Gylfi Pálsson fæddist á Akureyri 1. febrúar 1933. Hann lést 29. desember 2024.

Foreldrar hans voru Páll Sigurgeirsson kaupmaður, f. 1896, d. 1982, og kona hans Sigríður Oddsdóttir, f. 1890, d. 1975. Hann var yngstur fimm systkina. Hálfsystkini og sammæðra voru Oddur, Helga Ingibjörg og Magnús Haukur Helgabörn en albróðir Gylfa var Sverrir. Þau eru nú öll látin.

Gylfi ólst upp á Brekkunni á Akureyri. Eftir skólaskyldu, þegar Gylfi var 14 ára, fór hann í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent 1952. Þá tóku við ár á togurum á Grænlandsmiðum og vinna á síldarplönum á Norðurlandi. Gylfi stundaði nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist árið 1963 með BA-próf í mannkynssögu og bókasafnsfræði ásamt prófi í uppeldis- og sálarfræðum til kennsluréttinda. Hann kenndi við Réttarholtsskóla á árunum 1958-1966. Þá varð hann skólastjóri við Gagnfræðaskólann á Brúarlandi, síðar Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit, árin 1966-1991. Starfsferlinum lauk hann á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis árið 1994

Gylfi stundaði mörg önnur störf samhliða skólastjórn. Hann var leiðsögumaður um landið á yngri árum, veiðivörður í Elliðaánum, héraðsbókavörður Kjósarsýslu auk þess sem hann gegndi ýmsum trúnaðarstörum fyrir sveitarfélag sitt. Þá þýddi hann ýmsar bækur og fjölda fræðslumyndbanda sem hann las einnig inn á fyrir sjónvarpið, Námsgagnastofnun, Sagafilm o.fl. Síðustu árin fékkst hann við ritstörf og prófarkalestur.

Gylfi var mikill náttúruunnandi. Hann ferðaðist um landið vítt og breitt, ýmist á jeppa eða fótgangandi. Stangveiði var aðaláhugamál hans og ástríða. Gilti einu hvort hann egndi fyrir lax í straumþungri á, silung í spegilsléttu fjallavatni eða fisk í flæðarmáli. Gylfi gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir stangveiðisamfélagið á Íslandi, sat í stjórn Landssambands stangveiðimanna, var formaður Ármanna og ritstjóri Veiðimannsins svo nokkuð sé nefnt.

Gylfi kvæntist Steinunni Katrínu Theodórsdóttur meinatækni árið 1955. Börn þeirra eru Kristín, Þóra gift Hallgrími Snorrasyni, Snorri, Kári í fjarbúð með Gunn-Britt Retter, Teitur, nú látinn, var kvæntur Soffíu Ingibjörgu Friðbjörnsdóttur, og Trausti, kvæntur Sigríði Ragnarsdóttur. Afkomendur Gylfa og Steinunnar eru nú 29 talsins.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. janúar 2025, kl. 13.

Streymt verður frá athöfninni.

Faðir minn, Gylfi Pálsson, er allur. Margs er að minnast við fráhvarf hans og það sem mér dettur fyrst í hug eru þau áhugamál sem við áttum sameiginleg, sérstaklega útivist og útilegur.

Sú minning sem er mér efst í huga er frá sumrinu 1980. Við hugðumst ganga norður yfir Arnarvatnsheiði, slógumst í för með Ferðafélagi Íslands og ókum með þeim í langferðabíl til Surtshellis og héldum þaðan fótgangandi á brattann. Hugmyndin var sú að taka eins lítið með af vistum og við gátum komist af með en veiða okkur fisk til matar á leiðinni. Eftir að hafa lifað af Leggjarbrjótana var förinni haldið áfram yfir grösugri slóðir. Mörg voru vötnin sem við reyndum við og ekki fá Arnarvötn; Arnarvatn syðra, Arnarvatn nyrðra, Arnarvatn litla og við renndum í sum þeirra með misjöfnum árangri en ekki sultum við á leiðinni. Reyndar átti það ágætlega við okkur að berja treg vötn, því ásetningurinn var að draga nóg af fiski til að hafa í okkur en ekki meira en það og of gjöful vötn gáfu okkur lítinn tíma til veiða, sem var aðaltilgangur ferðarinnar.

