vöku.

Ekki finnst mér erfið þraut

að yrkja góða stöku.

Hörður Birgir Hjartarson sendir honum kveðju:

Anda bæði inn og út,

auðvelt, þó er skrítið;

barði saman bögubút

bara fyrir lítið.