Margt er að sjá í svona leiðangri og það sem mér er hvað minnisstæðast voru hrossabein við Reykjavatn þar sem útilegumaður eða -menn höfðu slátrað stolnum hestum. Áminning um fortíð þar sem kjör fátæks fólks voru náðarlaus. Pabbi var fróður og allaf góður til frásagnar og virtist kunna sögur og fróðleik um hverja þúfu sem varð á vegi okkar, kunni líka ógrynni af vísum um landslag og kennileiti, þekkti þjóðleiðir frá Sturlungaöld og sagði frá í hvívetna. Þetta var ógleymanlegt fyrir mig tvítugan og lagði grunn að áhuga mínum til að ferðast til fótar með létt tjald á bakinu.

Ekki man ég hversu lengi við röltum um heiðina en síðustu nóttina gistum við í gangnaskála við Arnarvatn hið stóra og héldum af stað til byggða í bítið morguninn eftir. Við fylgdum Austurá ef ég man rétt. Í hana féllu minni lækir og ár og í einni þeirra sáum við fullt af boltasilungi og renndum náttúrlega fyrir'ann og ekki stóð á töku. Fyrst þetta var síðasti dagurinn létum við eftir okkur að landa allmörgum fiskum sem reyndust nokkur byrði að bera en allt var niður í móti svo við létum okkur hafa það. Við vorum vissir um að við hefðum, fyrstir allra, fundið leynistað með gefna mokveiði og töluðum um að snúa aftur seinna til þess eins að sækja afla í þessa kvísl sem aðeins hann og ég vissum um. Ekkert varð úr þeirri ráðagerð, þar sem ég fluttist til fjarlægra landa og hef búið erlendis alla tíð síðan en ásetningurinn lifði – um að skreppa til heiðar og snúa aftur með vistir til heils vetrar eftir stutta dvöl á leynistaðnum okkar.

Nú er Gylfi fallinn svo ég er sá eini sem þekki staðinn og er staðráðinn í að láta verða af þessu einhvern daginn; landa einum stórum og grafa hann eftir uppskrift pabba sem aldrei bregst.

Kári Gylfason.

Hér eftir hafa miðvikudagar klukkan 4 allt aðra merkingu en lengi vel hingað til. Tíminn frá því nákvæmlega klukkan 4 til nákvæmlega 5 var okkar tími, okkar frændanna, já … alla miðvikudaga. Reyndi alltaf að mæta á mínútunni 4, ekki 5 mínútur í eða 10 mínútur yfir, og var sömu nákvæmni gætt varðandi lengd heimsókna. Á mínútunni 5 var fundi slitið. Engar málalengingar og algjörlega ástæðulaust að framlengja gleðistund, sem var í alla staði vel heppnuð.

Já, þetta voru góðir fundir hjá okkur Gylfa frænda, báðum ættuðum frá Stóruvöllum í Bárðardal, fundir þar sem tekið var á helstu þjóðfélagsmálum, viðraðar ýmsar ólíkar skoðanir, úrlausnarhugmyndum vandamála hent á loft, en aðallega þó … sagðar sögur.

Við Gylfi vorum bræðrasynir, ljósmyndarinn Eðvarð og stórkaupmaðurinn Páll í Brauns-verslun voru sem sagt bræður.

Töluverður aldursmunur var á okkur frændum þannig að lengi framan af var Gylfi einungis frændinn sem sagðar voru frægðarsögur af, eins og þegar hann synti ungur maður „í fullum herklæðum“ yfir Skjálfandafljót eða barðist við gapandi íströll á síðutogurum þeirra Akureyringa á Grænlandsmiðum. En aðallega man ég hann þó sem frændann sem á heitum sumarkvöldum kom færandi hendi í Möðruvallastrætið með glænýjan silung í soðið, en Gylfi hefur í áratugi verið einn kunnasti stangveiðimaður landsins.

En hvaða sögur voru þá sagðar? Jú, alls kyns sögur af mönnum og málleysingjum, sögur af landi og þjóð og síðan veiðisögur, meiri veiðisögur og svo enn meiri veiðisögur.

Það má teljast með ólíkindum að ég hafi haft gaman af frásögnum um misvel heppnaðar veiðiferðir þessa frænda míns, mislynd veður, úrhelli eða þá stafalogn með biksvörtum mýskýjum eða hvursu lengi þurfti að þreyta þennan laxinn eða hinn áður en hann svo annaðhvort slapp fyrirvaralaust eða var hysjaður spriklandi í háfinn … ég sem aldrei á ævinni hef haft gaman af veiðiskap hvorki fiska né fugla. En frásagnir frænda voru það mergjaðar að ég hafði unun af að hlusta eða lesa, frásagnargleðin þvílík og orðfærið það kjarnyrt og blæbrigðaríkt, að mér fannst á stundum að ekkert væri það áhugamál sem gleddi mig meir en veiðiskapur nema ef væri blúndusaumur og/eða sláturgerð.

„Nú hlaut að líða að endalokunum, hver sem þau yrðu. Ég sá ekki betur en öngullinn stæði sæmilega vel í fiskinum en aldrei var of varlega farið. Þegar laxinn loks gafst upp sætti ég lagi og dró hann í bergskoruna, lagði kjammann á honum upp á klapparhaftið, hélt átakinu á línuna stöðugu, læddist aftur fyrir þennan stóra búk, kraup á kné, greip hægri hendi um sporðstæðið, lagði stöngina frá mér á klöppina, færði vinstri hönd undir miðjan fiskinn, stóð á fætur og lyfti honum um leið upp á bergstallinn.“

En … „nú er mál að linni, frændi, það er komið nóg“, finnst mér ég heyri hann segja með sinni djúpu, karlmannlegu rödd. „Óþarfi að hafa fleiri orð um ekki merkilegri mann en mig … og klukkan rétt að verða 5.“

Sértu kært kvaddur, elsku frændi, og takk fyrir góðmennsku þína, frændsemi og vináttu, já og … „góða skemmtun“.

Egill
Eðvarðsson.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

(V. Briem)

Ég man alltaf sólskinsríka haustdaginn 1980 þegar ég hitti Gylfa Pálsson, skólastjóra Gagnfræðaskólans í Mosfellsbæ (Brúarlandi), í fyrsta sinn á kennarastofunni í Gaggó Mos. Hann heilsaði mér yfirvegaður með styrkri og traustvekjandi hendi, brosti sínu hlýja brosi, kynnti sig, bauð mig velkomna og í sömu andrá og hann bauð mér kaffi spurði hann með sinni þekktu útvarpsrödd: „Valgerður mín, hverra manna ert þú?“ Þarna var ég sko heppin að vera alin upp af miklum ættfæðingum. Ég gat því rakið ættir mínar í báðar og stóðst prófið. Tilefni fundarins var að Helgi Jónasson fræðslustjóri Reykjanesumdæmis (1976-1996) sendi mig, nýliðann í starfi sérkennslufulltrúa á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis, á fund Gylfa til að ræða við hann um viðbrögð skólans við sérkennsluþörfum nemenda. Gengið var í málið af miklum skörungsskap, röggsemi og einurð. Gylfi fékk Árna Magnússon yfirkennara með sér í málið og þeir brugðust skjótt við hugmyndum starfsfólksins. Þannig var Gylfi. Hann var ekkert að slá slöku við.

Eftir langt og farsælt skólastjórastarf hóf Gylfi tímabundið starf (til 1996) á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis sem forstöðumaður rekstrardeildar. Verkefnin sem hann tók að sér voru ákveðin frágangsverkefni þar sem verið var að leggja fræðsluskrifstofurnar í landinu niður.

Árið 1994 þegar ég tók við starfi skólastjóra í Smáraskóla var Gylfi við störf á fræðsluskrifstofunni. Þá fékk ég hann til að vera með einstakt námskeið fyrir börnin í skólanum, foreldra og starfsmenn um fugla. Námskeiðið stóð í nokkrar vikur. Á fyrsta fundi var fræðsla um íslenska staðfugla og farfugla með myndasýningu.

Annar fundurinn var skoðunarferð um næsta nágrenni skólans. Við skoðuðum fuglalífið við Hvammkotslækinn (Kópavogslækinn) og vestan við Kópavogsbrúna á merkilegustu leiru landsins þar sem sandlóan kemur við á vorin í þúsundavís. Þá sagði Gylfi okkur allt um Þinghólinn og þjóðfundinn. Þriðji fundurinn fór í gönguferð um Álftanes þar sem margæsin á viðdvöl. Á fjórða fundi var farið með rútu suður á Reykjanesskaga að Hafnarberginu og skoðað hvernig ólíkar fuglategundir raða sér upp í berginu í sátt og samlyndi. Þetta var einstakt námskeið og ógleymanlegt.

Það hefur verið gaman að fylgjast með ljóðagerð, hækugerð, Gylfa á Fésbókinni undanfarin ár. 1. febrúar 2020 skrifar Gylfi: tíminn líður hratt; fagna aldarafmæli; eftir þrettán ár! Ég hafði samband við Gylfa fyrir rúmum mánuði, ætlaði að fá hann í Menntaspjallið til að rifja upp með mér síðustu ár fræðsluskrifstofunnar. Hann bað mig að hinkra með það. Hann var ekkert á förum.

Þakklæti er mér efst í huga fyrir gefandi samstarf okkar Gylfa á sviði skólamála og ég bið góðan guð að blessa þennan mæta öðling sem kom svo mörgu góðu til leiðar.

Ég sendi fjölskyldu Gylfa mínar innilegustu samúðarkveðjur á þessari kveðjustund.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt

(V. Briem)

Valgerður Snæland Jónsdóttir.

Kveðja frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur

Genginn er félagi nr. 11.

Gylfi Pálsson var ötull talsmaður verndunar Elliðaánna. Hann var veiðivörður í ánum í kringum 1960 þar sem eitt af verkefnunum var að flytja laxa með vöruflutningabílum upp yfir stíflu og sleppa í Fjárhúsahyl. Gylfi hafði mikla þekkingu á ánum og hafði gaman af að miðla henni og þá gjarnan til ungra veiðimanna.

Hann var ritstjóri Veiðimannsins, málgagns Stangaveiðifélagsins, á árunum 1994 til 2001, þar birtust margar áhugaverðar greinar og hafði Gylfi sérstakan hæfileika í að þefa uppi góðar veiðisögur og á þar nokkrar sjálfur sem prýða blaðið. Gylfi var sæmdur silfurmerki og háttvísiverðlaunum SVFR fyrir óeigingjarnt starf í þágu SVFR í gegn um tíðina. Hann var Stangó-maður.

Gylfi lét til sín taka þegar kom að hagsmunum veiðimanna, sat í stjórn Landssambands stangaveiðifélaga á árunum 1978-1986 og var þar formaður um árabil. Hann var formaður Ármanna 1981-1985.

Ég kynntist Gylfa árið 2007 þegar við vorum spyrt saman í verkefni sem stjórn SVFR hratt af stað til að halda utan um sögu félagsins. Gylfi Pálsson var beðinn að taka viðtöl við átta valinkunna veiðimenn og -konur sem höfðu komið við sögu Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Við Gylfi, ásamt Einari Rafnssyni, unnum að þessu í tæp tvö ár, en þá var verkefnið sett á ís. Nú hefur rykið verið dustað af upptökunum og hluti afrakstursins kominn á vef SVFR, félagsmanna til að njóta. Gylfi skilur eftir sig ómetanlegar heimildir fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur. Það var gaman að vinna með Gylfa; hann var glæsilegur maður með rödd sem engum gleymist.

Gylfi snaraði vísu Bills Herricks rithöfundar Að leiðarlokum yfir á íslensku og fer vel á að kveðja góðan dreng með þessum orðum:

Árniðurinn er hljóðnaður,

vertíðin á enda.

Hinsta sinni set ég stengurnar

í skotið bak við hurðina.

Þótt ferlinum sé lokið

og ég selji veiðitækin

í hendur barna minna og vina

bý ég að góðum minningum

um stríða strengi og djúpa hylji

en framar öðru góða félaga

sem bíða mín neðar við ána;

handan næstu beygju.

Farðu vel kæri.

Ragnheiður Thorsteinsson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur.